Langafinn Vígþór og Brími.
Langafinn Vígþór og Brími.
Oftast glaður uni því – ekkert að gera í grænum. Undir rótum Esju bý uppi' í Mosfellsbænum. (VHJ) Vígþór Hrafn Jörundsson, fyrrverandi skólastjóri, á 85 ára afmæli í dag.

Oftast glaður uni því

– ekkert að gera í grænum.

Undir rótum Esju bý

uppi' í Mosfellsbænum.

(VHJ)

Vígþór Hrafn Jörundsson, fyrrverandi skólastjóri, á 85 ára afmæli í dag. Hann er fæddur á Hellu við Steingrímsfjörð í Strandasýslu og hefur hann varið nokkru af tíma sínum í að gera upp hús foreldra sinna ásamt öðrum afkomendum þeirra. „Húsið á Hellu, sem var byggt árið 1900, sama ár og foreldrar mínir fæddust, Jörundur Gestsson og Elín Lárusdóttir, er enn að mestu að innan eins og þau skildu við það. Hellubærinn hefur alltaf verið mér mikils virði og hvergi líður mér eins vel og á bæjarhólnum á Hellu með Steingrímsfjörðinn í augsýn.“

Vígþór lauk kennara- og teiknikennaraprófi og var skólastjóri á Hólmavík og Varmalandi í Borgarfirði, og var konan hans, Sjöfn Ásbjörnsdóttir kennari, nánasti samstarfsmaður hans við báða skólana. Áhersla þeirra var að mæta hverjum nemanda á hans forsendum og var metnaður fyrir list- og verkgreinum þeirra aðalsmerki. Árið 1990 fluttust þau í Mosfellsbæ, þar sem þau hafa búið síðan.

Eftir að Vígþór lauk starfsferli sínum sem skólastjóri hefur hann hannað og smíðað mikinn fjölda gripa úr gulli og silfri, bæði skartgripi og annað. Má þar m.a. nefna fundarhamar fyrir Kennaraháskólann sem er mikill eðalgripur.

Á ári hverju, í meira en þrjá áratugi, hefur Vígþór teiknað og ort á jólakort kveðjur til vina og vandamanna út frá ýmsu sem honum hefur fundist bera hæst á árinu, en auk þess að vera afar laginn teiknari er Vígþór góður hagyrðingur eða jafnvel skáld þó að hann vilji sjálfur alls ekki taka þannig til orða.

„Við munum gera okkur dagamun um helgina en það stendur ekkert sérstakt til í dag fyrir utan að hitta börnin mín.“ Börn Vígþórs og Sjafnar eru Sif og Börkur, en þau eru bæði skólastjórar, og Logi sem er danskennari. Barnabörnin eru níu, barnabarnabörnin eru fimm og tvö á leiðinni.

Suður á landi ennþá ég

uni að vanda glaður,

en meðan andann að mér dreg

er ég Strandamaður.

(VHJ)