Golfferðir „Sumir eru alveg svakalega íhaldssamir. Svo erum við líka með fullt af fólki sem spyr á hverju ári um nýja staði til að fara að spila á,“ segir Hörður Arnarson hjá Heimsferðum um þá sem fara í golfferðir.
Golfferðir „Sumir eru alveg svakalega íhaldssamir. Svo erum við líka með fullt af fólki sem spyr á hverju ári um nýja staði til að fara að spila á,“ segir Hörður Arnarson hjá Heimsferðum um þá sem fara í golfferðir.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Vinsældir golfíþróttarinnar fara síst minnkandi og endurspeglast þær í ásókninni í golfferðir til útlanda.

Jón Agnar Ólason

jonagnar@mbl.is „Það hefur verið nokkuð stöðug vinsældaaukning í golfferðunum hjá okkur,“ segir Hörður Arnarson, sem hefur íþróttaferðir hjá ferðaskrifstofunni Heimsferðum með höndum. „Það er til marks um vinsældirnar að eftirspurnin fór aldrei alveg niður eins og tilfellið var með flestar aðrar utanlandsferðir í kjölfar hrunsins, eins og til dæmis skíðin, sólarstrendur og annað slíkt. Við héldum um 65% af markaðnum á árunum 2009 og 2010.“

Það er greinilega ekki ofmælt að golfið er ávanabindandi sport!

Aðspurður segir Hörður að skiptingin milli kynja í golfferðirnar sé jafnari en margan kynni að gruna og þar komi nýliðakennslan sterk inn; ef annar makinn er sleipari í golfi en hinn er boðið upp á kennslu svo báðir njóti ferðarinnar til hins ítrasta. „Það hefur gert það að verkum að konurnar skipa um 43% af þeim sem fara á okkar vegum í golfferðir. Ég held meira að segja að við séum með hæsta hlutfallið af konum í samsetningunni af þeim sem bjóða upp á golfferðir,“ bætir Hörður við.

Fastheldnir viðskiptavinir í bland við nýjungagjarna

Í vor og sumar munu Heimsferðir bjóða áfram upp á vinsæla áfangastaði frá því í fyrra og í haust bætast svo nýir við, nánar tiltekið Almenara skammt frá suðurströnd Spánar við Gíbraltar, og svo Valle Romana sem er í um klukkustundar fjarlægð frá Costa del Sol. Það verða því nýir vellir í boði í bland við aðra sem hafa verið áður í boði, og það endurspeglar viðskiptavinahópinn eins og Hörður útskýrir.

„Sumir eru alveg svakalega íhaldssamir, og við erum með um 150 viðskiptavini sem fara einfaldlega alltaf á sömu staðina og vilja ekki breyta út af því. Svo erum við líka með fullt af fólki sem spyr á hverju ári um nýja staði til að fara að spila á.

Þar eru þá oftar en ekki golfarar sem „safna“ völlum sem þeir hafa leikið á og bregða sér gjarna í dagsferðir á milli valla þegar á áfangastað er komið, en við erum með fjóra áfangastaði fyrir golfara í nágrenni við Jerez á Suður-Spáni.“

Eins og kýrnar á vorin!

Að sögn Harðar er iðulega um sjö til tólf daga golfferðir að ræða og tíu daga ferðir eru afskaplega vinsælar. Hvað skyldu ferðalangar ná miklu golfi út úr einni viku?

„Það er þannig búið um hnútana að í vikuferð gefur þér alltaf kost á að spila sex daga,“ útskýrir Hörður. „80-90% af fólkinu sem við erum að fara með út spila 9-18 holur á komudegi. Fólk drífur sig beinustu leið út á völl, sérstaklega á vorin. Þá sér fólkið bara fagurgrænt gras og sólina, og rýkur úr með það sama.“

Ekki ósvipað blessuðum kúnum þegar þær komast loks út á vorin og ráða sér vart fyrir gleði.

Þúsundir útskrifaðra í golfi

Hörður minnir að endingu á golfskólann sem Heimsferðir starfrækja og hafa gert síðan 1997.

„Við eigum að baki rúmlega 4.000 útskriftir og þessi námskeið höfum við ekkert þurft að auglýsa því þau selja sig bara sjálf. Við erum til að mynda að fara með um 130 manns á slíkt námskeið nú í mars, og það er svolítið í tísku að hefja ferðina á því að fara í almennilega kennslu þarna ytra áður en hafist er handa við spilamennskuna, við góðar aðstæður og í góðu veðri,“ segir Hörður að lokum.