Jón Gunnarsson
Jón Gunnarsson
„Það kom fram hjá ráðherra að hann myndi ræða það í ríkisstjórn hvort einhver möguleiki væri á að bæta fjármagni inn í samgöngumálin.

„Það kom fram hjá ráðherra að hann myndi ræða það í ríkisstjórn hvort einhver möguleiki væri á að bæta fjármagni inn í samgöngumálin. Við vitum það ekki á þessari stundu hvort það getur orðið,“ sagði Valgerður Gunnarsdóttir, formaður umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis, eftir fund nefndarinnar með Jóni Gunnarssyni samgönguráðherra þar sem farið var yfir frestum framkvæmda í samgöngumálum. Jón mun kynna málið á ríkisstjórnarfundi á morgun.

Valgerður segir að ráðherrann hafi lagt áherslu á að ekki væri verið að skera niður framkvæmdir samkvæmt samgönguáætlun, heldur fresta framkvæmdum. Á því væri töluverður munur. Hún segir að það eigi eftir að koma í ljós hvernig verkið vinnist áfram. Ráðherrann hafi rætt um endurskoðun á samgönguáætlun í lok þessa árs eða í byrjun þess næsta.

Bætt verði í vegamálin

Hún segir að sú skoðun hafi komið fram hjá nefndarmönnum að þeir hefðu átt að fá ítarlegri upplýsingar um málið og fyrr en raunin hefur orðið. Ráðherra hafi ekki sagt það gerlegt en nefndin myndi fá allar upplýsingar um leið og það væri unnt.

„Ég er eigi að síður bjartsýnn eftir þennan fund um að málin þokist í rétta átt,“ segir Einar Brynjólfsson, þingmaður Pírata í norðausturkjördæmi.

„Mér finnst einboðið að leitað verði allra leiða til þess að auka verulega við, með þeim aðferðum sem færar eru. Það má gera með því að taka upp fjárlög og þá þarf Alþingi að samþykkja aukafjárveitingar. Ég trúi því að meirihluti þingmanna myndi greiða slíku frumvarpi atkvæði sitt,“ segir Einar.

Spurður um sparnað á móti eða tekjuöflun nefnir Einar að auðlegðarskattur og sérstakt veiðigjald hefðu verið felld niður. Vel hefði farið á því að nota þær tekjur í samgöngumálin. helgi@mbl.is