[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kristján Jónsson kris@mbl.is Vinnuhópur um endurskoðun á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ kynnti skýrslu sína á blaðamannafundi í gær.

Fréttaskýring

Kristján Jónsson

kris@mbl.is

Vinnuhópur um endurskoðun á reglum Afrekssjóðs ÍSÍ kynnti skýrslu sína á blaðamannafundi í gær. Stærstu tíðindin í skýrslunni eru líklega þau að vinnuhópurinn leggur til flokkun á sérsamböndum ÍSÍ eftir stöðu Íslands í greininni og stöðu viðkomandi íþróttagreinar í heiminum.

Lagt er til að skipta sérsamböndum í þrjá flokka sem kallaðir eru í skýrslunni: Afrekssambönd, Alþjóðleg sambönd og Þróunarsérsambönd en alls eru sérsambönd ÍSÍ þrjátíu og tvö talsins. Er áhersla lögð á lengri samninga en áður og lagt til að gera megi samninga til fjögurra ára, til dæmis vegna ákveðinna verkefna eins og Ólympíuleika.

„Er það mat vinnuhópsins að æskilegt sé að um 45-70% af úthlutun sjóðsins fari til þeirra sambanda, en þó fari það eftir verkefnum og áherslum hverju sinni. Þau sérsambönd sem skipa sér í flokk Alþjóðlegra sérsambanda hlytu um 35-45% af úthlutun sjóðsins, m.t.t. verkefna og áherslna hverju sinni. Loks færu um 10-15% til þeirra sérsambanda sem væru skilgreind sem Þróunarsérsambönd,“ segir í skýrslunni.

Átta sambönd í fyrsta flokki

Vinnuhópurinn flokkar eftirfarandi sérsambönd sem Afrekssambönd að svo stöddu: Frjálsíþróttasambandið, Fimleikasambandið, Golfsambandið, Handknattleikssambandið, Körfuknattleikssambandið, Kraftlyftingasambandið, Knattspyrnusambandið og Sundsambandið.

Um Afrekssambönd segir meðal annars: „Sérsambönd þar sem afreksstarfið felur í sér reglulega þátttöku á hæsta stigi í viðkomandi íþróttagrein, með frábærum árangri, s.s. verðlaunasæti eða með því að komast í úrslit. Í þessu sambandi getur sjóðsstjórn metið stærð íþróttagreinar á heimsvísu.“

Vinnuhópurinn flokkar eftirfarandi sérsambönd sem Alþjóðleg sambönd að svo stöddu: Blaksambandið, Badmintonsambandið, Danssambandið, Íþróttasamband fatlaðra, Íshokkísambandið, Júdósambandið, Karatesambandið, Keilusambandið, Landssamband hestamanna, Skíðasambandið, Skylmingasambandið og Skotíþróttasambandið.

Um alþjóðleg sambönd segir meðal annars: „Sérsambönd þar sem afreksstarfið felur í sér reglulega alþjóðlega þátttöku á heimsvísu í viðkomandi íþróttagrein, þar sem einstaklingar eru að keppa um stig á heimslista og reyna að vinna sér þátttökurétt á HM/EM og/eða ÓL/PL.“

Í skýrslunni segir að sjóðurinn eigi ekki að vera félagslegt stuðningsnet fyrir sérsamböndin. „Vinnuhópurinn leggur áherslu á að sú grundvallarbreyting verði gerð á starfi sjóðsins að meginhluti styrkfjárins renni til þeirra aðila sem eru hvað fremstir í afreksstarfi hverju sinni. Þó er mikilvægt að þau sérsambönd sem ekki hljóta stóra styrki fái ákveðna grunnstyrki til að standa undir lágmarks landsliðsverkefnum.“

Auknar heimildir til að hafna

Hópurinn leggur til að Afrekssjóður geti hafnað umsóknum til dæmis frá fjárhagslega sterkum sérsamböndum. Í skýrslunni er nefnt að KSÍ sé fjárhagslega sjálfbært samband en einnig er nefnt að Golfsambandið og Íþróttasamband fatlaðra séu ekki langt frá slíkri skilgreiningu.

„Vinnuhópurinn leggur áherslu á að heimildir Afrekssjóðs ÍSÍ til að hafna umsóknum frá sjálfbærum sérsamböndum verði styrktar í 6. grein núverandi reglugerðar. Í tilviki KSÍ og annarra verður Afrekssjóður ÍSÍ eðlilega að meta árlega stöðuna og vinna tillögur sínar út frá því.“

Víða er komið við í skýrslunni eins og gefur að skilja og hér er einungis stiklað á stóru í einum hluta skýrslunnar. Hér má einnig bæta því við að sérsamböndin þurfa að standast ýmis skilyrði fyrir úthlutun og afreksstefnur þeirra þurfa að vera skýrari og markvissari í mörgum tilfellum.

• Skýrsluna í heild sinni má finna í tveimur fréttum á mbl.is/sport frá því í gær.

Vinnuhópurinn
» Stefán Konráðsson var formaður en ásamt honum voru Andri Stefánsson, Friðrik Einarsson og Þórdís Geirsdóttir í hópnum.
» Álitsgjafar hópsins voru sextán einstaklingar sem hafa yfirgripsmikla þekkingu á afreksíþróttum. Nöfn þeirra má sjá á mbl.is.
» Eftir viljayfirlýsingu um stóraukið fjármagn til Afrekssjóðs var hópurinn skipaður af framkvæmdastjórn ÍSÍ.