Guðmundur uppgötvaði hugleiðslu fyrir nokkrum árum og hefur gagnast honum vel á krefjandi tímum.
Guðmundur uppgötvaði hugleiðslu fyrir nokkrum árum og hefur gagnast honum vel á krefjandi tímum. — Morgunblaðið/Eggert
EFLA verkfræðistofa hefur dafnað vel undir stjórn Guðmundar Þorbjörnssonar. Nýlega var fyrirtækið enn á ný valið í hóp fyrirmyndarfyrirtækja Creditinfo, en stofan hefur verið á þeim lista frá upphafi mælinga.

EFLA verkfræðistofa hefur dafnað vel undir stjórn Guðmundar Þorbjörnssonar. Nýlega var fyrirtækið enn á ný valið í hóp fyrirmyndarfyrirtækja Creditinfo, en stofan hefur verið á þeim lista frá upphafi mælinga.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Stærsta áskorunin er ávallt að stuðla að stöðugri framþróun í starfsemi fyrirtækisins og skapa áhugaverð tækifæri. Annars er sterkt gengi íslensku krónunnar áskorun í erlendum verkefnum, og meiri kraft þarf í uppbyggingu innviða á Íslandi.

Hver var síðasti fyrirlesturinn sem þú sóttir?

Ég sótti afar áhugaverðan morgunverðarfund Landsvirkjunar um íslenska raforkumarkaðinn, þar sem við blasa mikilvæg og brýn úrlausnarefni fyrir okkur Íslendinga.

Hver hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Í seinni tíð hef ég verið svo gæfusamur að kynnast hugleiðslu og andlegri rækt, sem hefur reynst mér afar gagnleg í krefjandi aðstæðum. Fyrir allmörgum árum fórum við hjónin í hugleiðslumiðstöð á Indlandi á vegum Lótus húss og kynntumst þar indverskum jógum og mögnuðum fyrirmyndum.

Hver myndi leika þig í kvikmynd um lif þitt og afrek?

Ég held að Paul Newman á sínum yngri árum hefði verið afar góður kostur. Robert Redford til vara. Ætti ekki að þarfnast frekari rökstuðnings!

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Fyrst og fremst með opnum huga í samneyti við fólkið í kringum mig, sem er hafsjór fróðleiks og hugmynda. Heimurinn er á fleygiferð og nýjungar á hverju strái, en áhugaverðast er að spila saman ferska vinda og visku reynslunnar!

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég stunda kraftgöngur nokkrum sinnum í viku, en næ þó ekki að stinga hundinn af. Hestastússið reynir stundum á líkamlega en er þó fyrst og fremst næring fyrir sálina.

Hvert væri draumastarfið ef þú þyrftir að finna þér nýjan starfa?

Ég hef alla tíð haft áhuga á högum og daglegu lífi almennings í ólíkum menningarheimum. E.t.v. gerðist ég því alþjóðlegur fréttaritari, mögulega læknir án landamæra. En sumir segja bóndi. Hver veit?

Hvað gerirðu til að fá orku og innblástur í starfi?

Jákvæð og góð samvinna í samhentri liðsheild er besti orkugjafinn.

Hvaða lögum myndirðu breyta ef þú værir einráður í einn dag?

Endurskoða tekjutengingar ellilífeyris til styðja valmöguleika eldra fólksins.