Frímann Frímannsson fæddist í Reykjavík 6. janúar 1930. Hann andaðist á Landspítalanum 24. febrúar 2017. Foreldrar hans voru Margrét Runólfsdóttir, f. í Norðtungu í Borgarfirði 4. febrúar 1894, d. 8. janúar 1971, og Vilhelm Frímann Frímannsson, f. á Eyrarbakka 21. september 1888, d. 18. apríl 1983. Bræður Frímanns eru Edward, f. 28. ágúst 1917, d. 13. ágúst 1983, og Ragnar, f. 26. júlí 1920, d. 1. ágúst 1996. Auk þess var á heimilinu Elísabet Helgadóttir, f. á Gljúfurá í Borgarhreppi 27. nóvember 1897, d. 21. apríl 1972. Árið 1953 kvæntist Frímann Báru Magnúsdóttur, f. 7. mars 1931, d. 3. mars 1999. Dætur Frímanns og Báru eru Margrét Kristín, f. 12. janúar 1954, hennar maður er Jón Kristinn Friðgeirsson og eiga þau soninn Jón Frímann. Elísabet, f. 2. nóvember 1958, hennar sonur og Valdimars Leós Friðrikssonar er Róbert Leó. Ingveldur Bára, f. 18. september 1966, gift Ingvari Bjarnasyni, þeirra börn eru Frímann, Ingigerður og Katrín Bára. Frímann vann með föður sínum í Hafnarhúsinu lengst af með umboð fyrir Happdrætti Háskóla Íslands. Frímann bjó síðustu æviárin að Eirhúsum.

Útför Frímanns fer fram frá Áskirkju í dag, 9. mars 2017, klukkan 15.

Elsku pabbi minn.

Mig langar til að skrifa nokkrar línur. Ég er elst af dætrum þínum. Mér finnst svo skrítið að hugsa til þess að þú sér farinn til Guðs. Þú varst stór partur af lífi okkar systranna, eftir að mamma dó. Við skiptumst á að bjóða þér heim og ég minnist allra skemmtilegu stundanna.

Þegar þú komst til okkar settist þú fljótlega við píanóið og spilaðir skemmtileg lög eftir eyranu sem þú hafðir dálæti á. Þú baðst mig oft um að spila fyrir þig á píanóið, oftast uppáhalds tónskáldin þín, Sigfús Halldórsson og Inga T. Lárusson, þú áttir ekki langt að sækja áhugann á tónlist því að mamma þín lærði á orgel og spilaði á sunnudögum á orgelið í Norðtungu þaðan sem hún var ættuð. Þú hafðir yndi af ljóðum og kunnir fullt af vísum og var mjög gaman að hlusta á þig fara með þær og var oft mikið hlegið því þú varst mikill húmoristi. Þú studdir mig ávallt í öllu sem ég tók mér fyrir hendur og er ég þér ævinlega þakklát fyrir það. Þín verður ætíð sárt saknað.

Ég kveð þig með ljóði eftir Tómas Guðmundsson:

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.

Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.

Einir fara og aðrir koma í dag,

því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

Og til eru ýmsir, sem ferðalag þetta þrá,

en þó eru margir, sem ferðalaginu kvíða.

Og sumum liggur reiðinnar ósköp á,

en aðrir setjast við hótelgluggann og bíða.

Hvíldu í friði, þín dóttir,

Margrét Kristín.

Síðastliðna daga hafa minningarnar hrannast upp um elsku afa okkar. Hann kom reglulega heim til okkar í mat og fengum við systur því að njóta samveru við hann á meðan við biðum eftir að matur væri borinn á borð. Afi var þá duglegur við að fá okkur til að æfa okkur á píanóið og vildi alltaf fá að heyra það sem við vorum að æfa hverju sinni. Það gleymist ekki hversu undraverðum framförum við systur náðum í píanóleik þegar afi bjó heima hjá okkur í nokkra daga eftir hnéaðgerð. Við spiluðum fyrir hann til skiptis allan daginn og náðum meiri framförum á þessum örfáu dögum en öll árin í píanónáminu.

Afi var einnig duglegur við að reyna að kenna okkur ýmis ljóð og kvæði, þá leggjum við sérstaklega áherslu á orðið „reyna“. Hann sjálfur gat þulið upp nánast öll þau kvæði sem hann hafði lært og samið um ævina, og þau voru þó nokkur. Við höfðum þó ekki jafn mikinn áhuga á þessari ljóðagerð og afi en fannst þó alltaf gaman að heyra hann segja sögurnar úr æsku sem oftar en ekki fylgdu kvæðunum. Hann sagði okkur frá húsinu þeirra þar sem öll fjölskyldan bjó saman, hvernig hann hafði kynnst ömmu í ísbúðinni sem hún var að vinna í, frá kvöldinu sem hann og vinir hans reyndu að velta Svörtu Maríu og við gætum haldið endalaust áfram. Hann átti sko nóg af sögum og fannst virkilega gaman að deila þeim með okkur.

Afa Frímanns verður sárt saknað en við vitum að nú er hann kominn til Báru ömmu á himnum þar sem hann vill vera. Hvíl í friði.

Þínar afastelpur,

Ingigerður og Katrín Bára.