Rio Tinto Enn hefur Rio Tinto ekkert gert til að minnka þynningarsvæði þrátt fyrir 10 ára gömul áform.
Rio Tinto Enn hefur Rio Tinto ekkert gert til að minnka þynningarsvæði þrátt fyrir 10 ára gömul áform. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Ólafur Ingi Tómasson, formaður skipulags- og byggingaráðs Hafnarfjarðar, segir að brýnt sé orðið að svonefnt þynningarsvæði umhverfis álverið í Straumsvík verði minnkað svo að Hafnarfjarðarbær geti nýtt hluta landsins til frekari uppbyggingar fyrir atvinnulífið.

Þynningarsvæði er það svæði umhverfis álverið þar sem þynning mengunar á sér stað. Á síðasta fundi ráðsins, sem haldinn var í fyrradag, var samþykkt að fela umhverfis- og skipulagsþjónustu bæjarins að taka saman greinargerð um stærð þynningarsvæðis við álver og vinna drög að breytingum á núverandi stærð þynningarsvæðisins við Straumsvík. Greinargerðin á að vera tilbúin fyrir næsta fund ráðsins, eftir tæpan hálfan mánuð.

„Það varðar mikla hagsmuni hjá Hafnarfjarðarbæ að þynningarsvæðið verði minnkað, eins og staðið hefur til í 10 ár. Sóst er eftir því að koma með matvælaframleiðslu inn á iðnaðarsvæðið hjá okkur, sem ekki er heimilt í dag. Við höfum þurft að synja fyrirtækjum um lóðir og rekstrarleyfi, vegna þess að svæðið hefur enn ekki verið minnkað. Þynningarsvæðið við álverið í Straumsvík er gríðarlega stórt, stærra en allur Norðurbærinn, Miðbærinn og Suðurbærinn og hluti af nýju hverfunum til samans,“ sagði Ólafur Ingi í samtali við Morgunblaðið í gær.

Ekki sýnt vilja í verki

Ólafur Ingi segir að fyrst hafi minnkun þynningarsvæðisins komist á dagskrá í tengslum við stækkun álversins í Straumsvík þegar kosið var um deiliskipulag árið 2007. Þá hafi Rio Tinto gefið út tilkynningu, 26. janúar 2007 þar sem segir m.a.: „Þynningarsvæði álversins í Straumsvík verður minnkað um 70% samhliða stækkun álversins, samkvæmt tillögu samráðshóps um deiliskipulag Straumsvíkursvæðisins sem kynnt var í vikunni.“

Ólafur Ingi segir að þrátt fyrir yfirlýsingu frá Rio Tinto um minnkun þynningarsvæðisins hafi álverið aldrei sýnt þann vilja í verki.

Svo segir Ólafur Ingi að ekkert hafi gerst í málinu hvað stjórnsýsluna varðar fyrr en 2012, en þá hafi verið farið fram á viðræður um að þynningarsvæðið yrði minnkað.

„Ég sem bæjarfulltrúi og formaður skipulags- og byggingaráðs og fleiri bæjarfulltrúar höfum hitt fulltrúa Rio Tinto nokkrum sinnum og spurt um þynningarsvæðið og áformin um að minnka það. Það hefur verið fátt um svör hjá Rio Tinto. Við viljum einfaldlega fá upplýsingar um það hversu stórt þynningarsvæðið þarf að vera, sérstaklega í ljósi yfirlýsingar frá Rio Tinto frá 2007 um að þynningarsvæðið yrði minnkað um 70%, sem ekkert hefur verið gert með hingað til. Frá þeim tíma er búið að setja upp nýjan hreinsibúnað í álverinu,“ sagði Ólafur Ingi.

Hann sagði að umhverfis- og skipulagsþjónusta bæjarins myndi nú semja greinargerð um málið og gera samantekt um sambærileg þynningarsvæði álvera austur á Reyðarfirði og í Hvalfirði og væntanlega kæmi Umhverfisstofnun að málinu í framhaldi þeirrar vinnu.