Sigríður Pálsdóttir fæddist 30. september 1959. Hún lést 9. febrúar 2017. Útför Sigríðar fór fram 24. febrúar 2017.
Sigríður Pálsdóttir fæddist 30. september 1959. Hún lést 9. febrúar 2017.

Útför Sigríðar fór fram 24. febrúar 2017.

Elsku Sigga okkar.

Þó sólin nú skíni á grænni grundu

er hjarta mitt þungt sem blý.

Því burt varst þú kölluð á örskammri stundu

í huganum hrannast upp sorgarský.

Fyrir mér varst þú ímynd hins göfuga og góða,

svo falleg, einlæg og hlý.

En örlög þín ráðin – mig setur hljóða.

Við hittumst samt aftur á ný.

Megi algóður guð þína sálu nú geyma,

gæta að sorgmæddum, græða djúp sár

Þó komin sért yfir í aðra heima

mun minning þín lifa um ókomin ár.

(höf. ók.).

Takk fyrir allt sem þú varst okkur og takk fyrir allt sem þú gafst okkur.

Berglind Björk Bjarkadóttir og fjölskylda.

Elsku Sigga okkar.

Ekki áttum við von á því að þú myndir kveðja þessa jarðvist svona stuttu á eftir Báru systur. En eins og sagt er, þeir fara ungir sem guðirnir elska. Þú, þetta hörkutól sem alltaf hefur barist eins og ljón fyrir þínu. Það sýndi sig best þegar þér var haldið sofandi í sjö vikur vegna sýkinga í lungum og þér ekki hugað líf fyrir 19 árum en upp stóðst þú með látum eins og þér var einni lagið. Alltaf varst þú hrókur alls fagnaðar og ekkert að skafa utan af hlutunum ef svo bar undir. Þau eru mörg gullkornin sem frá þér hafa dottið alveg síðan þú varst barn sem við systkinin geymum, eins og þetta með hraðamælinn, ísbirnina og fleira. Það var aldrei nein lognmolla í kringum þig, elsku Sigga mín. Stundum fannst okkur hinum systkinunum þú oft ganga heldur langt þegar þú varst að viðra þínar skoðanir á mönnum og málefnum, því þar var yfirleitt töluð hrein íslenska og ekkert varst þú í vandræðum með orðavalið. Það verður tómlegt á frænkukvöldunum, systrahitting og ættarmótum að hafa þig ekki með okkur en í huganum verður þú alltaf með, elsku vinan okkar.

Þú varst ótrúlega vinamörg og þekktir marga enda sýndi það sig vel við andlát þitt. Fyrir okkur systkinin sem búum ennþá fyrir vestan verður tómlegt að koma til Reykjavíkur og skeppa ekki til þín í kaffi, nú passar vel gullkorn sem ein frænkan sagði um árið: „Og hver er þá í Reykjavík ef Sigga er ekki þar?“ Við gætum líka trúað að Borgarfjörðurinn hljóðni, alla vega sumarhúsabyggðin í kringum Bjarkalund, bústaðinn ykkar Bjarka sem þú unnir svo mjög og þar eydduð þið drjúgum tíma síðustu árin.

Við kveðjum þig, elsku systir, og takk fyrir allar samverustundirnar. Þú átt eftir að vera í huga okkar alla tíð og þér gleymum við aldrei.

Við vottum elsku strákunum þínum Rúnari og Arnari, Bjarka og fjölskyldum, okkar dýpstu samúð. Hvíl þú í friði og við hittumst síðar í Sumarlandinu, Sigga mín.

Djúp og varanleg vinátta

er dýrmætari

en veraldlegar viðurkenningar,

og allt heimsins gull og silfur.

Henni þurfa ekki endilega alltaf

að fylgja svo mörg orð

heldur gagnkvæmt traust

og raunveruleg umhyggja.

...

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Þínar systur,

Kolbrún og Sigurbjörg.

Elsku Sigga frænka, ég á svo erfitt með að trúa að þú sért farin. Ég býst alltaf við að heyra í þér einhvers staðar, því maður heyrði alltaf þegar Sigga frænka var mætt og það var svo gaman að sitja og spjalla, stundum klukkutímunum saman. Þú sagðir alltaf svo skemmtilegar sögur. Þar á meðal sögur af þér og mömmu og systkinunum þegar þið voruð yngri. Þær urðu alltaf extra kryddaðar og skemmtilegar þegar þú sagðir þær.

Á einum slíkum degi í sumar, þegar við vorum búnar að sitja við eldhúsborðið hjá Sjönu frænku í nokkra klukkutíma, ákvaðstu að ég skyldi fá vasaúrið hennar ömmu, þar sem þú ættir engar dætur og ég væri guðdóttir þín og sú eina sem væri að vinna í heilbrigðisgeiranum. Þetta skyldi líka vera útskriftargjöfin mín. Mér þótti alveg ofboðslega vænt um það og mun gæta þess vel. Ég á svo margar góðar minningar með þér. Þar standa helst upp úr öll sumrin sem við eyddum í Breiðafjarðareyjum, þá sérstaklega Hvallátrum. Mínar bestu æskuminningar eru þaðan, og þegar mamma og pabbi hættu að fara, þá tókst þú mig samt með þér. Bæði í Látur og Flatey, með Arnari syni þínum. Þér þótti ég einum of kurteis og prúð, og leiddist það stundum þegar ég var búin að spyrja aðeins of oft hvort ég mætti hitt eða þetta. Svo þegar ég var um 12 ára og í mat hjá þér, þá varstu eitthvað að skamma mig og ég svaraði þér fullum hálsi í fyrsta skipti. Þú varst kjaftstopp og ég var viss um að nú væri ég aldeilis í klandri, enda aldrei heyrt Siggu frænku orðlausa! En svo brostirðu út að eyrum og ljómaðir af stolti og sagðir bara: „Loksins!“. Það er margt sem þú ert búin að kenna mér og ég mun búa að því alla ævi. Ég er ævinlega þakklátt fyrir seinustu 19 ár sem við fengum eftir að þér var vart hugað líf, ég vildi samt að við hefðum haft meiri tíma með þér, elsku Sigga.

En himinninn hefur nú eignast sína skærustu stjörnu. Hvíldu í friði, elsku engill. Þín minning lifir. Ég votta Bjarka, Arnari, Rúnari og þeirra fjölskyldum samúð mína.

Þín systur- og guðdóttir,

Margrét Diljá