Nokkur umræða hefur sprottið upp um samræmd próf eina ferðina enn. Víkverji á það til að loka eyrunum þegar hann heyrir minnst á fyrirbærið, Guðs lifandi feginn því að hann sjálfur þurfi ekki að sitja þessi próf.

Nokkur umræða hefur sprottið upp um samræmd próf eina ferðina enn. Víkverji á það til að loka eyrunum þegar hann heyrir minnst á fyrirbærið, Guðs lifandi feginn því að hann sjálfur þurfi ekki að sitja þessi próf. Ekki að Víkverja hafi gengið illa á prófunum á sínum tíma, öðru nær. Allt á sér hins vegar sinn tíma.

Raunar skilst Víkverja að það sé ekki það sama, samræmt próf og samræmt próf. Samræmdu prófin sem Víkverji tók voru nánast upphaf og endir alls skólastarfs á þeim tíma. Lélegur árangur í prófunum þá hefði hugsanlega þýtt að Víkverji hefði endað sem trésmiður eða pípari frekar en blaðamaður. Eftir á að hyggja hefði það kannski verið sniðugra, svona peningalega séð.

Prófin í dag eru hins vegar sögð vera könnunarpróf, tæki fyrir skólann og þann sem þreytir prófið til að sjá hvar menn standa og hvar þurfi úrbætur, en ekki úrslitaraunin fyrir framhaldsskólavistina. Líklega er það betra en gamla lagið. Það er samt eitthvað í risaeðluhaus Víkverja sem fær hann til þess að hugsa: „hva, þurfa börnin þá barasta ekkert að læra?“ þegar hann hugsar um samræmdu prófin sem eitthvað annað en þau svipugöng sem hann sjálfur gekk í gegnum fyrir margt löngu.

Reynslan hefði þó átt að kenna Víkverja það að varast slíkar hrokahugsanir. Hann er til að mynda alls ekkert viss um að hann myndi ná neinum sérstökum árangri í prófunum ef hann þyrfti að þreyta þau nú. Þá er það furðurík tilhneiging hjá fólki að hugsa til baka og segja að hlutirnir hafi verið betri í gamla daga. Samræmdu prófin sem Víkverji tók voru að vissu leyti barn síns tíma og hver veit nema það hefði verið til betri leið til þess að meta námsgetu hans þá en með þeim prófum og tilheyrandi magasári?