Björgun Fullorðinn selur flæktist í selaneti sem var lagt fyrir kópa. Bræðurnir Ari, Helgi og Hálfdán Björnssynir greiddu selinn úr netinu og slepptu.
Björgun Fullorðinn selur flæktist í selaneti sem var lagt fyrir kópa. Bræðurnir Ari, Helgi og Hálfdán Björnssynir greiddu selinn úr netinu og slepptu. — Morgunblaðið/RAX
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Erling Ólafsson, skordýrafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, var ekki í sveit á Kvískerjum en kynntist ungur Hálfdáni Björnssyni og systkinum hans.

Ég sá Hálfdán Björnsson fyrst á síðasta degi vinstri aksturs hér á landi í maí 1968. Var ég þá á skólaferðalagi 5. bekkinga í MR þegar brotist var yfir óbrúaðar árnar á Skeiðarársandi á leið austur í Hornafjörð. Komið var við í hlaðinu á Kvískerjum. Þeir bræður Flosi, Helgi og Hálfdán komu til okkar að rútunum. Ógleymanleg stund. Mér fannst þetta ekki rétta stundin til að gera vart við mig. Sú stund kom þegar ég hafði hafið nám í líffræði við Háskóla Íslands með fastsetta stefnu á framhaldsnám í skordýrafræði í útlöndum. Var ég þá þegar farinn að byggja upp prívat skordýrasafn.

Hálfdán varð fljótlega þekktur í nágrannalöndum okkar fyrir einskæran áhuga sinn á skordýrunum og merkilegt skordýrasafn sem hann hafði komið sér upp við afar ófullkominn kost. Þá fyrst taldi ég mig hafa öðlast nægan þroska til að senda Hálfdáni bréf og gera vart við mig. Hálfdán tók mér afar vel, loksins var einhver mættur á sviðið til að deila með honum hugðarefnum um skordýrin! Kynnin urðu strax náin og samskiptin mikil. Við skiptumst á safneintökum og upplýsingum og fórum fljótlega að skrifa saman greinar um skordýr til birtingar í Náttúrufræðingnum.

Þegar árnar yfir sandana voru brúaðar var hindrunum rutt úr vegi. Heimsóknir mína á Kvísker urðu reglulegar til að hitta vin minn, fara með honum á afvikna staði í hans ríki til að safna skordýrum og horfa eftir fuglum. Mér var ekki bara vel tekið af Hálfdáni heldur einnig af þeim systkinum öllum á Kvískerjum þar sem ég átti ávallt vísan næturstað. Ég varð fljótt heimagangur á Kvískerjum og ávallt tekið opnum örmum af þeim systkinum öllum. Vinátta okkar Hálfdáns var vel metin á Kvískerjum og tjáði Guðrún systir hans mér eitt sinn í einrúmi að þau systkinin væru afar ánægð með kynni okkar „litla bróður“. Alltaf þegar ég mætti var Hálfdáni frjálst að hverfa af bæ til að sinna hugðarefnunum þó hábjargræðistími ríkti í búskap og lífsbjörg. Þau 22 ár sem skildu okkur að í aldri mældust ekki. Við vorum ávallt sem jafnaldrar í okkar samskiptum, en þegar fræði og áhugamál eru annars vegar fyrirfinnst ekki aldursmunur.

Eftirminnilegir matmálstímar

Þegar ég kom fyrst til Kvískerja var ég leiddur inn í betri stofu og fært kaffið þangað. Annað þótti ekki gestum sæmandi. En ég vann mér fljótlega sess í næstu stofu áður en farið var að bjóða til sætis í eldhúsinu þar sem ég eignaðist mitt pláss við borðið með heimafólkinu. Á Kvískerjum var virðing borin fyrir gestum og þótti ekki annað kurteisi en leiða þá beint til stofu.

Sú stund rann upp að ég var spurður varfærnislega hvort mér væri sama þó ég sæti með þeim systkinum til borðs í eldhúsinu. Það sagði mér að ég væri að fullu meðtekinn sem heimilisvinur. Minn var heiðurinn. Að sitja til borðs í eldhúsinu á Kvískerjum og borða með þeim systkinum, Flosa, Ara, Guðrúnum tveim, Sigurði, Helga og Hálfdáni, snæða selkjöt, lómakjöt, heimaræktað grænmeti eða tínt úti í haga. Maður fékk að heyra frásagnir af því hvað hver og einn hafði afrekað eða uppgötvað yfir daginn. Hlusta á frásögn af nýreknum rekaviðardrumbi sem Helgi hafði fundið, hvers konar tré var þetta, var þetta gott tré, í hvað mætti helst nýta það, hvernig var að komast að því og sækja. Spjall um þetta tré tók heilan matmálstíma, allt í rólegheitum, með þagnarpásum til að tyggja. Hálftugginn matur var sóun. Ég hef búið því að hafa kynnst sérstæðu heimilislífinu á Kvískerjum og hefur það fylgt mér alla tíð. Að kynnast því hvernig þau systkinin skiptu á milli sín verkum bæði á heimili, í búskap og fræðum, hvernig hvert og eitt fann sína sérgrein, hvernig þau virtu hvert annað og gáfu hvert öðru tíma til að sinna sínum hugðarefnum.

Við Hálfdán fórum víða um Suðausturland í leit að einhverju spennandi. Ferðirnar í Ingólfshöfða, Bæjarstaðaskóg og niður á Skeiðarársand urðu margar, í Esjufjöll og jökulskerin í Breiðamerkurjökli nokkrar, að ógleymdri krefjandi gönguför í Máfatorfu í Suðursveitarfjöllum með byrðar til tveggja nátta dvalar í tjaldi. Hálfdán hafði einu sinni áður komið í Máfatorfu með Helga bróður sínum og var hugur hans æ síðan við þennan afskekkta einangraða gróðurreit á einkar óaðgengilegum stað í Innri-Veðurárdal, einhverjum fallegasta stað á landinu, að mínu mati, þar sem fáir hafa komið. Við hittumst varla svo að Máfatorfa kæmi ekki tals. „Hefðir þú ekki gaman af því að koma í Máfatorfu?“ var ég oft spurður. Í dag er ég þakklátur sjálfum mér fyrir að hafa gert Hálfdáni kleift að koma aftur í torfuna og honum ævarandi þakklátur fyrir að hafa farið með mig þangað. Þetta var í ágúst 2004, Hálfdán þá 77 ára að aldri, léttur á fæti sem tófa.

Ekki má gleyma öllu því sem við brölluðum saman í fræðunum sem náðu hæstu hæðum í norrænu samvinnuverkefni sem hófst árið 1995 þegar valdir voru tveir staðir á landinum til að vakta fiðrildi. Kvísker var annar staðanna sem voru valdir og var hann sjálfgefinn. Staðsetningin á Suðausturlandi var spennandi, þar var aðstaða kjörin og maður á staðnum með kunnáttu og áhuga á að taka þátt og sinna gildrum í 30 vikur á ári, greina aflann og telja hvert fiðrildi. Hálfdán sinnti þessu verkefni af miklum áhuga og elju í um það bil fimmtán ár eða þar til tók að halla undan fæti. Margar áhugaverðar uppgötvanir voru gerðar á þessum tíma.

Komið að kveðjustund

Samband okkar Hálfdáns einkenndist alla tíð af náinni vináttu sem var okkur báðum mikils virði. Við hittumst síðast í lok október á síðasta ári á hjúkrunarheimilinu á Höfn. Eftir að Hálfdán fór þangað alfarið frá Kvískerjum ásamt Helga bróður sínum heimsótti ég þá bræður eins oft og kostur var á. Undir það síðasta mætti ég ávallt með nokkurn hnút í maganum. Myndi hann þekkja mig núna eða...? En alltaf mætti ég ljómandi brosinu, jú hvort hann myndi eftir mér. Síðustu tvær stundirnar sem við áttum saman flettum við færeyskri fiðrildabók sem hann hafði miklar mætur á og skiptumst enn sem oftar á upplýsingum. Hálfdán ljómaði ávallt þegar fiðrildin bar á góma og margar staðreyndir um fiðrildi rifjuðust upp á þessum síðustu kvöldstundum okkar saman þó margt annað væri þá horfið í þokuna. Ég vissi að þetta yrði okkar kveðjustund.

Þrem og hálfum mánuði síðar var mér treyst fyrir því að bera vin minn til grafar 18. febrúar í veðri eins fallegu og getur orðið um hávetur, stillu og heiðríkju og níu stiga hita. Græn slikja var yfir kirkjugarðinum að Hofi, nánast vor í lofti, þrjár hvítar rjúpur spókuðu sig á bakka opinnar grafarinnar, fluga svermaði yfir kistunni inni í litlu kirkjunni. Gat þetta verið táknrænni kveðjustund þessa mikla fræðimanns á Kvískerjum?

Hálfdán skildi eftir sig mikið og verðmætt safn skordýra sem hann ánafnaði Náttúrufræðistofnun Íslands formlega í erfðaskrá sinni. Áður hafði ég reyndar sótt það heim á Kvísker til að koma því í örugga höfn. Hálfdán hafði stundum nefnt það við mig að helst kysi hann að ég tæki við safninu sínu „ef það yrði ekki íþyngjandi fyrir mig að taka við því“. Ekki vildi hann auka byrði nokkurs manns. Þannig var Hálfdán.“