CIA Frá höfuðstöðvum bandarísku leyniþjónustunnar í Virginíuríki.
CIA Frá höfuðstöðvum bandarísku leyniþjónustunnar í Virginíuríki. — AFP
Bogi Þór Arason bogi@mbl.is Bandaríska leyniþjónustan CIA getur meðal annars hlerað snjallsíma og breytt nettengdum sjónvarpstækjum í hlerunarbúnað, að því er fram kemur í skjölum sem uppljóstrunarvefurinn WikiLeaks hefur birt. Birt voru nær 9.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Bandaríska leyniþjónustan CIA getur meðal annars hlerað snjallsíma og breytt nettengdum sjónvarpstækjum í hlerunarbúnað, að því er fram kemur í skjölum sem uppljóstrunarvefurinn WikiLeaks hefur birt.

Birt voru nær 9.000 skjöl sem vefurinn segir að komi frá leyniþjónustunni en hvorki CIA né Bandaríkjastjórn hefur viljað svara því hvort þau séu ófölsuð. Devin Nunes, formaður leyniþjónustunefndar fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, sagðist hafa miklar áhyggjur af lekanum og sagði að hann væri „mjög, mjög alvarlegur“.

„Mjög skaðlegur leki“

Reynist skjölin ófölsuð hefur WikiLeaks afhjúpað margar af þeim aðferðum sem leyniþjónustan hefur beitt við rafrænar njósnir, meðal annars hvernig hakkarar hennar brjótast inn í tölvukerfi. The Wall Street Journal hefur eftir heimildarmanni í leyniþjónustunni að upplýsingarnar stefni njósnaaðgerðum sem hún hafi þegar hafið í hættu. Blaðið hefur einnig eftir sérfræðingum í öryggismálum að upplýsingalekinn geti haft alvarlegri afleiðingar en skjalaleki Edwards Snowdens árið 2013.

„Ef það sem ég hef lesið er satt þá er þetta mjög skaðlegur leki hvað varðar aðferðirnar, tæknina og tækin sem CIA hefur notað til lögmætra njósna erlendis,“ hefur fréttavefur breska ríkisútvarpsins eftir Michael Hayden, fyrrverandi yfirmanni leyniþjónustunnar.

WikiLeaks segir að CIA stundi nú álíka umfangsmiklar rafrænar njósnir og Þjóðaröryggisstofnun Bandaríkjanna, NSA, en lúti minna eftirliti. Skjölin sýni að CIA hafi notfært sér galla í vélbúnaði og hugbúnaði, meðal annars frá bandarískum fyrirtækjum, án þess að skýra frá göllunum. Leyniþjónustan hafi einnig búið til meira en þúsund spilliforrit, meðal annars tölvuveirur, til að brjótast inn í rafeindatæki einstaklinga. Njósnirnar beinist meðal annars að iPhone-símum, Android-stýrikerfinu fyrir snjallsíma, spjaldtölvur og skyld tæki, vinsælum forritum frá Microsoft og snjallsjónvörpum frá Samsung. Að sögn BBC eru notendur snjallsjónvarpa gabbaðir til að halda að slökkt hafi verið á tækinu, en svo sé þó ekki, heldur kvikni á upptökubúnaði sem sendi upplýsingar yfir á netþjóna CIA þegar kveikt er á tækinu að nýju.

Lekinn varð til þess að leyniþjónustan var gagnrýnd fyrir að skýra ekki frá göllum í rafeindatækjum sem milljónir manna nota. Fyrirtæki, sem framleiða rafeindatækin, létu í ljós áhyggjur af upplýsingunum og sögðust gera allt sem á valdi þeirra stæði til að tryggja öryggi tækjanna.