Engjaheyskapur Hálfdán Björnsson á traktornum dregur f.v. Gísla Benediktsson, Garðar Þór Brandsson, Guðbrand Sigurðsson og Sigrúnu Axelsdóttur á sérsmíðuðum vatnaskíðum.
Engjaheyskapur Hálfdán Björnsson á traktornum dregur f.v. Gísla Benediktsson, Garðar Þór Brandsson, Guðbrand Sigurðsson og Sigrúnu Axelsdóttur á sérsmíðuðum vatnaskíðum.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Öræfasveit var um aldir ein einangraðasta sveit Íslands. Að baki var Vatnajökull, fyrir framan ólgandi Atlantshafið og til beggja handa runnu stríð jökulvötn um víðfeðma sanda.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Öræfasveit var um aldir ein einangraðasta sveit Íslands. Að baki var Vatnajökull, fyrir framan ólgandi Atlantshafið og til beggja handa runnu stríð jökulvötn um víðfeðma sanda. Einangrun Öræfa var endanlega rofin með opnun hringvegarins og Skeiðarárbrúar árið 1974.

Kvísker eru austasti bærinn í Öræfum og kúra undir Bæjarskeri. Breiðamerkursandur breiðir úr sér framan við bæinn og beggja vegna við hann. Á Kvískerjum bjuggu hjónin Björn Pálsson (f. 1879, d. 1953) og Þrúður Aradóttir (f. 1883, d. 1968). Þau eignuðust þrettán börn og komust níu á legg. Þau voru Flosi (f. 1906, d. 1993), Guðrún eldri (f. 1908, d. 1991), Ari (f. 1909, d. 1982), Guðrún yngri (f. 1910, d. 1999), Páll (f. 1914, d. 1993), Sigurður (f. 1917, d. 2008), Ingimundur (f. 1921, d. 1962), Helgi (f. 1925, d. 2015) og Hálfdán (f. 1927, d. 2017). Einnig ólst upp á Kvískerjum Finnbjörg Guðmundsdóttir (f. 1941, d. 2002). Með andláti Hálfdáns 10. febrúar síðastliðinn lauk sögu þessarar stóru fjölskyldu.

Mikið menntaheimili

Fjórir Kvískerjabræðra voru sjálfmenntaðir fræðimenn og nutu mikillar virðingar fyrir þekkingu sína. Flosi lagði stund á jökla- og náttúrufræði. Hann lærði erlend tungumál af málakennslu útvarpsins og orðabókum. Flosi ræddi við erlenda fræðimenn og ferðamenn sem komu að Kvískerjum, oft á þeirra móðurmáli.

Sigurður var mjög vel ritfær og góður sögumaður. Hann skráði m.a. sögu Öræfasveitar og eins frásögn af því þegar hann féll ofan í jökulgeil og hafði ofan af fyrir sér með sálmasöng þar til hann fannst eftir langa leit.

Helgi var mikill hagleiksmaður, góður teiknari og uppfinningamaður. Hann smíðaði m.a. engjahús sem líklega var fyrsta hjólhýsi á Íslandi.

Hálfdán var náttúrufræðingur og þekktur fyrir fjölbreytt náttúrugripasafn og mikla þekkingu á jurta- og dýralífi. Hann átti stærsta skordýrasafn í einkaeigu á Íslandi.

Kvískerjabók var gefin út til heiðurs systkinunum 1998 og umhverfisráðuneytið stofnaði Kvískerjasjóð þeim til heiðurs 2003.

Ekkert systkinanna á Kvískerjum eignaðist afkomendur. Þau tóku þó þátt í uppeldi margra sem komu til þeirra í sumardvöl eða heimsóknir. Morgunblaðið fékk þrjá einstaklinga til að skrifa um kynni sín af Kvískerjaheimilinu og áhrifin sem þau urðu fyrir þar. Millifyrirsagnir eru blaðsins.