Halldóra Gunnlaugsdóttir fæddist á Sökku í Svarfaðardal 16. maí 1927. Hún lést á öldrunarheimilinu Hlíð 18. febrúar 2017.

Foreldrar Halldóru voru hjónin Rósa Þorgilsdóttir, f. 23. ágúst 1895, d. 10. september 1988, og Gunnlaugur Gíslason, f. 27. mars 1898, d. 4. janúar 1992. Systkini Halldóru eru Jóna G. Snævarr, f. 9. febrúar 1925, Dagbjört Stephensen, f. 16. maí 1927, Þorgils Gunnlaugsson, f. 6. janúar 1932 og fósturbróðir Halldór Arason, f. 27. júlí 1925, d. 1. febrúar 2004. Halldóra lauk gagnfræðaprófi frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1945 og útskrifaðist úr Húsmæðraskólanum á Akureyri tveimur árum síðar. Þá var hún einn vetur ráðskona í Kvennaskólanum í Reykjavík. Að því loknu fluttist hún aftur í Svarfaðardal og starfaði á skrifstofu KEA á Dalvík. Árið 1952 fluttist Halldóra til Akureyrar og hóf störf í aðalbókhaldi Kaupfélagsins og endaði þar starfsævi sína 45 árum síðar.

Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.

Á Sökkuhólnum í Svarfaðardal uxu upp dæturnar Jóna, tvíburarnir Dagbjört og Halldóra og sonurinn, Þorgils. Þetta voru börn Rósu Þorgilsdóttur og Gunnlaugs Gíslasonar. Sakka var myndarbýli og landkostajörð sem mátti vel yrkja enda var það gert. Nú er Sakka stórbýli.

Nokkru síðar var ungur, nýútskrifaður prestur að koma sér fyrir á Völlum. Ungi presturinn, sem síðar varð faðir minn, var til að byrja með einn síns liðs í Vallahúsinu en þar fjölgaði eftir að Valdimar afi og Stefanía amma komu þangað.

Það liggur í eðli hvers ungs manns að leita sér maka og ekki var óeðlilegt að hann kíkti upp á Sökkuhólinn. Valdimar afi skrifaði dagbók og hann getur þess af og til að Stefán sé úti á Sökku í erindum bókasafnsins. Það var trúlega yfirvarp og 1945 skrifar hann að Stefán sé mikið á Sökku og er eins og hann renni ekki grun í að þar skuli kvennamál spila inn í, fremur spilamennska. En allt komst upp og Jóna, móðir mín, flutti til þeirra í Velli. Þar með var hún orðin prestsfrú á Völlum. Seinna kom ungur prestur í þjálfun í Velli. Það var sr. Þórir Stephensen, fv. dómkirkjuprestur. Hann fór líka upp á hólinn og hafði Dagbjörtu með sér á braut úr dalnum. Halldóra var því orðin ein systranna á Sökku og aðstoðaði við hús- og búverk enda hamhleypa til verka, skýr og glögg eins og almennt er í þessari ætt.

Hún lauk gagnfræðaprófi frá MA og síðar Húsmæðraskólanum á Akureyri og var aðstoðarstúlka kennara í Húsmæðraskóla Reykjavíkur einn vetur og aðstoðaði líka á heimili hans. Hún hóf skrifstofustörf við Kaupfélagið á Dalvík og síðar á Akureyri, þar vann hún svo til alla sína starfstíð. Á Dalvík fékk hún mikið hrós fyrir nákvæm vinnubrögð og góðan frágang og réttan á öllum skjölum og það svo að Akureyringarnir soguðu hana til sín.

Annað aðalstarf hennar var að liðsinna foreldrum sínum sem eltust eins og aðrir og ekki síður áttu börnin hug hennar. Halldóra varð eins konar ólaunuð hjálparstofnun, fyrir unga sem aldna, og hún fann sig vel í því hlutverki og það rúm var ekki autt sem hún skipaði, harðdugleg, myndvirk og kunni ekki að segja nei. Var hún jafnvirk á inni- sem útivinnu, sleifar og hrífur. Eiga margir henni þökk að gjalda. Lengst bjó hún í eigin íbúð á Akureyri en var oftast á Sökku um helgar og fríum meðan heilsa leyfði. Hún spilaði bridge, vist og brús þar sem hún náði þeim alþekkta titli „heimsmeistari í brús“. Naut hún þar aðstoðar bróður síns og urðu þau fyrstu íslensku heimsmeistararnir í greininni.

Allt hennar fas var rólegt og brosið alltaf nærri. Væri hún eitthvað að dunda blístraði hún gjarna sama stefið upp aftur og aftur og skipti kannski hálfsmánaðarlega um lagstúf. Fyrir nokkrum árum tók að halla undan fæti, heilsan tók að bila og svo fór að hún gat ekki lengur verið heima. Hún dvaldist síðustu ár sín á Hlíð við hina bestu umönnun. Þar andaðist hún er þær nöfnur voru að ljúka faðir vorinu, södd lífdaga. Þar kom amen á eftir efninu.

Auður og Gunnlaugur.

Sumar og sól. Það eru fyrstu orðin sem koma upp í hugann þegar ég hugsa um móðursystur mína, Halldóru Gunnlaugsdóttur frá Sökku í Svarfaðardal, eða Dæju, sem við kvöddum hinn 27. febrúar síðastliðinn. Gæska og glettni koma strax á eftir. Svo ryðjast minningarnar fram, gamlar og nýjar, bros læðist fram á varir og augu verða rök.

Þegar ég flutti til Akureyrar, nýútskrifaður kennari, tók Dæja frænka mig undir sinn verndarvæng. Hún fann kaupfélagsbíl sem gat tekið búslóðina mína með norður. Hún aðstoðaði mig við fyrstu bílakaupin. Dæja kom mér á gönguskíði og var alltaf tilbúin að aðstoða þegar þörf var á, hvort sem það var að gefa góð ráð eða skrifa upp á víxil. Hún var aldrei uppáþrengjandi heldur styðjandi og hvetjandi. Þegar frá leið sleppti hún af mér hendinni en það var alveg ljóst að ef ég þurfti á hjálp að halda gat ég alltaf leitað til Dæju.

Dæja eignaðist engin börn sjálf en það var enginn hörgull á ungu fólki og börnum í kringum hana. Við erum mörg, systkinabörnin hennar, sem nutum góðs af hlýju hennar og stuðningi. Hún glettist við stóra og smáa og ýmist hálfflautaði eða sönglaði við vinnu sína. „Dæ-da-ræ-da-rinda“ er stef sem við þekkjum vel þó að lagið væri nokkuð á reiki. Hún spilaði við börnin og laumaði aurum í lófa þeirra. Á sinn hljóðláta hátt kenndi hún okkur að vera góð hvert við annað og standa við orð okkar.

Svo kom að því að við Dæja keyptum sumarbústað saman. Bústað sem foreldrar mínir byggðu í landi Sökku og við áttum erfitt með að hugsa okkur að færi úr fjölskyldunni. Þá höfðum við gaman af að hreiðra um okkur á okkar hátt og notuðum svo bústaðinn í fullkominni sátt og sameiningu. Dæja naut þess að sinna gróðrinum þar þegar hlé var í heyskapnum á Sökku en þar tók hún fullan þátt og hjálpaði auk þess til inni á ýmsa lund. Við höfðum báðar gaman af að fylgjast með fuglalífinu og upplýstum hvor aðra um stöðu mála þegar við hittumst. Þá fórum við að fara saman í berjamó og stundum var hörð keppni um hvor gat tínt meira á klukkutíma. Það voru skemmtilegar stundir þó að ég tapaði nú oftast slagnum því Dæja var berjaóð eins og það heitir í minni fjölskyldu.

Þegar árin færðust yfir gat Dæja ekki lengur notið bústaðarins og hann varð mín eign. En hún kom reglulega í heimsókn í Sökku 2 og rölti þá yfirleitt út eftir til mín. Þá settumst við undir vegg og spjölluðum. Það varð ófrávíkjanleg hefð að við reyktum saman á þessum stundum. Ég púaði eina meðan hún reykti tvær og þó að ég væri löngu hætt að fikta við reykingar og hún hætt að treysta sér í heimsókn til mín nema kannski einu sinni á sumri, hélst þessi hefð eins lengi og hún hafði heilsu til. Í minningunni sitjum við úti á bekknum undir vesturveggnum og horfum yfir dalinn, alltaf í glampandi sól.

Ég er óendanlega þakklát fyrir að hafa fengið að vera ein af hópnum hennar Dæju. Þessarar hjartahlýju, gamansömu og skynsömu konu sem ekkert aumt mátti sjá og öllum vildi vel. Söknuðurinn er mikill en ég samgleðst henni að hafa fengið hvíldina á rólegan og átakalausan hátt. Hafi hún hjartans þökk fyrir allt.

Elín Stephensen.