[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
100 leikir Sindri Sverrisson sindris@mbl.is Sara Björk Gunnarsdóttir hefur aðeins misst af einum mótsleik á landsliðsferli sínum frá því að hann hófst haustið 2007.

100 leikir

Sindri Sverrisson

sindris@mbl.is

Sara Björk Gunnarsdóttir hefur aðeins misst af einum mótsleik á landsliðsferli sínum frá því að hann hófst haustið 2007. Þessi 26 ára gamla knattspyrnukona, sem talin var í hópi 15 bestu miðjumanna heims á síðasta ári, lék 100. A-landsleik sinn í síðustu viku þegar Ísland mætti Japan í Algarve-bikarnum. Hún er ein sjö íslenskra landsliðskvenna sem náð hafa 100 landsleikjum, en sker sig úr hvað lágan aldur varðar.

Sara Björk var aðeins 16 ára gömul þegar Sigurður Ragnar Eyjólfsson valdi hana til æfinga með landsliðinu í ágúst 2007. Það sem gerir þessa staðreynd enn athyglisverðari er að þá voru aðeins rúmir átta mánuðir síðan Sara byrjaði að æfa fótbolta að nýju, eftir rúmlega eins og hálfs árs fjarveru vegna krossbandsslita í hné. Sara hafði slitið krossband í skólaferðalagi 2005 en var of ung til að fara strax í aðgerð og varð að bíða í eitt ár. Síðan þá hefur Sara varla glímt við meiðsli, spilað 53 af 54 síðustu mótsleikjum Íslands (leikjum í undan- og lokakeppnum EM og HM) og verið lykilmaður í mikilli velgengni liðsins.

Persónuleiki til að ná langt

„Maður sá það á fyrstu æfingunum með landsliðinu að hún var eins konar óslípaður demantur,“ segir Margrét Lára Viðarsdóttir, fyrirliði landsliðsins og ein þeirra sem eins og Sara hafa leikið 100 landsleiki. „Hún hafði ótrúlega mikla hæfileika en það sem einkennir hana helst að mínu mati er hve hún er ótrúlega sterk bæði líkamlega og andlega. Hún er með rosalega flottan persónuleika til að ná langt – tilbúin að leggja afskaplega mikið á sig og fórna miklu til þess. Svona persónuleiki sem maður vissi að myndi ná langt, frá fyrstu æfingu, svo lengi sem meiðsli myndu ekki trufla hana. Hún hafði alltaf alla burði til þess, frábær persóna innan sem utan vallar,“ segir Margrét og lýsir Söru frekar:

Fyrst til að hoppa fyrir rútuna

„Hún er ekkert að trana sér fram en er alls ekki feimin. Hún er samt ótrúlega mikill sprelligosi, með mikinn húmor. Hlutverk hennar í liðinu núna er svipað og mitt. Við höfum deilt þessu fyrirliðahlutverki og hún hefur borið fyrirliðabandið oft í fjarveru minni og gert það ótrúlega vel. Hún er svakalega mikill leiðtogi og sýnir það sérstaklega í verki innan vallar. Þar væri hún alltaf fyrsta manneskjan til að „hoppa fyrir rútuna“ til að verja liðsfélagana. Hún er ótrúlega mikill liðsmaður, gefst aldrei upp og er alltaf með íslenska baráttuandann í toppi. Þá skiptir engu máli hvort við erum að spila við lið í 50. sæti á heimslistanum eða eitt besta lið í heimi eins og Japan. Hún er bara með svo ótrúlega gott hugarfar, alltaf hungruð í að bæta sig og liðið, og ná árangri. Hún mætir á allar æfingar til þess og er mikill sigurvegari,“ segir Margrét.

Hugsar ótrúlega vel um sig

Fyrsti landsleikur Söru var enginn æfingaleikur heldur útileikur gegn Slóveníu í undankeppni EM, þar sem hún kom inn á sem varamaður undir lokin í 2:1-tapi. Síðan þá hefur hún aldrei misst af landsleik vegna meiðsla, og aldrei misst af landsleik vegna leikbanns. Það er ansi merkileg staðreynd því Sara er ekki beint vön að halda aftur af sér í tæklingum og návígum:

„Þetta er engin tilviljun. Hún hugsar ótrúlega vel um sig og er gríðarlega mikill atvinnumaður. Það hefur skilað henni ótrúlega langt. Hún spilar mjög fast, er oft svona á grensunni, en er einnig mjög klók. Leikmenn í hennar stöðu eiga það til að safna gulum og rauðum spjöldum en hún hefur ekki verið að því,“ segir Margrét.

Lítur ekki út eins og einhver brjálæðingur í þessu liði

„Það hjálpar henni líka að aðrar í landsliðinu eru á sömu línu, svo hún lítur ekkert út fyrir að vera einhver brjálæðingur. Hún passar fullkomlega inn í íslenska landsliðið, spilar fast og aðrar fylgja eftir. En það er ótrúlega magnað að hún hafi varla misst af leik á þessum árum. Það sýnir hve vel hún hugsar um sig,“ segir Margrét.

Var örugglega bannað að spila

Eini mótsleikurinn sem Sara hefur misst af var útileikur gegn Frökkum í undankeppni HM, í október 2009. Samkvæmt fréttum frá þeim tíma var það svínaflensa sem kom í veg fyrir að Sara gæti spilað:

„Mig rámar eitthvað í þetta. Það þarf mikið til þess að hún missi af leik. Hún hefur pottþétt verið mjög illa haldin þennan dag því Sara Björk myndi aldrei missa af leik nema vera nánast á grafarbakkanum. Henni hefur örugglega bara verið bannað að vera með,“ segir Margrét létt en meinar samt það sem hún segir.

Dóra María Lárusdóttir var á undan Söru sú yngsta til að ná 100 landsleikjum, en hún var 28 ára þegar hún spilaði 100. leik sinn. Margrét er síðan þriðja landsliðskonan sem náði 100 leikjum fyrir þrítugt. Þær þrjár léku allar með íslenska landsliðinu í Algarve-bikarnum sem lauk í gær. Alls eru sjö leikmenn í 100 leikja klúbbnum, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Katrín Jónsdóttir hefur spilað flesta landsleiki, eða 133, og útlit er fyrir að það met falli áður en langt um líður. En hve marga leiki mun Sara spila? 200?

Erum ótrúlega stoltar af henni

„Ég sagði það einmitt við hana að nú yrðu þetta bara 100 leikir í viðbót hjá henni. Hún getur rúllað því upp ef hún sleppur vel við meiðsli. Hún hefur alla burði til þess. Ég sé hana bara enda sem einn allra besti miðjumaður í heimi, eins og markmið hennar hefur alltaf verið. Hún er á ótrúlega góðri leið með að ná því og það eru forréttindi fyrir okkur að hafa svona leikmann í okkar liði. Við eldri stelpurnar erum ótrúlega stoltar af henni og afrekum hennar og hlökkum til að fylgjast með henni í framtíðinni,“ segir Margrét.

Á frábærum stað til að ná langt

Sara leikur sem kunnugt er með einu albesta félagsliði heims, Wolfsburg í Þýskalandi, sem leikur í 8 liða úrslit Meistaradeildar Evrópu gegn Evrópumeisturum Lyon 23. og 29. þessa mánaðar. Margrét er ánægð með þá ákvörðun Söru að fara frá sænska meistaraliðinu Rosengård síðasta sumar og til Wolfsburg sem nú er á toppi þýsku 1. deildarinnar, stigi á undan Turbine Potsdam og Bayern München.

„Henni eru allir vegir færir. Ég þekki það sjálf að spila í þýsku úrvalsdeildinni og fyrir mér er það besta deild í Evrópu, ef ekki heiminum, svo að hún er á frábærum stað til að ná langt. Nú vonar maður bara að henni takist að vinna Meistaradeildina því það er alveg kominn tími til að Íslendingur nái því. Það verður spennandi að fylgjast með henni og ég hef fulla trú á henni,“ segir Margrét.