Þorsteinn Gíslason fæddist í Reykjavík 29. mars 1924. Hann lést í Newport, Rhode Island, Bandaríkjunum 24. febrúar 2017.

Foreldrar hans voru Gísli Jónsson, vélstjóri og alþingismaður Barðstrendinga, f. 17.8. 1889 á Álftanesi, d. 7.10. 1970, og Hlín Þorsteinsdóttir, f. 9 12. 1899 í Reykjavík, d. 9.11. 1964. Systkini hans eru Guðrún, f. 17.6. 1921 í Reykjavík, og Haraldur, f. 28.9. 1928 í Reykjavík, d. 30.1. 1983.

Hinn 11. nóvember 1944 giftist Þorsteinn Ingibjörgu Ólafsdóttur Thors, f. 15.2. 1924 í Reykjavík, d. 20.8. 2004. Þau skildu. Börn þeirra eru Þorsteinn, f. 27.7. 1947 í Boston, giftur Ragnheiði Ármannsdóttur, f. 24.7. 1946, og Ólafur, f. 29.2. 1952 í Reykjavík, giftur Katherine Airola, f. 24.9. 1952. Börn Þorsteins eru Fríða, f. 1962, Lára, f. 1974, og Pétur, f. 1977. Börn Ólafs eru Erika Christine, f. 1982, og Stefan Matthias, f. 1984. Seinni kona Þorsteins er Marianne Becker Lane, f. 15.7. 1942 í White Plains, NY. Börn hennar eru Geoffrey, Courtney og Cara.

Þorsteinn var stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1944. Hann nam við Massachusetts Institute of Technology frá 1945 til 1947 og útskrifaðist með BS-gráðu í vélaverkfræði. Síðan var hann við Harvard University 1947 til 1948 og útskrifaðist þaðan með MS í verkfræði. Að loknu námi sneru Þorsteinn og Ingibjörg til Reykjavíkur þar sem hann hóf störf sem verkfræðingur við tæknideild Sölumiðstöðvar hraðfrystihúsanna 1949. Árið 1955 stofnaði Þorsteinn verkfræðistofu í Reykjavík, en fljótlega þar á eftir flutti hann með fjölskylduna til Boston og hóf störf hjá Sporlan Valve Company við sölumennsku. Þaðan fluttu þau til St. Louis 1957 þar sem Þorsteinn starfaði sem verkfræðingur í tæknideild hjá Sporlan. Þorsteinn var útnefndur yfirverkfræðingur fyrirtækisins 1962.

Árið 1962 var Þorsteinn ráðinn til Coldwater Seafood Corporation í New York sem forstjóri. Hann réðst í mikla uppbyggingu á starfsemi fyrirtækisins, m.a. með byggingu á nýrri verksmiðju í Cambridge, Maryland sem síðan var stækkuð. Einnig lét Þorsteinn byggja frystigeymslu og aðra verksmiðju í Everett, Massachusetts sem er við höfnina í Boston. Á þeim 22 árum sem Þorsteinn var forstjóri Coldwater jókst velta fyrirtækisins yfir tífalt og safnaðist upp töluverður arður. Félagið varð leiðandi í sölu alls freðins botnfisks á Bandaríkjamarkaði og seldi yfirgnæfandi meirihluta alls freðfisks útflutnings Íslendinga á þeim árum. Þorsteinn lét af störfum hjá Coldwater 1984.

Eftir það flutti Þorsteinn til Rhode Island og vann þar að þróunar- og tæknistörfum á eigin vegum þar til hann hætti störfum. Útför hefur farið fram í kyrrþey.

Fallinn er frá í hárri elli náinn vinur og samstarfsmaður til margra ára, Þorsteinn Gíslason verkfræðingur sem búsettur var í Bandaríkjunum. Ungur stundaði Þorsteinn verkfræðinám í Boston og árið 1949 réðst hann til starfa hjá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna í Reykjavík. Þar vann hann mikið brautryðjendastarf og meðal verkefna hans má nefna hönnun þorskblokkar eins og við þekkjum hana í dag. Fram að því urðu menn að notast við pergamentvafin þorskflök, sem nýttust illa. Í stað þess var nú komin hornrétt blokk með roð- og beinlausum þorskflökum sem nýttist til fullnustu til niðursögunar. Fiskstautarnir voru soðnir í olíu og húðaðir með brauðmylsnu. Þegar vinnsla á karfa hófst á Íslandi árið 1950 leiðbeindi Þorsteinn hvernig best væri að þeirri vinnslu staðið.

Árið 1955 var Þorsteinn ráðinn sölustjóri og síðan yfirverkfræðingur hjá bandarísku framleiðslufyrirtæki í Boston og St. Louis og starfaði þar uns hann var ráðinn forstjóri Coldwater Seafood Corporation, dótturfyrirtækis SH í Bandaríkjunum, 1962. Tók hann við af Jóni Gunnarsyni sem segja má að hafi lyft grettistaki í markaðsetningu á íslenskum fiski á Bandaríkjamarkaði undir vörumerkinu ICELANDIC. Það var því mikil áskorun fyrir Þorstein að taka við keflinu af Jóni og brást hann ekki vonum manna. Undir styrkri stjórn hans óx félaginu fiskur um hrygg og naut mikils trausts og virðingar meðal kaupenda. Ný og fullkomin verksmiðja var reist í Cambridge, Maryland, og hófst vinnsla þar í maí 1968. Þorsteinn var frumkvöðull á sviði fjölda nýjunga í framleiðslu og markaðssetningu fiskafurða á Bandaríkjamarkaði. Innleiddi hann fyrstur manna nýja afurð, sem breiddist fljótt út, fisk í deigi.

Verðmætasta og um leið vinsælasta framleiðsla frystihúsanna var 5 punda þorskflakapakkning, sem einkum var seld til veitingastaða. Gríðarleg samkeppni var á markaðnum. Aðalkaupandinn var veitingahúsakeðjan Long John Silver og kusu þeir Icelandic umfram önnur vörumerki.

Um mitt ár 1983 blöstu miklir erfiðleikar við frystihúsum vegna mikillar birgðasöfnunar á 5 punda þorski. Menn voru ekki á eitt sáttir hvernig með skyldi fara. Þorsteinn taldi ekki rétt að nálgast stærsta kaupandann Long John Silver með boð um verðlækkun. Engu að síður ákvað stjórn SH að senda nefnd á fund LJS og freista þess að ná viðunandi samningi. Þorsteini fannst að sér vegið og sagði þegar upp starfi. Þrátt fyrir það var hann einn nefndarmanna sem fóru á fund LJS í byrjun janúar 1984. Hann lét sitt ekki eftir liggja að stuðla að farsælu samkomulagi. Hann var eins og ætíð samkvæmur sjálfum sér og hafði sem fyrr hagsmuni félagsins í fyrirrúmi, en taldi sig ekki af prinsippástæðum geta starfað áfram eftir að tekið hafði verið fram fyrir hendur honum með þessum hætti.

Það var lærdómsríkt og reyndar forréttindi fyrir ungan mann að fylgjast með störfum og stjórnunarstíl Þorsteins. Þess varð ég aðnjótandi er ég tók sæti í stjórn Coldwater Seafood 1970. Hann var röggsamur stjórnandi og hafði allt á hreinu. Hann var mjög sjálfstæður í skoðunum og vildi ráða enda enginn annar betur í stakk búinn að meta aðstæður á mörkuðum vestra.

Þegar sá gállinn var á honum sagðist hann telja að stjórn félags hefði aðeins einn tilgang, þ.e. að ráða og reka forstjórann. Annars var samstarfið milli stjórnar og Þorsteins ætíð með miklum ágætum og naut hann fyllsta trausts hennar.

Góðs vinar er sárt saknað og minnist ég Þorsteins Gíslasonar með þakklæti og virðingu. Við Anna vottum aðstandendum dýpstu samúð.

Jón Ingvarsson.