Lestarhestar Það var glatt á hjalla í Borgarbókasafninu í gær þegar forseti Ísland dró út nöfn fimm þátttakenda í Lestrarátaki Ævars vísindamanns.
Lestarhestar Það var glatt á hjalla í Borgarbókasafninu í gær þegar forseti Ísland dró út nöfn fimm þátttakenda í Lestrarátaki Ævars vísindamanns. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Dregið var í lestrarátaki Ævars vísindamanns í gær í aðalsafni Borgarbókasafns og fá þeir fimm skólakrakkar sem dregnir voru út þann heiður að vera persónur í næstu bók Ævars Þórs Benediktssonar, Gestir utan úr geimnum , sem kemur út í maí.

Dregið var í lestrarátaki Ævars vísindamanns í gær í aðalsafni Borgarbókasafns og fá þeir fimm skólakrakkar sem dregnir voru út þann heiður að vera persónur í næstu bók Ævars Þórs Benediktssonar, Gestir utan úr geimnum , sem kemur út í maí. Að þessu sinni var það ekki Ævar sjálfur sem dró nöfnin úr pottinum heldur forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson.

Lestrarátakið er það þriðja sem haldið hefur verið og í þeim tveimur fyrri voru lesnar yfir 114 þúsund bækur samanlagt. Í því þriðja var bætt um betur, 63 þúsund bækur lesnar, og er það besti árangur átaksins hingað til, miðað við mánaðafjölda, að sögn Ævars. Hann hafði samband við alls kyns Íslendingahópa á Facebook og lét vita af því að átakið stæði yfir, sem varð til þess að íslenskir krakkar í Bandaríkjunum, Englandi, öllum Norðurlandaríkjunum, Lúxemborg, Þýskalandi, Belgíu og Perú tóku þátt, auk flestra grunnskóla hér á landi.

Nemendurnir fimm sem dregnir voru úr pottinum eru Alexander Ferro Ingvason, nemandi í 1. bekk í Hörðuvallaskóla; Alexander Máni Ólafsson, nemandi í 4. bekk í Fellaskóla; Anna Margaríta Ólafsdóttir, nemandi í 4. bekk í Seljaskóla; Embla Maren Gunnarsdóttir, nemandi í 3. bekk í Lágafellsskóla og Elenóra Mist Jónsdóttir, nemandi í 6. bekk í Giljaskóla.