Haraldur Í myndinni er lífssaga hans frá barnæsku sögð.
Haraldur Í myndinni er lífssaga hans frá barnæsku sögð. — Morgunblaðið/Eggert
Í fyrrakvöld sýndi RÚV fyrsta flokks heimildamynd.

Í fyrrakvöld sýndi RÚV fyrsta flokks heimildamynd. Hún heitir Halli sigurvegari, gerð af Páli Kristni Pálssyni og þar er sagt frá Haraldi Ólafssyni, einstökum manni, sem hefur yfirstigið hverja hindrunina á fætur annarri og tekist á við aðstæður þar sem flestum okkar myndu fallast hendur.

Haraldur er hreyfihamlaður og var vistaður á Kópavogshæli frá barnsaldri og fram á fullorðinsár. Vegna líkamlegrar fötlunar var talið að hann væri einnig greindarskertur og því fékk hann litla sem enga örvun eða þjálfun á barnsaldri, hvað þá formlega kennslu.

Lesendur Morgunblaðsins kannast kannski við sögu Haraldar, en viðtal undirritaðrar við þennan einstaka mann birtist í blaðinu í febrúar síðastliðnum. Þar, eins og í myndinni, kom glöggt fram óbugandi þrautseigja hans og útsjónarsemi í daglegu lífi.

Í myndinni var rætt við fjölmarga vini Haraldar og allir sögðu það sama: Viðhorf hans til lífsins er einstakt. Þetta viðhorf skín í gegn í myndinni og þeir sem hafa áhuga á að sjá stórskemmtilega og mannbætandi mynd (hver hefur það ekki?) ættu að sjá myndina um Halla sigurvegara. Hana má finna í Sarpi RÚV.

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir