Aðalkarlinn Hafsteinn Níelsson í hlutverki sínu sem sjálfur Villi Wonka.
Aðalkarlinn Hafsteinn Níelsson í hlutverki sínu sem sjálfur Villi Wonka.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hvers á Villi Wonka að gjalda? Hann á mömmu sem er heilsufrík og bannar honum að borða súkkulaði. En hann á súkkulaðiverksmiðju og þangað býður hann nokkrum heppnum einstaklingum. Fjölbrautaskólinn í Garðabæ sýnir nú söngleik um ævintýrið sem fer af stað eftir að gestirnir koma inn í verksmiðjuna.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég elska þessa gömlu sögu um Kalla og súkkulaðigerðina eftir Roald Dahl. Bíómyndirnar sem gerðar hafa verið eftir henni hafa fylgt mér frá því ég var unglingur. Þess vegna fannst mér það frábær hugmynd þegar krakkarnir stungu upp á að við settum um samnefndan söngleik,“ segir Andrea Ösp Karlsdóttir sem leikstýrir söngleiknum um Kalla og súkkulaðiverksmiðjuna sem leikfélag Fjölbrautaskólans í Garðabæ sýnir um þessar mundir.

„Mig langaði að gera þetta meira að okkar eigin sýningu, með nýju handriti og nýjum lögum og söngtextum, svo ég skrifaði nýja leikgerð alveg frá grunni sem ég byggi á bókinni,“ segir Andrea og bætir við að í þeirri vinnu hafi hún líka horft aftur og aftur á báðar kvikmyndirnar sem og á West End-söngleikinn.

Villi talar í málsháttum

„Ég fór síðan í spunavinnu með krökkunum til að vinna að okkar eigin útgáfu á þessari sögu. Þegar ég byrjaði að skrifa þetta á íslensku þá ákvað ég að taka nýjan snúning og ég læt til dæmis Villa Wonka tala mikið í íslenskum málsháttum. Ég lagðist í margra daga rannsóknarvinnu til að viða að mér málsháttum. En við bjuggum líka til glænýja baksögu fyrir Villa Wonka, okkur fannst eitthvað fallegt við að leyfa áhorfendum að kynnast þessari mögnuðu persónu betur. Hugmyndin kom upp í spuna hjá okkur og við látum mömmu hans vera heilsufrík. Hún þvingar þann lífsstíl yfir á barnið sitt og bannar honum að borða nammi. Mamman er alltaf á einhverjum sellerísúpukúrum sem er ákveðin tenging við Kalla, fátæka strákinn sem vinnur miða í heimsókn í súkkulaðigerðina, en Kalli fær bara kálsúpu að borða heima hjá sér, af því að fjölskyldan hans er svo fátæk. Ég nota í leikgerðina setningar sem ég þekki frá fólki sem hefur verið í megrunarkúra- og heilsubrjálæði, það er allt sykurlaust og glútenfrítt hjá mömmu hans Villa Wonka,“ segir Andrea og bætir við að vissulega séu þau að gera grín að því hversu langt heilsuæði getur gengið.

Yndislegt að gefa tækifæri

„Auðvitað nota ég í handritinu eina og eina setningu beint upp úr bókinni, en stór hluti er skrifaður upp á nýtt, til dæmis breytum við sjónvarpsstráknum í nútíma erfiðan tölvustrák. Við bjuggum hann og mömmu hans eiginlega alveg til upp á nýtt, þau urðu til í spuna. Við gerum þetta rosalega mikið saman, þó að ég hafi skrifað handritið þá er það byggt á þeim hugmyndum sem komu upp á æfingum. Og ég er mjög ánægð með útkomuna, þetta er æðislegt handrit, þó að ég segi sjálf frá. Krakkarnir eru mjög metnaðarfullir í öllu sem tengist uppsetningunni, búningum, leikmynd og öðru. Þessi sýning er rosalega skemmtileg, ég get lofað því.“

Andrea segir að það hafi verið frábært fyrir hana að leikstýra í Fjölbraut í Garðabæ. „Það er ekki eins og að leikstýra í hvaða framhaldsskóla sem er, því þar er leiklistarbraut og krakkarnir eru rosalega hæfileikaríkir og áhugasamir. Þau hafa valið þessa braut af því þau ætla sér að verða leikarar og vinna við það í framtíðinni. Það er ofboðslega gaman að fá að vinna svona verkefni frá grunni með svona mörgum klárum krökkum. Ein af ástæðum þess að ég var skotin í hugmyndinni að setja þetta verk á svið með framhaldsskóla, er sú að það er svo mikið af stórum hlutverkum í því. Það er yndislegt að geta gefið svona mörgum hæfileikaríkum krökkum tækifæri í einni sýningu. Þau eiga sannarlega framtíðina fyrir sér.“

Valinn maður í hverju rúmi

Andrea segist hafa fengið Baldur Ragnarsson til að frumsemja tónlistina í söngleiknum, en þau tvö vinna mikið saman í Leikhópnum Lottu.

„Við erum vön að setja upp fjölskyldusöngleiki, og Baldur er sá sem kynnti mig fyrir Kalla og súkkulaðiverksmiðjunni fyrir mörgum árum. Við horfðum saman á bíómyndirnar þegar ég var sjálf enn í framhaldsskóla, og þess vegna er gaman fyrir okkur að vinna saman að þessu verkefni núna. Við fengum Sævar Sigurgeirsson til að semja söngtextana fyrir okkur, en hann er mikill íslenskumaður og kann bragfræði. Við sóttum gott fólk í okkar nánasta umhverfi til að vinna með okkur, en Sævar hefur unnið með okkur í Lottu leikhópnum og líka Berglind Ýr systir mín, sem samdi dansana. Hún er með mikla reynslu af dansleikhúsi og hún er útskrifaður dansari úr Listaháskólanum. Hún hefur sett upp fjölda sýninga í Listdansskóla Hafnarfjarðar og samdi dansana fyrir Litaland með Leikhópnum Lottu. Hún vann Dans, dans, dans í sjónvarpinu fyrir nokkrum árum.“