[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
ÚR BÆJARLÍFINU Skapti Hallgrímsson Akureyri Bæjarstjórn Akureyrar telur algjörlega óviðunandi að nýsamþykkt samgönguáætlun hafi ekki verið fjármögnuð að fullu við gerð fjárlaga ársins.

ÚR BÆJARLÍFINU

Skapti Hallgrímsson

Akureyri

Bæjarstjórn Akureyrar telur algjörlega óviðunandi að nýsamþykkt samgönguáætlun hafi ekki verið fjármögnuð að fullu við gerð fjárlaga ársins. Samþykkt var samhljóða á fundi bæjarstjórnar á þriðjudag að skora á Alþingi, ráðherra og ríkisstjórn að endurskoða þá ákvörðun og tryggja þegar það fjármagn sem gert er ráð fyrir í áætluninni.

Áætlunin er vanfjármögnuð um 10 milljarða króna í ár, eins og fram hefur komið, og samgönguráðherra hefur því lagt til mikinn niðurskurð á verkefnum sem fyrirhuguð voru í ár. „Þriðji áfangi Dettifossvegar, er meðal þeirra verkefna [...] og ljóst er að vegurinn mun því ekki klárast á árinu 2018 líkt og stefnt var að. Fjármagn í flughlaðið á Akureyri mætir niðurskurði og er ekki á áætlun. Þessar framkvæmdir og fleiri sem fyrirhugað er að falla frá eru mikilvæg hagsmunamál fyrir byggðarlög í landinu og eru liður í því að styrkja innviði landsbyggðarinnar og stuðla að möguleikanum fyrir fjölbreytta uppbyggingu um allt land,“ segir bæjarstjórn Akureyrar.

Áframhaldandi fjársvelti til samgöngumála getur leitt til hruns í samgöngukerfinu sem mun koma hart niður á umferðaröryggi, ferðaþjónustu, öðrum atvinnugreinum og íbúum landsins, segir í bókuninni.

Jafnframt hvatti bæjarstjórn alþingismenn til þess, á sama fundi, að hafna frumvarpi sem liggur fyrir Alþingi um breytingu á lögum um verslun með áfengi og tóbak. Sú bókun var samþykkt með 10 atkvæðum, einn bæjarfulltrúi sat hjá.

„Sveitarfélög hafa síðustu 20 árin eflt forvarnir gegn áfengis- og vímuefnaneyslu ungmenna með góðum árangri. Í nýjustu evrópsku vímuefnarannsókninni sem er frá árinu 2015 kemur fram að íslenskir unglingar eru ólíklegri en evrópskir unglingar til að hafa drukkið áfengi.

Landlæknir, heilbrigðisstarfsfólk, samtök lækna og fjölmargir aðilar sem vinna að heilsueflingu og velferðarmálum vara við þeirri breytingu sem felst í samþykkt frumvarpsins og benda á að rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi, sem verður með mikilli fjölgun sölustaða, leiðir til aukinnar neyslu, meðal annars meðal barna og ungmenna,“ segir bæjarstjórn.

Verði frumvarpið samþykkt stangast það á við stefnu stjórnvalda í áfengis- og vímuefnavörnum, vinnur gegn forvarnastarfi sveitarfélaga undanfarin ár auk þess að stangast á við Aðgerðaáætlun Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gegn lífsstílstengdum sjúkdómum sem og nýlega samþykktum Heimsmarkmiðs Sameinuðu þjóðanna, segir í bókuninni. Bæjarstjórn Akureyrar segist leggja „mikla áherslu á forvarnastarf og setur í forgang að búa börnum og ungmennum sem best uppvaxtarskilyrði. Heilsa íbúa, hagsmunir og velferð barna og ungmenna eiga að njóta forgangs í allri stefnumörkun ríkisins. Aukið aðgengi að áfengi og áróður í formi áfengisauglýsinga gengur gegn því sjónarmiði.“

Öflugur dráttarbátur verður smíðaður fyrir Hafnasamlag Norðurlands á Spáni og er gert ráð fyrir að hann komi til Akureyrar eftir rúmt ár.

Lengi hefur verið brýn þörf á nýjum og öflugri dráttarbáti en þeim tveimur sem hafnasamlag Norðurlands hefur yfir að ráða, að sögn Péturs Ólafssonar hafnarstjóra. Sá nýi verður 22 m langur, 9 m breiður og mun hafa 41 tonns togkraft samanborið 11,2 tonna togkraft sem stærri dráttarbátur samlagsins býr yfir.

Dráttarbáturinn verður smíðaður í borginni Navia á Spáni og mun kosta 3,8 milljónir evra – um 430 milljónir króna á núverandi gengi. Skrifað verður undir smíðasamning í dag.

Nýtt, frumsamið gamanleikrit, Góðverkin kalla, eftir Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason verður frumsýnt í Freyvangsleikhúsinu annað kvöld. Þar segir af fjölbreytti mannlífi í smábænum Gjaldeyri á Ystunöf.

Héraðsskjalasafninu á Akureyri var á dögunum færð borðtölva og skanni að gjöf, til notkunar fyrir gesti safnsins á lestrarsal. Gefendur voru Nýja kaffibrennslan og Kjarnafæði á Akureyri.

„Ónefndur hollvinur og dyggur notandi safnsins hafði fundið til þess að svona tæknibúnað vantaði, þar sem þægilegt gæti verið að geta sjálfur skannað þau skjöl sem verið væri að skoða og getað tekið þau þannig með sér. Hann hafði síðan forgöngu um það að áðurnefnd fyrirtæki keyptu þessi tæki og gáfu safninu. Helga Örlygssyni hjá Nýju kaffibrennslunni og Eiði Gunnlaugssyni hjá Kjarnafæði færum við bestu þakkir,“ segir Aðalbjörg Sigmarsdóttir héraðsskjalavörður.

Björgvin Halldórsson stígur á svið Græna hattsins á föstudags- og laugardagskvöld og flytur „Bestu lög Björgvins“ ásamt hljómsveit. Sveitin treður upp á Rauðku á Siglufirði í kvöld.