Úrval Fina má kylfur í öllum verðflokkum og sumar algjör tækniundur.
Úrval Fina má kylfur í öllum verðflokkum og sumar algjör tækniundur.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Byrjendur geta keypt hálft sett eða notað sett til að spara. GPS-fjarlægðarmælar passa á úlnliðinn eins og lítið úr og segja til um nákvæmlega hversu langt er í næstu holu.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Golfbúðin í Dalshrauni 10 er sennilega elsta golfverslun landsins. Sigurgísli Skúlason er eigandi Golfbúðarinnar og hefur staðið þar vaktina allt frá því að hann stofnaði fyrirtækið fyrir um tveimur áratugum. Hann segir mikla uppbyggingu hafa átt sér stað í íþróttinni á þessum tíma og að vinsældir golfsins vaxi jafnt og þétt.

Hjá Golfbúðinni má finna allt sem golfarinn þarfnast, en auk þess að selja úrval af kylfum, töskum og fatnaði selur verslunin einnig golfvallarvörur svo að halda megi æfingasvæðinu í góðu lagi.

„Golfáhugi landsmanna jókst mikið á góðæristímabilinu en svo kom smávegis lægð eftir hrunið. Núna er kaupmáttur Íslendinga farinn að aukast á ný og með batnandi efnahag og atvinnuástandi virðast fleiri láta það eftir sér að sinna þessu áhugamáli sínu betur. Þá skemmir styrking krónunnar ekki fyrir, né heldur að tollar á íþróttavörum voru felldir niður, sem skilar sér í því að innfluttu golfvörurnar eru orðnar ódýrari,“ segir Sigurgísli og bætir við að mjög ánægjulegt sé að sjá að konur verði æ meira áberandi í golfíþróttinni.

Með kylfurnar út í heim

Eins og við er að búast er mest að gera í verslun Sigurgísla yfir hásumarið, en þar með er ekki sagt að búðin standi tóm á öðrum árstímum. „Hægt er að stunda golf hér á landi fimm til sex mánuði á ári, en ég sé að á öðrum tímum ársins eru golfáhugamenn duglegir að ferðast með golfsettið til útlanda. Margir láta það eftir sér að fara t.d. í stutta golfferð til Spánar eða Kanaríeyja þegar á veðrið er orðið of kalt og blautt til að gaman sé að spila golf hér heima. Víða er líka búið að koma upp mjög góðri heilsársaðstöðu til æfinga, s.s. í Básum eða í golfhermum innanhúss.“ Gaman er að eiga veglegt og fullkomið golfsett en margir óttast að ef þeir fái golfbakteríuna kalli það á mikil útgjöld enda búnaðurinn ekki ókeypis. Sigurgísli segir vissulega hægt að finna mjög dýrar golfkylfur á markaðinum en byrjendur geti eignast ágætis sett fyrir 50-60.000 kr. „Þetta er eins og í hjólreiðunum, það er bæði hægt að finna reiðhjól á mjög viðráðanlegu verði og fullkomin og lauflétt hjól sem geta verið mjög dýr. Ef keypt er fullt byrjendasett, og að auki skór, fatnaður, hanski, golfkerra og boltar má reikna með að allur pakkinn kosti í kringum 100.000 kr, en það má alveg láta duga í byrjun að kaupa hanska, pútter og eina góða kylfu eða kaupa hálft sett. Svo er alveg í dæminu að kaupa notaðar kylfur.“

Eins og að vinna með gott verkfæri

Framleiðendur golfbúnaðar leitast stöðugt við að bæta kylfur og kúlur og nefnir Sigurgísli að boltarnir hafi tekið svo miklum framförum á undanförnum áratugum að þeir drífi allt að 20-40 metrum lengra. „Smiðir þekkja það vel að það getur verið töluverður munur á að vinna með venjulegri sög og góðri sög, og það sama er að segja um fullkomnustu kylfurnar, sem hjálpa kylfingunum að slá lengra og af meiri nákvæmni. Útkoman er sú að fólk nær oftar að slá sitt besta högg með góðum kylfum. Byrjandinn þarf þó fleira en góðar kylfur til að bæta árangurinn, en ef hann leggur sig fram við æfingarnar hjálpa betri kylfurnar honum.“

„Hér á landi má reikna með að kosti á bilnu 300-400.000 kr. að koma sér upp golfsetti af allra flottustu gerð,“ segir Sigurgísli og setur þessi útgjöld í samhengi við önnur áhugamál: „Hingað kom nýlega drengur sem var að fermast og fékk að velja sér mjög vandað golfsett. Þegar ég nefndi við móðurina hvort golfsettið væri ekki svolítið dýrt fyrir svona ungan dreng benti hún á að ungi kylfingurinn væri líka að spara sér fyrir harmonikku sem kostaði um 500.000 kr. Verðið getur því verið mjög afstætt.“

Með fjarlægðina á hreinu

Í Golfbúðinni er hægt að finna alls kyns aukabúnað sem getur gefið forskot í leiknum. Sigurgísli segir t.d. miklu skipta fyrir höggafjöldann að ná góðu valdi á púttinu og margir hafi bæði gagn og gaman af að hafa púttmottu í stofunni heima eða á skrifstofunni. „Fjarlægðarmælir getur líka hjálpað mikið þegar út á golfvöllinn er komið og þar hafa leysikíkjar verið að víkja fyrir GPS-fjarlægðarmælum,“ útskýrir Sigurgísli.

GPS-fjarlægðarmælarnir eru svo smáir og léttir að þeir rúmast jafnvel á úlnliðnum eins og armbandsúr og örgjörvinn í þeim er á stærð við nögl. „Mælingin á fjarlægðinni í næstu holu er alveg sjálfvirk og tekur mið af merkjum frá gervihnöttum og fyrirframskráðu hniti holunnar. Búið er að skrá staðsetningu flestallra golfhola á íslenskum völlum af mikilli nákvæmni og í dæmigerðum GPS-fjarlægðarmæli er að finna hnit á öllum holum 37.000 golfvalla um allan heim.“