Szeged Stefán Rafn Sigurmannsson fer til Ungverjalands í sumar.
Szeged Stefán Rafn Sigurmannsson fer til Ungverjalands í sumar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ívar Benediktsson iben@mbl.is Stefán Rafn Sigurmannsson verður kynntur til sögunnar sem nýr leikmaður ungverska handknattleiksliðsins Pick Szeged á morgun, í síðasta lagi um helgina. Þetta hefur Morgunblaðið samkvæmt heimildum.

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Stefán Rafn Sigurmannsson verður kynntur til sögunnar sem nýr leikmaður ungverska handknattleiksliðsins Pick Szeged á morgun, í síðasta lagi um helgina. Þetta hefur Morgunblaðið samkvæmt heimildum. Samkomulag er í höfn á milli Aalborg Håndbold og Pick Szeged um kaup síðarnefnda liðsins á Stefáni frá Álaborgarliðinu. Stefán Rafn á enn tvö ár eftir af samningi sínum við Danina sem Ungverjarnir greiða upp.

Stefán Rafn flytur til Szeged í sumar. Borgin er sú þriðja fjölmennasta í Ungverjalandi með um 170 þúsund íbúa.

Sviinn Jonas Källman og Ungverjinn Bendegúz Bóka eru núverandi vinstri hornamenn Pick Szeged. Ekki hefur fengið staðfest hvor þeirra yfirgefi liðið eftir þessa leiktíð en vitað er að samningur Källmans rennur út um mitt þetta ár. Bóka er 23 ára gamall og kom til liðsins í fyrra.

Pick Szeged er annað af tveimur þekktustu og fremstu handknattleiksliðum Ungverjalands í karlaflokki síðustu þrjá áratugi eða svo. Félagið var stofnað árið 1961 en fór ekki að láta kveða að sér í fremstu röð í heimalandi fyrr en eftir miðjan áttunda áratug síðustu aldar.

Pick Szeged er komið í 16 liða úrslit í Meistaradeild Evrópu, er í efsta sæti deildarkeppninnar í Ungverjalandi, stigi á undan Aroni Pálmarssyni og samherjum í Veszprém. Hermt er að liðið eigi eina tryggustu og hávaðasömustu stuðningsmenn í Evrópu og heimavöllur liðsins sé nær óvinnandi vígi og óvíða sé erfiðara að sækja sigur en á hann.

Juan Carlos Pastor, fyrrverandi landsliðsþjálfari Spánar, hefur þjálfað lið Pick Szeged frá árinu 2013. Szeged var síðast ungverskur meistari fyrir 10 árum en hefur síðan hafnað í öðru sæti á eftir Veszprém.