Heiða Kristín Helgadóttir
Heiða Kristín Helgadóttir
Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsfyrirtækisins Efni ehf., hefur ásamt samstarfsmanni sínum Oliver Luckett unnið að undirbúningi nýrra leiða til að markaðssetja íslenskar vörur.

Heiða Kristín Helgadóttir, framkvæmdastjóri sölu- og markaðsfyrirtækisins Efni ehf., hefur ásamt samstarfsmanni sínum Oliver Luckett unnið að undirbúningi nýrra leiða til að markaðssetja íslenskar vörur.

Hún segir margar leiðir færar til að finna út hverjir hafa áhuga á tilteknum hlutum á netinu.

„Sá sem hefur til dæmis lækað við íslenskan listamann, eða lesið um Ísland á netinu, er sennilega móttækilegur fyrir því að heyra um íslenskar vörur eins og til dæmis íslenskan fisk. Skilaboðin þurfa ekki endilega að vera „kauptu, kauptu“ heldur þarf að segja fólki söguna af íslenskum fiski á áhugaverðan og fræðandi hátt og hvernig við höfum náð miklum árangri í að veiða fisk á sjálfbæran hátt. Við getum með ákveðnum aðferðum gert tengingu milli fólks sem hefur áhuga á Íslandi, áhuga á náttúruvernd, sjálfbærni, eða menningu og listum og þeirrar vöru sem við erum að framleiða hér. Við sjáum tækifæri til að beita greiningartækjum sem flestir samfélagsmiðlar bjóða upp á til að ná til þessa fólks og byggja þannig upp milliliðalausa markaði.“

Heiða Kristín segir að íslenskur sjávarútvegur hafi náð miklum árangri á flestum stigum virðiskeðjunnar, allt fram að afhendingu vörunnar til neytenda og hvernig hún er markaðssett.

„Það eru vissulega fleiri farnir að huga að þessu en það þarf fleiri til og markvissari aðgerðir. Auk þess eru neyslumynstur fólks að breytast mjög hratt og hvernig og hvar það leitar sér að upplýsingum, sem er ekki lengur með því að þiggja þær frá einhverju yfirvaldi, heldur vill fólk uppgötva hlutina sjálft og tækifæri til að fræðast og prófa nýja hluti.“