París var ein af fyrstu borgum heims til að gera skattasamning við Airbnb.
París var ein af fyrstu borgum heims til að gera skattasamning við Airbnb. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Harriet Agnew í París Hóteleigendur í Frakklandi telja skammtímaleigu húsnæðis í fjöleignarhúsum andstæða lögum og kalla eftir stuðningi nágranna við að sporna gegn Airbnb-útleigu.

Hótelhaldarar og fjárfestar að baki þeim hafa hleypt af stokkunum herferð þar sem þeir færa fyrir því rök að skammtímaútleiga á íbúðarhúsnæði vítt og breitt um Frakkland brjóti í bága við lög. Er herferðin liður í síharðnandi aðgerðum hótelanna í samkeppninni við Airbnb.

Er bent á að samkvæmt frönskum lögum þurfi sérstakt leyfi til að mega leigja húsnæði út í skammtímaleigu í meira en 120 daga á ári. Segja hótelin að jafnvel þegar búið sé að fá þetta leyfi nægi það ekki til að mega stunda skammtímaútleigu á íbúðum í fjöleignarhúsum.

Þetta er hefðbundið eignarfyrirkomulag víðast í Evrópu þar sem íbúarnir eiga hver sína íbúð í fjöleignarhúsi.

Truflar nágrannana

„Alla jafna er skammtímaútleiga á innréttuðum íbúðum ekki í samræmi við reglur um fjöleignarhús í Frakklandi,“ segir Erwan Le Douce-Bercot, meðeigandi og yfirmaður fasteignamála hjá frönsku lögfræðistofunni Jones Day, sem er í samstarfi við hótelhaldara. „Fyrir vikið er útleiga af þeim toga sem tíðkast á Airbnb óheimil í flestum fjöleignarhúsum.“

Halda frönsku hótelin því fram að Airbnb dragi úr framboði á húsnæði í langtímaleigu og sé truflandi fyrir nágranna þeirra íbúða sem leigðar eru út.

„Það er mikilvægt fyrir okkur hótelhaldarana að fá þá sem búa í fjöleignarhúsum til að berjast gegn Airbnb og standa vörð um sína eigin hagsmuni,“ segir Philippe Villin, sem starfar á fjármálamarkaði en á jafnframt og rekur hótel. „Með því má slá tvær flugur í einu höggi: verja hag íbúanna og verja okkar eigin viðskiptahagsmuni.“

Sótt að Airbnb af hörku

Fram til þessa hefur andstaðan við Airbnb í Frakklandi einkum beinst að því að herða skattareglur svo að erfiðara verði fyrir notendur útleiguvefjarins að komast hjá því að greiða skatt af leigutekjum sínum. Nú eru hótelrekendur, sem hafa misst viðskiptavini yfir til bandaríska tæknisprotans, að sækja fram af meiri hörku á lagalega sviðinu.

Þetta er dæmi um hvernig Airbnb sér fram á strangara eftirlit hvað varðar reglugerðir, rekstur og lagaramma í borgum allt frá New York til Berlínar. Airbnb svaraði ekki beiðni FT um að tjá sig um málið.

Um 55 þúsund íbúðir í París

Samkvæmt gangagrunni Inside Airbnb býður vefurinn upp á 55.000 íbúðir í París til útleigu og þar af eru 18.000 leigðar út í meira en 120 daga á ári. Ian Brossat, aðstoðarborgarstjóri í París og umsjónarmaður húsnæðismála, áætlaði í janúar að þar í borg hefðu 20.000 íbúðir farið af langtímaleigumarkaði svo að mætti leigja þær út til ferðamanna í skemmri tíma.

Nágrannar hafa líka kvartað yfir að Airbnb-íbúðir raski ró þeirra. Fyrirtækið hefur brugðist við með því að setja upp sérstaka vefsíðu þar sem ósáttir nágrannar geta sent inn kvartanir.

París var ein af fyrstu stórborgum heims til að gera skattasamning við Airbnb. Árið 2014 féllst útleiguvefsíðan á að innheimta og greiða til stjórnvalda sama gistináttaskatt og lagður er á hótelin í borginni. Síðan þá hafa sambærilegir samningar verið gerðir við 17 franskar borgir til viðbótar.

Airbnb ber núna að senda frönskum stjórnvöldum skattaupplýsingar með sjálfvirkum hætti, frekar en að það sé undir hverjum leigusala komið að gefa leigutekjur sínar upp til skatts. Gagnrýnendur Airbnb héldu því fram að margir leigusalar gætu boðið íbúðir til leigu á lægra verði því þeir stæðu ekki skil á öllum sköttum.

Skrá íbúðirnar hjá yfirvöldum

Í fyrra voru sett ný lög sem skylda alla þá sem hyggjast leigja út fasteign í París að skrá sig hjá borgaryfirvöldum. Á þetta að gera stjórnvöldum kleift að vakta hvaða eignir er verið að leigja út hverju sinni og ætti að gera þeim sem leigja í gegnum Airbnb erfiðara um vik að leigja eignir sínar í fleiri daga en leyfilegt er.

Þeir sem vilja leigja út húsnæði sitt, eða hvers kyns íbúðarrými sem þeir búa ekki sjálfir í, verða að skrá eignina sem atvinnuhúsnæði. Það gæti þó reynst dýrt því sú krafa er gerð að leigusalinn verður þá að kaupa jafnstórt atvinnuhúsnæði í sama hverfi og breyta í íbúðarhúsnæði.