— AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á bolamarkaði ættu menn að leyfa sér að vera bjartsýnir. Sýnist þér horfur góðar fyrir olíu? Þá eru stoðfyrirtæki olíugeirans einn valkostur sem bæta má í eignasafnið.

Á bolamarkaði ættu menn að leyfa sér að vera bjartsýnir. Sýnist þér horfur góðar fyrir olíu? Þá eru stoðfyrirtæki olíugeirans einn valkostur sem bæta má í eignasafnið. Alla jafna er hagnaður þeirra sveiflukenndari en hjá stóru olíufyrirtækjunum, enda eru stoðfyrirtækin viðkvæmari fyrir fjárfestingaráætlunum vegna olíuleitar, sem blása út og skreppa saman í takt við olíuverðið. En hvaða hængur er á þessu? Markaðurinn er nú þegar búinn að reikna heilmikinn vöxt inn í gengi hlutabréfa í stoðfyrirtækjum olíuiðnaðarins.

Stoðfyrirtækin hjálpa olíuframleiðendunum, bæði þeim sem eru í einkaeigu og þeim ríkisreknu, við leitina að kolefniseldsneyti, hvort heldur sem er ofan í jörðu eða úti á reginhafi. Er ekki annað að sjá en að stoðfyrirtækin hafi orðið að allnokkru gagni. Samkvæmt samantekt BP hafa staðfestar olíubirgðir í jörðu vaxið hraðar en heimsframleiðsla á olíu undanfarna tvo áratugi. Nægilegt magn olíu hafði fundist á árinu 2015 til næstu hálfrar aldar, sem er aukning frá þeim 45 ára birgðum sem áður var vitað um. Það er ekki hægt að skrifa það allt á heppni og hæfni olíuleitarfyrirtækjanna sjálfra.

Undanfarið ár hefur hráolíuverð rétt úr kútnum. Þess má vænta að fjárfestingarútgjöld olíugeirans taki einnig sveiflu upp á við. Í tölum S&P Capital IQ kemur fram að samanlögð fjárfesting 50 stærstu olíufyrirtækja heims, mælt í markaðsverði, minnkaði á síðasta ári og hefur ekki verið minni í næstum áratug. Eftir að hafa dregið úr fjárfestingum nokkur ár í röð hafa evrópsku olíurisarnir, Royal Dutch Shell og BP þeirra á meðal, núna ákveðið að halda fjárfestingaráætlunum sínum svipuðum og árið 2016. Stoðfyrirtæki olíugeirans ættu að njóta góðs af þessari breyttu þróun.

Vitaskuld hafa markaðirnir séð þessar breytingar fyrir. Í Bandaríkjunum hefur vísitala S&P 500, sem endurspeglar stoðfyrirtæki og framleiðendur búnaðar fyrir olíugeirann, hækkað um 23% á undanförnum tólf mánuðum. Inniheldur vísitalan stærstu stoðfyrirtæki greinarinnar, þeirra á meðal Schlumberger, Halliburton og Baker Hughes. Hvað þessi fyrirtæki varðar virðast þau ríkulega verðlögð. Heildarvirði félaganna sem hlutfall af hagnaði fyrir afskriftir og fjármagnsliði er nálægt sögulegu hámarki.

En svo má fara áhættusamari leið og veðja á litlu stoðfyrirtækin. Sum þeirra eru rétt nýkomin úr greiðsluþroti, eins og Key Energy í Bandaríkjunum. Sérhæfð evrópsk fyrirtæki á borð við Subsea 7 og Petrofac bjóða upp á minni áhættu á lægra verði. Þeir sem vilja setjast á bak bolanum á olíumarkaði næstu mánuðina ættu að íhuga að snara hlutabréf miðlungsstóru evrópsku stoðfyrirtækjanna. Það gæti blandað saman áhættu og umbun.