Kristín Helgadóttir fæddist 5. ágúst 1935 í Reykjavík. Hún lést 10. febrúar 2017.

Foreldrar hennar voru Helgi Jóhannsson Hafliðason, bifvélavirki frá Búðum í Eyrarsveit, fæddur 18. ágúst 1908, látinn í Reykjavík 30. janúar 1965, og kona hans, Sigurbjörg Jónsdóttir húsmóðir, fædd í Smádalakoti í Flóa 20. mars 1905, látin í Reykjavík 26. janúar 1997.

Systkini Kristínar eru: 1) Guðbjörg Jóna Helgadóttir Ólsen, fædd 8. apríl 1932, látin 18. október 2002, gift Svend Ólsen, brúarsmið í Danmörku. 2) Hafdís Helga, fædd 12. nóvember 1933, giftist Gunnari Guðmundssyni, látinn, giftist Gesti Stefánssyni frá Kirkjubæ í Hróarstungu, látinn. 3) Hulda Elvý, fædd 17. febrúar 1940, giftist Ragnari K. Hjaltasyni, skildu. 4) Ómar Þór, fæddur 11. júlí 1941, kvæntist Sigurborgu Jónsdóttur, látin, kona hans er Klara Guðmundsdóttir. 5) Hafþór, fæddur 12. janúar 1945, látinn 26. október 1982, kvæntist Guðnýju Kristjánsdóttur. 6) Helgi, fæddur 7. október 1946, kona hans er Rós Óskarsdóttir. Þann 23. apríl 1961 giftist Kristín Einari Torfasyni, fæddur 23. apríl 1923, látinn 2. janúar 2015, Vestmannaeyjum, skipstjóra og síðar tollverði í Reykjavík. Var heimili þeirra að Eskihlíð 8a í Reykjavík. Þeim varð ekki barna auðið en áður átti Kristín son: Erling Smára Jónsson, fæddur 6. september 1955, rafeindavirkja, sem Einar tók að sér sem sinn eigin son og reyndist honum hinn besti faðir. Eiginkona Erlings Smára er Sólveig Úlfarsdóttir, fædd 11. desember 1964, og eiga þau tvö börn: Hafþór Úlfar, fæddur 6. apríl 1989, og Kristínu Helgu, fædd 4. maí 1994.

Útför Kristínar var gerð frá Fossvogskapellu 24. febrúar 2017 í kyrrþey.

Kristín var þriðja barn foreldra okkar og því kom það oft í hennar hlut að líta eftir okkur litlu krökkunum þar sem eldri systurnar voru komnar í vinnu alla daga og við það að flytja að heiman. Hún var mjög hjálpleg við að hjálpa mömmu með heimilið og að líta eftir yngri börnunum, sem voru að mestu í ómegð, milli þess er hún var í skólanum og stundum að selja dagblöð á götum bæjarins, eins og mörg börn gerðu í þá daga og öfluðu sér smá peninga fyrir. Hún var líka útsjónarsöm og oft þegar hún sá biðraðir við verslanir á stríðsárunum fór hún hiklaust í biðröðina þó hún vissi ekki hvað í boði var og oftast náði hún í eitthvað sem kom heimilinu vel og var mamma oft fegin því sem hún kom með úr þeim ferðum. Oftast voru það fataefni, skór eða bomsur. En eitt sinn lá eitthvað illa á henni og þá sagði hún við mömmu að ef það koma fleiri börn á heimilið, „þá geng ég af heimilinu“ svo eitthvað hefur henni þótt krakkarnir erfiðir þann daginn. Var þetta oft haft að brandara síðan.

Eftir barnaskólaskylduna fór hún ásamt systur sinni á námskeið í bílaviðgerðum því áhugi á bílum var mikill á þeim árum sem verið var að taka bílprófið og var pabbi iðinn við að hjálp þeim til við námið, enda lærður meistari á því sviði og vörðu þær því mörgum stundum niðri á verkstæði hjá honum.

Kristín fór í húsmæðraskóla Reykjavíkur eins og eldri systurnar og eftir það nám fékk hún stöðu matreiðslukennara við skólann einn vetur og var sögð vera góð í matreiðslu. Held ég að hún hafi leyst kennarastarfið vel af hendi.

Hún fór í Myndlista- og handíðaskólann og lærði að mála því hún var mjög listhneigð og var fljót að sjá fyrir sér liti og gerð hlutanna. Málaði hún því nokkrar myndir sem eru í eigu fjölskyldunnar en ekki sá hún fram á að hafa það að atvinnu svo það varð meira tómstundagaman en vinna, en hugur hennar stóð til verslunarstarfa og hafði hana alltaf dreymt um að verða búðarkona. Fór hún fljótlega að vinna í búð og voru það nokkrar búðir sem hún byrjaði á að vinna í, meðal annars í skartgripabúð þar sem hún lærði til gullsmíði þó hún ynni aldrei við það að neinu marki. En svo fékk hún vinnu í blómabúðinni Blóm og Ávextir og þar vaknaði áhugi hennar á blómum svo hún lærði hjá þeim til blómaskreytinga og margt um meðferð blóma á þeim tíma og held ég að þá hafi hún fundið listsköpun sinni nokkurn farveg í blómunum, sem varð til þess að 1975 setti hún upp blómabúðina Holtablómið við Langholtsveg ásamt vinkonu sinni, Ingu Ástu, og unnu þær þar saman í um 20 ár og var gaman að koma til þeirra og sjá fallegar blómaskreytingar og aðra fallega muni sem þær seldu. Alltaf fékk maður hlýjar móttökur og var leyst úr hvers manns vanda sem var í sambandi við blómaskreytingar, hvort sem um var að ræða gjafir eða brúðkaup og aðrar athafnir sem fólk vildi halda upp á eða minnast.

Það er erfitt að sjá á bak góðri systur sem studdi mann í gegnum lífið með ráðum og dáð, og átti ég alltaf hauk í horni þar sem hún var. Það eru margar góðar og fallegar minningar um samskipti okkar í gegnum árin sem of langt mál væri upp að telja.

Hulda Elvý.