[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Steingrímur Arnalds fæddist í Reykjavík 9.3. 1947 og ólst upp á Stýrimannastíg í gamla Vesturbænum. Þar voru mörg börn og líf og fjör. Frá 5 ára aldri var hann á sumrin hjá góðu fólki norður í Vatnsdal í Húnavatnssýslu allt fram á unglingsár.

Sigurður Steingrímur Arnalds fæddist í Reykjavík 9.3. 1947 og ólst upp á Stýrimannastíg í gamla Vesturbænum. Þar voru mörg börn og líf og fjör. Frá 5 ára aldri var hann á sumrin hjá góðu fólki norður í Vatnsdal í Húnavatnssýslu allt fram á unglingsár. Þá tók við akstur á kókbílum flest sumarfrí.

Í menntaskóla fór dágóður tími í félagsstörf en Sigurður er stúdent frá MR 1967 og 50 ára stúdent í vor. Sigurður lauk verkfræðiprófi í Kaupmannahöfn 1973. Það styttist í 50 ára brúðkaupsafmælið því þau Sigríður María Sigurðardóttir hafa verið gift síðan 1968. Brúðkaupsferðin sama ár var til New York, sem síðan er eftirlætisborg þeirra hjóna.

Sigurður hefur alla tíð starfað hjá Mannviti, áður Hönnun. Árin 1980 til 1983 var hann þó lánaður til virkjunar Kwai-fljótsins í Taílandi og 1985 til 1987 til stíflugerðar í Norður-Jemen. „Við vorum fimm manna fjölskylda í frumskógum Taílands og þetta var verðmæt lífsreynsla fyrir alla. Í vetur fórum við þangað í pílagrímaferð með elsta syninum og fjölskyldu. Mannvirkin eru tilkomumikil, virkjunin vel rekin og fólkið dásamlegt.“

Í aldarfjórðung var Sigurður í forystu hjá Hönnun og Mannviti, fyrst sem framkvæmdastjóri og síðan stjórnarformaður. „Meðfram stjórnun voru það einkum orkumálin sem ég fékkst við, ég var á bólakafi í orkuverkefnum, kannski ekki síst af því ég hafði þessa erlendu reynslu.“ Sigurður var vel þekktur á byggingartíma Kárahnjúkavirkjunar því hann var talsmaður framkvæmdanna, þeirra umfangsmestu í sögu landsins. „Þetta var mikil reynsla og ég átti góð samskipti við fjölmiðlafólkið. Blaðamenn þurfa sín svör strax og fengu. Skoðanir voru skiptar og það þurfti að virða. Stundum gekk mikið á og þá gilti að vera yfirvegaður og halda ró sinni. Sem betur fer fékk ég eitthvað af slíku í vöggugjöf.

Norðurál er líka minnisstætt því ég tók þátt frá því að fyrsti fulltrúi eigandans steig hér á land. Ég beitti mér fyrir því að verkfræðifyrirtæki sneru bökum saman og stofnuðu samstarfshóp. Þannig náðum við að halda verkfræðivinnunni að mestu í landinu í samkeppni við stóra erlenda ráðgjafa og núna er þessi hópur, HRV, að vinna fyrir álver í Noregi.“

Á síðasta ári var Sigurður heiðraður af Verkfræðingafélaginu fyrir störf sín. Með fylgdi aukreitis að hann hefði „alla tíð verið mannasættir og laginn við að ræða og sætta ólík sjónarmið“. „Þetta kemur úr uppeldinu,“ segir Sigurður.

„Á skólaárunum var ég „rútubílatrúbador“, en um miðjan aldur gekk ég í góðan blandaðan kór sem heitir núna því virðulega nafni Harmoníukórinn. Við hjónin erum saman í golfi og fáum út úr því góða hreyfingu og mikla ánægju.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar er Sigríður María Sigurðardóttir, f. 21.6. 1947, ferðaráðgjafi. Foreldrar hennar voru Sigurður Ragnar Sigurjónsson, f. 1922, d. 1977, vörubílstjóri í Reykjavík, og k.h. Unnur Sigrún Bjarnadóttir frá Ísafirði, f. 1917, d. 2001, húsfreyja.

Börn Sigríðar Maríu og Sigurðar: 1) Sigurður Ragnar, f. 12.4. 1968, lögfræðingur, eiginkona hans er Anna Sigríður Örlygsdóttir lögfræðingur og synirnir eru Örlygur Steinar, Sigurður Skorri og Kristján Breki; 2) Ásdís, f. 28.6. 1975, kennari, eiginmaður hennar er Guðmundur Magnús Daðason sjávarútvegsfræðingur og börnin eru Hildur María, Þorbjörn og Halldóra; 3) Unnar Bjarni, f. 11.10. 1976, eðlisfræðingur, eiginkona hans er Árdís Hulda Stefánsdóttir leikskólakennari og börnin eru Stefán Orri, Valgerður, Starkaður og Sigríður Gígja.

Bræður Sigurðar: Jón Laxdal Arnalds (samfeðra), f. 1935, d. 2011, fyrrv. ráðuneytisstjóri, Ragnar Arnalds (samfeðra), f. 1938, rithöfundur og fyrrv. ráðherra, Andrés Arnalds, f. 1948, náttúrufræðingur, Einar Arnalds, f. 1950, d. 2004, rithöfundur og ritstjóri, og Ólafur Gestur Arnalds, f. 1954, prófessor.

Foreldrar Sigurðar: Sigurður Arnalds, f. 1909, d. 1998, útgefandi í Reykjavík, og seinni k.h., Ásdís Andrésdóttir Arnalds, f. 1922, d. 2010, útgefandi.