[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég finn fyrst og fremst til með félaginu sem er ekki lengur til og bænum í heild að svona skuli hafa farið,“ segir Sunna Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik, um liðið sitt Halden HK sem óskaði fyrir skemmstu eftir gjaldþrotaskiptum. Halden leikur ekki fleiri leiki í norsku úrvalsdeildinni á þessu tímabili og hafa úrslit leikja liðsins verið strikuð út. Þar af leiðandi standa aðeins 11 lið eftir í deildinni á lokasprettinum.

Sunna glímir við meiðsli í hné og það var ljóst áður en Halden óskaði eftir gjaldþrotaskiptum að hún léki ekki meira með liðinu hvort eð er frá og með síðustu mánaðamótum. Sunna sagði við Morgunblaðið að hún gæti sótt laun í þrjá mánuði eins og lög gera ráð fyrir í Noregi þegar fyrirtæki fara í gjaldþrot. Hins vegar er óljóst hvað tekur við á næsta keppnistímabili, en hún skrifaði undir tveggja ára samning við Halden á síðasta sumri.

„Fyrir mig breytir þetta svo sem ekki miklu um þessar mundir þar sem ég er komin á sjúkraskrá og átti að vera út tímabilið en ég var með samning á næsta ári og sá fram á að vera hér áfram,“ segir Sunna, en Halden er frá 30 þúsund manna bæ í suðausturhluta Noregs, skammt frá sænsku landamærunum.

Sunna segir að nokkurrar bjartsýni hafi gætt þegar hún gekk til liðs við félagið í fyrrasumar. Það hafi verið í Evrópukeppni leiktíðina á undan. Fjárhagurinn hafi verið veikur og af þeim ástæðum hafi Halden hafið keppni í deildinni með tvö stig í mínus. Vonir hafi staðið til að fram undan væri betri tíð með blóm í haga og mestu fjárhagserfiðleikarnir væru úr sögunni.

„Í desember fengum við að vita að það væru einhver vandræði en heyrðum svo ekkert meira af því fyrr en nokkru áður en stjórn félagsins óskaði eftir gjaldþrotaskiptum,“ sagði Sunna og bætti við að fyrstu fregnir hefðu verið að liðið lyki keppnistímabilinu en ekki stæði til að senda lið til leiks á næsta keppnistímabili. Síðan kom yfirlýsing stjórnarinnar þar sem óskað var eftir gjaldþrotaskiptum. Þá hafði bæjarfélagið m.a. neitað að hlaupa undir bagga með því að veita félaginu lán eða styrk til áframhaldandi reksturs.

Félagaskiptaglugginn lokaður

„Leikmenn sitja uppi atvinnulausir og geta ekki skipt um klúbb, þar sem félagaskiptaglugginn er lokaður. Þetta á einnig við um yngri flokka starf, þar eru börn sem hafa ekkert um þetta að segja og fá ekki einu sinni að mæta á æfingu lengur,“ segir Sunna. „Margar stelpur sem hafa verið í klúbbnum í mörg ár eru mjög sárar og reiðar yfir að hafa ekki verið látnar vita af þessu fyrr. Sumar hafa ekki einu sinni fengið að skipta um klúbb vegna þess að þær eru með samning en svo gerðist þetta.

Þetta er ótrúlega leiðinlegt og ég held að flestum þyki skrítið að stjórnin hafi ekki reynt meira til að halda lífi í klúbbnum, að minnsta kosti fram á vor. Forráðamenn liðsins spurðu til dæmis aldrei neinn hvort við eða þjálfarar værum viljug til að taka á okkur launalækkun. M.a. þess vegna er líka svona mikil reiði gagnvart stjórninni,“ segir Sunna Jónsdóttir, landsliðskona í handknattleik, sem næstu vikur mun einbeita sér að því að ná fullri heilsu vegna meiðsla í hné en hún gengst undir aðgerð í þessum mánuði eins og greint var frá í Morgunblaðinu í síðasta mánuði.

Fleiri lið í vanda

Glassverket, liðið sem Birna Berg Haraldsdóttir landsliðskona leikur með, var svo gott sem gjaldþrota undir lok síðasta árs þegar upp komst um fjárdrátt starfsmanns félagsins. Á elleftu stundu tókst að bjarga liðinu fyrir horn, að minnsta kosti út keppnistímabilið, eftir að leikmenn tóku á sig mikla launalækkun og þjálfarinn afþakkaði laun auk þess sem sveitarfélagið í Drammen hljóp undir bagga með fjárhagsstuðningi. Toppliðið Larvik er líka í miklum fjárhagslegum vandræðum.