Skattaspor Arnarlax sýnir hvers má vænta í gjöldum félagsins til samfélagsins á næstu árum, verði vöxturinn jafn mikill og stefnt er að.
Skattaspor Arnarlax sýnir hvers má vænta í gjöldum félagsins til samfélagsins á næstu árum, verði vöxturinn jafn mikill og stefnt er að. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is Stjórnarformaður Arnarlax er þeirrar skoðunar að fiskeldisgreinin þurfi meira eftirlit og athygli. Skattasporið sýnir hvað fyrirtækið leggur til samfélagsins í formi skattgreiðslna og gjalda.

„Hugsun okkar er að styðja við umræðuna um fiskeldið og hvað greinin leggur til samfélagsins,“ segir Kjartan Ólafsson, stjórnarformaður laxeldisfyrirtækisins Arnarlax, um skattaspor fyrirtæksins, sem var 616 milljónir króna á síðasta ári.

Skattasporið er eins og segir í samantekt endurskoðunarfyrirtækisins PwC á Íslandi tæki fyrir íslensk fyrirtæki til að gera með einföldum hætti grein fyrir öllum sköttum og gjöldum til opinberra aðila í einni samantekt; ríkis, sveitarfélaga og lífeyrissjóða.

Skattaspor Arnarlax skiptist þannig að skattar starfsmanna, sem voru að meðaltali 118 á síðasta ári, voru 377 milljónir króna, framlög í lífeyrissjóð námu 124 milljónum, aðflutningsgjöld voru 18 milljónir, gjald í umhverfissjóð var 30 milljónir, afla- og hafnargjöld voru 48 milljónir og önnur gjöld voru 19 milljónir króna.

Stolt af samantektinni

Kjartan kveðst stoltur af skattasporinu. „Við erum afar ánægð með þessa samantekt sem PwC á Íslandi hefur gert fyrir okkur. Þetta eru umtalsverð áhrif og ástæðan fyrir því að við setjum þetta svona fram, er til að styðja við þessa umræðu um fiskeldið, þannig að menn sjái allar hliðar á þessu, og þetta er klárlega ein hliðin. Smátt og smátt fáum við fleiri staðreyndir málsins upp á borðið. Til dæmis má merkja jákvæða breytingu í tölum Hagstofunnar um búsetuþróun á sunnanverðum Vestfjörðum á síðustu áratugum. Skattasporið sýnir að framlag okkar er verulegt og á sinn þátt í þessu og í það heila erum við dálítið stolt af þessu,“ sagði Kjartan í samtali við ViðskiptaMoggann.

Greinin þarf eftirlit og athygli

Hann segir að skattasporið svari auknum almennum kröfum um gegnsæi og upplýsingagjöf. „Við erum þeirrar skoðunar að greinin þurfi meira eftirlit og athygli. Við viljum líka að ríki og sveitarfélög sjái þessa hlið á greininni.“

Arnarlax framleiddi 6.000 tonn af laxi í fyrra og stefnir á að tvöfalda það magn á þessu ári.

Í samantekt PwC segir að þegar litið sé á heildarmyndina af sköttunum og gjöldum sem Arnarlax samstæða greiði, sjáist að stærsti hluti þess séu skattar starfsmanna. „Viðbúið er að þetta breytist á komandi árum með vaxandi arðsemi af fjárfestingum félagsins.

Uppbygging fiskeldis tekur langan tíma, kallar á miklar fjárfestingar og felur í sér mikinn kostnað í upphafi. Við slíkar aðstæður verður að horfa til lengri tíma en til skamms tíma safnast upp skattalegt tap af rekstri. Með auknum tekjum og hagnaði á komandi árum mun uppsafnað skattalegt tap nýtast í rekstri félagsins og að lokum skila sér í auknum skatttekjum til ríkisins,“ segir í samantekt PwC.

Mikill vöxtur framundan

Arnarlax stefnir á mikinn vöxt á næstu árum. „Með öllum umsóknum sem við erum með í gangi núna verðum við komin í 30 þúsund tonna framleiðslu innan nokkurra ára. Með því að skoða skattaspor síðasta árs, má glögglega sjá hvers er að vænta í þessum efnum.“