Margrét Sigurðardóttir fæddist 1. desember 1931. Hún lést 23. febrúar 2017.

Útför Margrétar fór fram 7. mars 2017.

Elsku amma mín.

Það er þoka, ég sé ekki fram á við. Ekki vegna þess að ég er ósátt eða reið yfir að þú hefur kvatt þetta jarðneska líf. Þvert á móti. Ég veit að þú ert ánægð núna, komin til afa og hjarta mitt er fullt af ást, þakklæti og fallegum minningum. Það er þoka vegna þess að það er svo sárt að kveðja. Ég sé ekki áfram. Það er erfitt að hugsa um framtíðina án þín. Óraunverulegt að halda áfram. Enginn fyllir í skarðið.

Þú varst svo yndislega fallegur og mikilvægur hlekkur í lífi mínu, sem og svo margra annarra. Óslípaður demantur, svo vitnað sé í Aladdín sem við horfðum svo oft á saman þegar ég var lítil. Svo hlý, svo barngóð og með óþrjótandi þolinmæði og á sama tíma svo fyndin, skemmtileg og með einstakan húmor. Þar sem þú varst, þar var hlegið. Hlegið mikið. Þú hafðir svo gaman af allskonar vitleysu og látum, og því er ekki að furða að sum barnabörnin og barnabarnabörnin kalli þig amma Læti.

Þú vildir helst ekki vera ein, hafðir rosalega gaman af því að hafa fólk í kringum þig. Það var oft mikið stuð, gestkvæmt og alltaf gott og gaman að koma í ömmu hús. Með þessum heimsóknum styrktust ekki bara okkar tengsl heldur einnig tengsl mín við frændur og frænkur og fyrir það er ég ákaflega þakklát. Þú skilur eftir svo mikið af flottum afkomendum sem ég hlakka til að eyða fleiri stundum með. Takk fyrir að hafa byggt upp sterka og góða fjölskyldu, sem ég er svo stolt að vera partur af.

Elsku besta amma mín, takk fyrir að vera heimsins besta amma. Takk fyrir að vera svona falleg. Takk fyrir allt sem þú hefur gefið okkur. Takk fyrir að hafa deilt lífsgleði þinni með okkur. Takk fyrir að hafa alltaf verið til staðar. Ég get sko með sanni sagt að þú ert einstök fyrirmynd sem hefur kennt mér svo margt, sem ég mun deila áfram til minna barna, svo þú munt lifa áfram í okkur öllum.

Hvíl í friði. Þín,

Stefanía Lára Bjarnadóttir.

Hún yndislega amma mín og nafna hefur kvatt þessa jarðvist, og skilur eftir mikinn söknuð í brjósti. Amma sem alltaf hefur verið til staðar fyrir okkur öll. Amma mín er og hefur alltaf verið stórkostleg kona og gæti ég því vel skrifað heila bók um hana. Ég tala í nútíð, þar sem ljósið hennar skín skært allt um kring og minning hennar ljóslifandi í hugum og hjörtum.

Sem barn fannst mér amma ætíð töfrum líkust, og allt sem hún gerði og sagði. Ég eyddi mörgum sumrum hjá henni og afa Gumma. Þegar afi var á sjó kúrði ég hjá ömmu í afabóli. Við fórum oft í sund og á rúntinn og alltaf græddi maður ís og brjóstsykur. Amma mín svo full af orku og mikið á ferðinni, fór með mig í margar heimsóknir til ættingja og vina. Ég var einnig stundum lukkudýrið hennar í Bingó, sem mér fannst mjög skemmtilegt. Amma hefur alltaf verið kát og glöð, allra vinur og eftirlæti þeirra sem henni kynntust. Við gátum oft eytt heillöngum tíma í að spjalla og slúðra um lífið og tilveruna og heima og geima og undur veraldar. Í gegnum kátínuna var hún samt sem áður afar næm á fólk og aðstæður, og stundum sagði hún mér drauma og ýmsar forspár. Fyrir mér er himnan milli heima þunn, og ég veit að amma er á góðum og fallegum stað.

Fræ í hjarta ung ég fékk, fræ sem festi rætur.

Lítill sproti sem stækka fer, og skýtur fræflaspjótum.

Það er blóm sem dafnar í brjósti mér

svo ilmandi, og umkringt regnbogaljósum.

Margret E. Sigurðardóttir.

Stórglæsilega konan hún langamma mín kvaddi okkur fyrir rúmri viku. Ég á bara æðislegar minningar um hana, mun aldrei gleyma hvað hún var alltaf brosandi og glöð. Hún var svo frábær í alla staði og ég er svo þakklát fyrir árin sem ég fékk með henni. Hún var svolítill grínisti líka og man ég eftir mörgum fyndnum stundum sem ég upplifði með henni og mun aldrei gleyma. Minningarnar eru svo dýrmætar og maður hefur þær alltaf með sér. Hvíldu í friði, fallegi engill, þín er sárt saknað, elska þig.

Þín langömmustelpa,

Elma Rósný Arnarsdóttir.

Fyrir löngu las ég að á efri árum eignaðist maður ekki vini - heldur kunningja. Það held ég að sé alls ekki rétt því ég hef á síðastliðnum áratugum eignast nokkra mjög góða vini, meðal annars þau góðu hjón Guðmund Einarsson og Margréti Sigurðardóttur, sem nú er kvödd en Guðmundur andaðist árið 2007.

Við hjónin kynntumst þeim fyrir tæpum 33 árum þegar Jóna, dóttir okkar, og Einar Már, sonur þeirra, rugluðu saman reytum sínum. Er skemmst frá því að segja að við urðum perluvinir við fyrstu kynni. Þau áttu sex börn eins og við og Jóna og Einar númer fjögur hvort í sínum hóp.

Þau Margrét og Guðmundur bjuggu þá á Háaleitisbrautinni og eftir að unga parið flutti til Hollands til náms og síðar starfa skapaðist sú venja að við Hálfdán sóttum þau á flugvöllinn þegar þau komu í heimsókn og fórum við svo í kaffi á Háó, oft í grennd við jólin. Guðmundur og Hálfdán eru nú báðir horfnir af vettvangi en vinátta okkar Margrétar hélst áfram og eins venjurnar.

Margrét hafði óbilandi kímnigáfu og lífskraft sem ekki veitti af – lífsbarátta íslenskra sjómannskvenna var aldrei neinn dans á rósum á síðustu öld. Mér finnst svo oft starf sjómannskvennanna gleymast í umtalinu um hetjur hafsins. Þær önnuðust börn og bú, en sex börn spretta ekki sjálfkrafa úr grasi.

Ég vil minnast 85 ára afmælis Margrétar 1. desember 2016 en hún var búin að ákveða að halda upp á afmælið hvað sem tautaði og raulaði. Við það stóð hún þrátt fyrir hve veik hún var og þreytt.

Það gladdi okkur öll að hún lifði það að fá að kveðja Einar, son sinn, og Jónu áður en hún dó. Dætur hennar sögðu að hún hefði bara beðið eftir því að hann kæmi.

Margrét var trúuð kona og ég er viss um að hún er í góðum félagsskap. Þeir Guðmundur og Markús hafa tekið á móti henni ásamt öðrum ástvinum.

Ég samhryggist börnum hennar og fjölskyldum þeirra.

Anna Margrét Jafetsdóttir.

Elsku kæra Magga mín er farin. Alltaf er sárt að sjá á eftir góðum vinum. Vinskapur okkar stóð yfir í rúma hálfa öld. Hún var hluti af fjölskyldu minni. Ég átti hennar börn og hún mín. Alltaf var glatt á hjalla hjá okkur Möggu, spjallað og hlegið, yndislegar og skemmtilegar stundir. Minningarnar margar. Það verður skrýtið að koma ekki við á Sléttuveginum þegar ég kem í bæinn. Elsku Siggi, Elsa, Gugga, Mássi, Eygló og Haddý og fjölskylda, missir ykkar er mikill en móðir ykkar sáði vel og fékk góða uppskeru.

Takk fyrir allt, kæra vinkona.

Jóna Þórunn.