Albert Þór Jónsson
Albert Þór Jónsson
Eftir Albert Þór Jónsson: "Miklu máli skiptir að lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar tilnefni öflugt fólk í stjórnir skráðra hlutafélaga með menntun og reynslu til að spyrja uppbyggilegra og réttra spurninga."

Á undanförnum árum hefur eignarhald íslenskra lífeyrissjóða í skráðum félögum á hlutabréfamarkaði aukist verulega og er eignarhald þeirra í mörgum tilfellum í skráðum félögum á bilinu 40-60% af heildarhlutafjáreign. Einnig hafa innlendir hlutabréfasjóðir aukið eignarhald sitt verulega á sama tíma. Einkafjárfestar eru í mörgum tilfellum í miklum minnihluta í skráðum félögum. Mikilvægi íslenskra lífeyrissjóða við fjárfestingar og eftirfylgni þeirra á innlendum hlutabréfamarkaði er mikilvæg og hefur mikil áhrif á framþróun hans. Í þessu ljósi er mjög mikilvægt að fjárfestar eins og lífeyrissjóðir, í umboði sjóðfélaga sinna, auki verulega áhrif sín á rekstur þeirra fyrirtækja sem eru skráð í Kauphöll Íslands með því að taka alvarlega hlutverk hins virka fjárfestis.

Virkir fjárfestar

Virkur fjárfestir er ekki stjórnandi fyrirtækis, tekur ekki fram fyrir hendur stjórnenda þess og telur sig ekki vita betur en stjórnendur fyrirtækisins. Virkur fjárfestir verður hins vegar að tryggja að réttir stjórnendur séu ráðnir að fyrirtækinu og að þeir fái viðeigandi örvun. Ef stjórnendurnir kunna ekki sitt fag ræður hann nýja. Ef velja skal milli hörku breytinga eða mýktar kyrrstöðu er árangurinn af hinu síðarnefnda miklu lakari. Hagsæld þjóðarinnar minnkar og lífskjörin verða miklu verri ef hún lifir ekki undir stöðugri örvun og ógnun samkeppninnar. Á erlendum fjármálamörkuðum er oft sagt að meta megi fyrirtæki í öfugu hlutfalli við stærð höfuðstöðva; því stærri höfuðstöðvar, þeim mun meiri hnignun í fyrirtækinu. Oft á tíðum hindra höfuðstöðvar ákvarðanir stjórnenda. Yfirleitt ná nýir aðilar undirtökum í fyrirtækjum sem eru orðin kraftlaus og eru byrjuð að hnigna.

Öflugir og sjálfstæðir hugsuðir í stjórnir

Miklu máli skiptir að lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar tilnefni öflugt fólk í stjórnir skráðra hlutafélaga með menntun og reynslu til að spyrja uppbyggilegra og réttra spurninga, sem hafa jákvæð áhrif á stefnumörkun og rekstur viðkomandi fyrirtækis. Mikilvægt er að fá sjálfstæða hugsuði með reynslu sem skiptir máli. Þýðingarmikið er að tengjast fjárfestum sem hafa langtímahagsmuni fyrirtækisins í fyrirrúmi og horfa meira til langtímaárangurs. Fjölbreytni út frá reynslu, kyni, aldri og skoðunum skiptir miklu máli þegar horft er til samsetningar stjórnar þannig að hámarksárangur náist.

Stjórnir þurfa að tengjast betur langtímafjárfestum og greiða stjórnendum meira fyrir langtímaárangur. Einnig er mikilvægt að gæta að virkni m.t.t. eignarhalds, fjárhæða, samkeppnisumhverfis, samfélagslegrar ábyrgðar, gilda, umhverfis og fylgja reglum um stjórnarhætti fyrirtækja.

Í Bandaríkjunum er hópur fjárfesta, svokallaður „Activist Investors“ þ.e.a.s. virkir fjárfestar sem hafa orðið til vegna þess að stjórnir hafa ekki sinnt hlutverki sínu með nægilegum metnaði og þekkingu eða gætt hagsmuna hluthafa. Virkir fjárfestar spyrja erfiðra grundvallarspurninga um stefnumarkandi málefni. Eru fjárfestingar fyrirtækisins í réttum farvegi? Er samsetning fyrirtækisins áhættudreifð? Hvað þarf að framkvæma til að ná stefnumörkun sem skilar árangri?

Að lækka kostnað og bæta þannig skammtímaárangur er ekki svarið því virkir fjárfestar geta auðveldlega lækkað kostnað um 10-15%. Svarið liggur í því að líta á kostnað sem stefnumarkandi fjárfestingu sem eykur vöxt og viðgang fyrirtækisins, því annars myndi kostnaðarniðurskurður koma niður á verðmæti hluthafa með því að minnka vöxt og samkeppnishæfni fyrirtækisins. Mikilvægt er að endurmeta stefnumörkun til verðmætasköpunar. Koma þarf stefnumarkandi hugsun í verðmætaskapandi áætlun.

Íslenska lífeyriskerfið er í fremstu röð á heimsvísu

Í lok árs 2016 nam hrein eign íslenskra lífeyrissjóða 3.509 ma.kr. Innlendar eignir námu 2.751 ma.kr.(78%) og erlendar eignir námu 764 ma.kr. (22%). Innlend hlutabréf námu 554 ma.kr. (16%). Íslenska lífeyriskerfið hefur vaxið mikið á undanförnum árum og er ein af mikilvægustu auðlindum Íslands og sannkallaður hornsteinn samfélagsins. Framsýni þeirra sem komu íslenska lífeyriskerfinu af stað fyrir rúmum fimm áratugum hefur reynst mikið gæfuspor fyrir alla landsmenn og mikilvægi þess á flestum sviðum þjóðlífsins eru umtalsverð, s.s. á fjármálamarkaði, húsnæðismarkaði og sem öryggisnet sjóðfélaga. Hagstæð aldursdreifing og mikil atvinnuþátttaka auk sjóðsöfnunar eru mikilvægustu styrkleikar íslenska lífeyriskerfisins. Mikilvægi íslenska lífeyriskerfisins á næstu árum á eftir að aukast enn frekar og áhrif þess á mörgum sviðum samfélagsins og því er áríðandi að það sinni hlutverki sínu m.a sem virkur fjárfestir. Íslenskir lífeyrissjóðir þurfa að hafa áhrif á rekstur þeirra fyrirtækja sem þeir hafa fjárfest í og hafa mikilla hagsmuna að gæta fyrir umbjóðendur sína, sem eru í flestum tilfellum sjóðfélagar. Flestir lífeyrissjóðir hafa mótað sér hluthafastefnu gagnvart þeim skráðu félögum sem þeir hafa fjárfest í á undanförnum árum og hvaða kröfur eru gerðar til þeirra stjórnarmanna sem þeir styðja til stjórnarsetu í viðkomandi fyrirtækjum.

Mikilvægi lífeyrissjóða á innlendum hlutabréfamarkaði

Í lok árs 2016 nam innlend hlutabréfaeign 554 ma.kr., eða 16% af heildareign íslensku lífeyrissjóðanna, en ávöxtun hefur verið ágæt síðastliðin ár þó að árið 2017 fari frekar rólega af stað. Íslenskir lífeyrissjóðir gegna þýðingarmiklu hlutverki á innlendum fjármálamarkaði og því er eðlilegt að þeir hafi töluverð áhrif á þróun hans. Búast má við því að eignir íslensku lífeyrissjóðanna muni aukast mikið á næstu árum og geti numið allt að 5.500 ma.kr. á árinu 2025. Ef gert er ráð fyrir að 15% af heildareignum séu í innlendum hlutabréfum væru 825 ma.kr. í innlendum hlutabréfum árið 2025. Aðkoma og mikilvægi lífeyrissjóðanna á innlendum fjármálamarkaði mun því aukast enn frekar á næstu árum og þess vegna þurfa þeir að taka alvarlega hlutverk hins virka fjárfestis og gæta þannig hagsmuna hluthafa og þar með sjóðfélaga.

Höfundur er viðskiptafræðingur, MCF í fjármálum fyrirtækja og með 30 ára starfsreynslu á fjármálamarkaði.