Elsa Unnur Guðmundsdóttir fæddist 20. maí 1934. Hún lést 24. febrúar 2017.

Útför hennar fór fram 6. mars 2017.

Elsa systir mín er nú látin – eftir skammvinna baráttu við illvígan sjúkdóm.

Elsa var alltaf sérlega ljúf og elskuleg systir og ótrúlega þolinmóð við mig, örverpið í fjölskyldunni. En – þannig var hún við alla, hvort sem voru innan fjölskyldunnar eða vinnufélagar og vinir.

Ég á margar minningar um systur mína og allar góðar – allt frá því fjölskyldan bjó í litla húsinu sem foreldrar okkar áttu og þá stóð á Bræðraborgarstíg 5, en var svo híft með krana á vörubíl og fært á auða lóð þar sem nú er Ránargata 42. Þar stóð litla húsið á tunnum, líklega 1946-1947, meðan byggt var nýtt, 3ja hæða hús á lóðinni Bræðraborgarstígur 5. Gamla húsið var byggt 1896 og var röskir 30 fm – auk kjallara og rishæðar. Þá hafði verið byggður við húsið 16 fm skúr, þar sem var síðan inngangurinn. Ekki man ég annað en að þarna hafi farið vel um okkur öll sjö! Ekki af því ég hafi hugsað um slíkt á þeim árum...

Fjölskyldan flutti síðan í nýja húsið snemma árs 1947 – sem ég man af því haldið var upp á 5 ára afmæli mitt í slotinu skömmu eftir að við fluttum þangað!

Elsa vann við afgreiðslustörf, bæði áður en hún giftist, 1955, og eins síðar meir, en svo fór að hún hóf störf í bókhaldsdeild Eimskips skömmu fyrir 1980 og vann þar til starfsloka. Þar með urðum við systkinin vinnufélagar – sem og konan mín, Magga. Mér er kunnugt um að Elsa var vel metin í bókhaldinu og af vinnufélögum okkar annars staðar. Hún tók virkan þátt í ýmsum félagsstörfum, bæði innan félags og utan. Því hélt hún áfram þegar hún settist í helgan stein, hafði alltaf nóg að sýsla, bæði í félagsstörfum og ekki síður handavinnu. Hún var afkastamikil í bútasaumi auk annarra hannyrða. Þær Magga mín voru góðar vinkonur og áttu m.a. þetta sameiginlega áhugamál, bútasauminn.

Elsa eignaðist fimm yndisleg börn með Arnari, fyrri manni sínum, öll meðan þau bjuggu í „fjölskylduhúsinu“ Bræðraborgarstíg 5.

Svo fór að leiðir þeirra Arnars skildu og það var Elsu mikil gæfa að kynnast síðar öðlingsmanninum Birni Björnssyni, vélstjóra og rafvirkja. Því miður féll hann frá allt of fljótt, þegar hann varð bráðkvaddur um borð í togaranum Gnúpi 12. desember 1991. Það var mikið áfall fyrir Elsu.

Elsa hafði lengi haft þann sið að bjóða stórfjölskyldunni til sín á jóladag ár hvert. Það var alltaf tilhlökkunarefni að þiggja þar heitt súkkulaði með rjóma og aðrar kræsingar. Síðasta jóladaginn gripu veikindin inn í og komu í veg fyrir að hún gæti boðið heim. En hún fékk að njóta samvista við allt þetta fólk heima hjá yngstu dóttur sinni og gat drukkið þar heitt súkkulaði með rjóma með okkur öllum.

Að lokum innilegar samúðarkveðjur til dætra og sonar Elsu, sem og barnabarna og barnabarnabarna.

Bragi.

Elsku amma.

Það er ennþá svo óraunverulegt að þú sért ekki hérna lengur. Hlutirnir gerðust svo hratt að það er erfitt að átta sig á því að við eigum ekki eftir að sjá þig aftur. Við söknum þín og vonum að þú sért á góðum stað og sért hamingjusöm með Bjössa afa.

Ég sendi þér kæra kveðju,

nú komin er lífsins nótt,

þig umvefji blessun og bænir,

ég bið að þú sofir rótt.

Þó svíði sorg mitt hjarta

þá sælt er að vita af því,

þú laus ert úr veikinda viðjum,

þín veröld er björt á ný.

Ég þakka þau ár sem ég átti

þá auðnu að hafa þig hér,

og það er svo margs að minnast,

svo margt sem um hug minn fer,

þó þú sért horfinn úr heimi,

ég hitti þig ekki um hríð,

þín minning er ljós sem lifir

og lýsir um ókomna tíð.

(Þórunn Sigurðardóttir)

Þín barnabörn,

Unnur og Jónas.

Þá er komið að kveðjustund, elsku amma mín.

Ég gæti eytt heilli eilífð í að telja upp öll skiptin sem þú lýstir upp líf mitt og okkar bræðranna. Allar bestu æskuminningarnar mínar eiga uppruna sinn heima hjá þér, ég man eftir hvað það var gaman þegar við frændurnir fengum að gista hjá þér eftir eitt af þínum mörgu fjölskylduboðum. Eitt er fyrir víst, þú varst hjarta fjölskyldunnar og þótt maður hafi ekki hitt þig daglega þá er eins og hið daglega líf hafi tapað ljómanum sínum eftir að þú fórst. En frá mér persónulega vil ég þakka þér fyrir skilyrðislausa stuðninginn sem þú veittir mér. Þú varst alltaf tilbúin að taka mér eins og ég er, og fyrir það verð ég alltaf þakklátur. Ég finn hvernig hjartað mitt molnar þegar ég skrifa um þig í þátíð og ég gæfi allt til að fá að sjá þig aftur, elsku amma mín. Takk fyrir allt.

Björn Árni, Jóhann Kristinn, Cesar Arnar og Richard.

Á haustdögum árið 1948 hittist hópur af unglingsstúlkum, héðan og þaðan af landinu, og hóf nám í 1. bekk A í Kvennaskólanum í Reykjavík. Við höfum borið gæfu til að hafa haldið hópinn alla tíð, sérstaklega seinni ár. Ein þeirra var Elsa, sem borin er til grafar í dag.

Elsa var kát og glöð og hafði einstaklega góða nærveru, æðrulaus og hjartahlý. Alltaf til staðar í leik og starfi. Einstaklega handlagin og listræn í sér og þeir eru ófáir hlutirnir sem liggja eftir hana og þá sérstaklega í bútasaumi.

Margar minningar streyma fram í huga okkar og ylja okkur um hjartarætur. Ferðalög bæði innanlands og utan svo og mánaðarlegar samverustundir okkar sem veittu okkur öllum ómælda gleði og ánægju.

Með árum og þroska kemur æ betur í ljós hve vináttan er óendanlega dýrmæt. Við eigum svo sannarlega eftir að sakna nærveru Elsu á samverustundum okkar.

Við bekkjarsysturnar minnumst Elsu með þakklæti og virðingu og þökkum henni samfylgdina. Guðs blessun fylgi henni á nýjum slóðum. Fjölskyldu hennar vottum við okkar dýpstu samúð.

Langt er liðið frá skóladögum

sem leiftur birtist horfin tíð

Við leit að þekkingu í þungum fögum

við þurftum stundum að heyja stríð.

Þó skúrir leyndust í skýjadrögum

skein okkur veröld heið og víð.

(Höskuldur Jónsson)

Fyrir hönd bekkjarsystra í Kvennaskólanum í Reykjavík árin 1948-1952,

Katrín Jóhannsdóttir.