Lengi hefur verið barist fyrir bættri stöðu kvenna í atvinnulífinu en ný úttekt á stjórnum lífeyrissjóðanna leiðir í ljós að sú barátta gengur upp og niður.
Lengi hefur verið barist fyrir bættri stöðu kvenna í atvinnulífinu en ný úttekt á stjórnum lífeyrissjóðanna leiðir í ljós að sú barátta gengur upp og niður. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Hlutfall kvenna í stjórnum 19 stærstu lífeyrissjóðanna hérlendis hefur lækkað á síðustu tveimur árum. Fleiri konur eru þó í forystu á vettvangi þeirra.

Yfir 19 stærstu lífeyrissjóðum landsins, sem hafa í vörslu sinni 99% af lífeyriseign landsmanna, sitja 118 stjórnarmenn. Af þeim eru 55 konur og 63 karlar. Konur skipa því 45% stjórnarsætanna á vettvangi sjóðanna sem falið er að ávaxta ríflega 3.500 milljarða sjóðeign íslensks launafólks. Hlutfall kvenna í stjórnum sjóðanna hefur lækkað frá árinu 2015 þegar hlutfallið var nær alveg jafnt. Þá voru 119 sæti í stjórnum sjóðanna og voru konur 59 í þeirra hópi og karlarnir 60. Athygli vekur að í öllum þeim sjóðum þar sem fjöldi stjórnarmanna stendur á oddatölu, að einum sjóði undanskildum, skipa karlar meirihlutann á móti konum.

Þrátt fyrir að hlutfall kvenna í stjórnum sjóðanna hafi lækkað á síðustu tveimur árum þá hafa fleiri konur tekið að sér stjórnarformennsku á vettvangi þeirra. Þannig eru stjórnir fimm sjóða af nítján undir forystu kvenna en þeir voru aðeins þrír talsins árið 2015. Þá vekur einnig sérstaka athygli að í þremur stærstu lífeyrissjóðunum, Lífeyrissjóði verslunarmanna, Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins og Gildi, eru konur formenn en sjóðirnir þrír telja um helming alls lífeyriskerfisins í krónum talið.

Á síðustu tveimur árum hefur reynsla kvenna á vettvangi sjóðanna þokast upp á við að meðaltali og er hún nú ríflega 5 ár en á sama tíma hefur reynsla karlanna, vegna endurnýjunar, staðið í stað og telst nú að meðaltali tæp 8 ár.

Á sama tíma og bilið í starfsaldri minnkar hefur einnig dregið saman með hópunum tveimur í lífaldri. Þannig eru konurnar að meðatali 52 ára en karlarnir 56 ára. Munurinn er fjögur ár en var tæp sex ár fyrir tveimur árum.

Á miðopnu ViðskiptaMoggans í dag er rýnt í forvitnilegar staðreyndir varðandi stjórnir lífeyrissjóðanna og meðal annars varpað ljósi á launaþróun þeirra á síðustu árum.