Stefán E. Stefánsson ses@mbl.is Nokkuð fer fyrir Landsvirkjun í umfjöllun fjölmiðla þessa dagana og er það svo sem ekki nýmæli.

Stefán E. Stefánsson

ses@mbl.is

Nokkuð fer fyrir Landsvirkjun í umfjöllun fjölmiðla þessa dagana og er það svo sem ekki nýmæli. Þar er á ferðinni stærsta raforkufyrirtæki landsins, sem á grundvelli aðgangs að náttúru Íslands framleiðir 73% allrar raforku í landinu. Og nú hefur fyrirtækið efnt til umræðu um orkuverð og virðist vera að undirbúa jarðveginn fyrir því að hækka raforkuverð til heimilanna í landinu.

Fyrirtæki sem treyst er fyrir svo umfangsmikilli grunnstarfsemi, sem snertir á öllu þjóðlífinu, hefur ríkum skyldum að gegna, jafnt hvað varðar framleiðsluna sjálfa en ekki síður umhverfismál og önnur áhrif sem af starfseminni leiðir. Því er mjög undarlegt að sjá hversu afskiptalaust fyrirtækið er þegar kemur að þeirri miklu byltingu sem er að verða í orkuskiptum í samgöngum á Íslandi.

Hvergi virðist Landsvirkjun leggja orð í belg varðandi innviðauppbyggingu í tengslum við rafbílavæðingu landsins. Það er engu líkara en að sú öra þróun sem stendur yfir á því sviði hafi algjörlega farið framhjá fyrirtækinu. Á sama tíma eru flest önnur raforkufyrirtæki að leggja sitt af mörkum og má þar meðal annars nefna Orkusöluna og Orku náttúrunnar. Það væri óskandi að Landsvirkjun, sem gjarnan telur sig hafa orð í belg að leggja þegar kemur að samfélagsábyrgð og náttúruvernd, opni augun fyrir þessari þróun og beiti sérþekkingu sinni og slagkrafti til að ýta undir orkuskiptin. Ekki mun það draga úr eftirspurn eftir þeirri verðmætu vöru sem fyrirtækið býður upp á.