Prófessor við Háskóla Íslands Ragnar Árnason er einn helsti sérfræðingur heims í hagfræði fiskveiða.
Prófessor við Háskóla Íslands Ragnar Árnason er einn helsti sérfræðingur heims í hagfræði fiskveiða. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ný úttekt Alþjóðabankans sýnir fram á gífurleg tækifæri til að auka arðsemi fiskveiða með því að draga úr sókn í fiskistofna. Ragnar Árnason er vísindamaðurinn að baki úttektinni.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is Glataður ávinningur í fiskveiðum heimsins árið 2012 nam um 83 milljörðum bandaríkjadala, eða um 8.900 milljörðum íslenskra króna. Með því að minnka sókn í ofnýtta fiskistofna mætti byggja þá upp og stuðla að aukinni arðsemi í framtíðinni. Sterkari stofnar lækka veiðikostnað og gefa af sér stærri og verðmætari fisk.

Þetta er meðal þess sem kemur fram í nýrri úttekt Alþjóðabankans, sem í lauslegri þýðingu heitir Glötuðu milljarðarnir á ný: Framfarir og áskoranir í heimsfiskveiðunum.

Segir þar að með því að draga úr veiðisókn um 44% sé hægt að stækka fiskistofna um 170% og auka jafnaðarafla um 12%, auk þess sem meðalverð á lönduðum afla hækki um 24% með stærri og eftirsóttari fiski.

Alþjóðabankinn fól Ragnari Árnasyni, prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands, að vinna úttektina í samvinnu við starfsmenn bankans. Áður hafði Ragnar verið einn þriggja aðalhöfunda sambærilegrar úttektar fyrir Alþjóðabankann árið 2004, sem birtist 2009.

Veiðiréttur er forsenda

Fyrri útgáfan var fyrsta úttekt Alþjóðabankans á heimsfiskveiðunum. Ragnar var einn þriggja aðalhöfunda í upphaflegu útgáfunni, ásamt tveimur starfsmönnum FAO og Alþjóðabankans. Í þessari síðari útgáfu var Ragnar einn ábyrgur fyrir hinu vísindalega starfi.

„Ég var vísindamaðurinn í þessu verki en starfsmenn Alþjóðabankans settu skýrsluna í þann endanlega búning sem Alþjóðabankinn vill hafa á svona vinnu. Í framhaldinu hafa forráðamenn Alþjóðabankans kynnt niðurstöðurnar víða um heim. Þeir eru að berjast fyrir því að fiskveiðiþjóðir heimsins bæti sína fiskveiðistjórnun. Með því sé hægt að ná umtalsverðum hluta af þessum 83 milljörðum bandaríkjadala sem glatast á hverju ári. Það verður ekki gert nema með því að bæta fiskveiðistjórnun í heiminum og þar næst ekki umtalsverður árangur nema með því að taka upp einhvers konar veiðiréttarkerfi. Á sumum stöðum er hægt að taka upp aflakvótakerfi í líkingu við það sem við höfum á Íslandi. Á öðrum stöðum þarf að byggja fiskveiðistjórnun á því sem kalla mætti sameiginlegan veiðirétt hópa eða byggðarlagarétt. Slíkur sameiginlegur réttur gæti t.d. verið réttur einstakra fiskiþorpa til að nýta fiskistofna á sínu svæði. Það er líklegt að þetta fyrirkomulag geti nýst vel í þróunarlöndunum, þar sem erfitt er að koma við aflakvótakerfum, en fiskveiðiþorpin eru hins vegar oft í góðri stöðu til þess að stýra fiskveiðum á sínum svæðum og ráðstafa kvótum úr sameiginlegum fiskistofnum. Aðalatriðið er að það þarf að byggja á sterkum réttindum viðkomandi aðila hvort sem það eru einstaklingar, fyrirtæki eða hópur fiskimanna.“

Ragnar segir að milli fyrri úttektarinnar og þeirrar síðari, þ.e. milli áranna 2004 og 2012, hafi orðið nokkur endurbót í heimsfiskveiðunum. Minnkun fiskistofna í heimshöfunum, sem staðið hafi yfir frá árinu 1950, hafi að því er virðist stöðvast. Þá hafi veiðisókn minnkað örlítið og afkoma veiðanna batnað. Hin almenna upptaka aflakvótakerfa á Vesturlöndum sé ein helsta skýringin á þeim árangri. Þegar litið sé til heimsins í heild sé þessi þróun hins vegar mjög hægfara og með sama áframhaldi muni taka 60-80 ár að endurheimta hinn glataða hagnað af heimsfiskveiðum að fullu. Því sé reynt að kappkosta að flýta þessu ferli.

Stærri stofnar gefa meiri afla

Ofnýting fiskistofna hefur dregið mjög úr mögulegum afla.

Þannig kemur fram í nýju úttektinni, sem er aðgengileg á vef Alþjóðabankans, að stærð fiskistofna í heimshöfunum sé álitin hafa verið 215 milljón tonn árið 2012. Það sé hagkvæmt að auka í 579 milljón tonn, eða um 170% (sjá töflu). Það verði hins vegar ekki gert nema með stórlega minnkaðri veiðisókn.

„Allt of mikil sókn hefur keyrt niður stofnana, langt, langt niður fyrir það mark sem gefur mest af sér. Þegar stofnarnir eru orðnir svona smáir, þá er árlegur vöxtur ekki mjög mikill og ekki unnt að taka nema árlegan vöxt sem afla án þess að minnka stofnana enn frekar. Það þarf fyrst og fremst að draga úr sókninni. Á Íslandi hefur þetta gerst. Við höfum nú þegar dregið stórkostlega úr sókn í flestar tegundir, sérstaklega botnfisktegundir, og þar eru nú miklu stærri stofnar og miklu meiri afli á úthaldsdag en áður.

Nú fer íslenskur bátur út á miðin og hann veiðir gjarnan 20-40 tonn á dag á þessum árstíma. Fyrir 30 árum var hliðstæður bátur að veiða 2-3 tonn. Þetta er fyrst og fremst vegna þess að nú er miklu meira af fiski í sjónum, þorski og ýmsum öðrum tegundum. Það hefur dregið úr sókninni og því getur fiskurinn komist á legg og hrygningin verður árangursríkari. Aðalatriðið er þó að fiskurinn sé ekki veiddur þegar hann er smár. Hann stækkar hratt þegar hann er ungur og þegar færri fiskar eru teknir verður vöxtur stofnsins meiri.“

Tæplega þrjátíuföldun

Fram kemur í úttektinni að arðurinn af heimsfiskveiðunum hafi numið um 3 milljörðum dala 2012. Hækkun þessa ávinnings upp í 86 milljarða dala er því tæplega þrjátíuföldun á arðseminni. Um 15% þeirrar aukningar yrði vegna aukins afla, 52% vegna lægri kostnaðar og 33% vegna hærra aflaverðmætis (sjá skífurit).

Ragnar segir litla arðsemi fyrst og fremst skýrast af því að stofnarnir hafi verið keyrðir svo niður að nánast enginn hagnaður sé af veiðunum. Raunar hafi verið tap af heimsfiskveiðunum árið 2004, að teknu tilliti til styrkja.

„Það er auðvelt að veiða fisk ef það er nóg af honum. Þess vegna getur arður af nýtingu fiskistofna sem eru í góðu ásigkomulagi verið mjög hár. Að þessu leyti eru öflugir fiskistofnar sambærilegir við verðmætustu náttúruauðlindir heimsins. Þannig hefur komið í ljós að arður af vel skipulögðum fiskveiðum er svipaður meðalarði af olíulindum. Munurinn er hins vegar sá að vel skipulagðar fiskveiðar eru sjálfbærar. Olíulindir ganga hins vegar til þurrðar. Þar sem við erum vonandi að fara úr því að hafa ofveitt stórkostlega á heimsvísu yfir í að vera með skynsamlega nýtingu stofnanna getum við átt von á því að þrjátíufalda hagnaðinn, úr 3 milljörðum bandaríkjadala í 86 milljarða dala.“

Ragnar segir þessa tölu – 83 milljarða dala í viðbótarhagnað – byggjast á nokkrum lykilstærðum (sjá töflu). Miðað sé við 170% aukningu í stærð fiskistofna. Stærri stofnar geti borið meiri og verðmætari heildarafla. Forsendan er að sóknin verði minnkuð um 44%. Við það eykst aflinn um 12% til jafnaðar. Með betri afla aukast verðmætin langt umfram það.

„Síðan gerist það líka, sem er ef til vill ekki eins augljóst, að ef fiskistofnum er leyft að stækka verður fiskurinn að meðaltali stærri og yfirleitt verðmætari. Ofnýttustu stofnarnir í heiminum eru þeir verðmætustu. Heimsfiskveiðarnar hafa farið úr verðmætum stofnum yfir í síður verðmæta stofna, úr dýrum botnfiskum í uppsjávarfiska, sem er fæða fyrir botnfiska. Því er áætlað í skýrslunni að meðalverð af lönduðum afla muni hækka um 24%,“ segir Ragnar.Um leið geti kostnaður lækkað um 44%. Það sé fyrst og fremst vegna þess að fiskveiðiskipum fækki. Ragnar segir opinbera styrki til sjávarútvegs eiga verulegan þátt í ofveiði.