Karl og Steingrímur Wernerssynir og Guðmundur Ólason voru í gær dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða króna vegna millifærslna sem voru gerðar á reikning Ingunnar Wernersdóttur, systur bræðranna.

Karl og Steingrímur Wernerssynir og Guðmundur Ólason voru í gær dæmdir í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða þrotabúi Milestone 5,2 milljarða króna vegna millifærslna sem voru gerðar á reikning Ingunnar Wernersdóttur, systur bræðranna. Með því létu þremenningarnir félagið fjármagna kaup sín á hlutafé Ingunnar í Milestone. Áður höfðu þremenningarnir hlotið fangelsisdóm vegna viðskiptanna.

Guðmundur var framkvæmdastjóri Milesteone á þessum tíma sem greiðslurnar voru inntar af hendi og færðar í bókhald og var með prókúru fyrir félagið. Bræðurnir voru aftur á móti eigendur þess. Segir í dómnum að þeir hafi því allir samkvæmt stöðum sínum getað bakað sér bótaábyrgð.

Í dómi segir að bræðurnir hafi með viðskiptunum ekki leitast við að tryggja hagsmuni félagsins heldur að afla sér ótilhlýðilegra hagsmuna á kostnað félagsins.

Dómurinn hafnar því að greiðslurnar hafi verið lán til Ingunnar Wernesdóttur, heldur hafi tilgangurinn verið að efna kaupsamning um hlutabréf í Milestone og dótturfélögum þess. Ingunn var einnig kærð í málinu af þrotabúinu, en héraðsdómur sýknaði hana af öllum kröfum sem settar voru fram.