Nýr grænn litur, liprara efni og hetta sem setja má yfir hjálm er meðal nýjunga í endurbættum sjógalla sem 66°Norður kynnir til sögunnar á morgun.
Nýr grænn litur, liprara efni og hetta sem setja má yfir hjálm er meðal nýjunga í endurbættum sjógalla sem 66°Norður kynnir til sögunnar á morgun.
Þóroddur Bjarnason tobj@mbl.is 66°Norður hóf starfsemi sína með gerð sjóklæða og kynnir nú til leiks nýjan galla sem byggist á 90 ára þróun, en úr léttara efni, með vasa fyrir farsíma og hettu fyrir öryggishjálm.

Meðal þeirra eiginleika sem nýuppfærður sjógalli 66°Norður býr yfir er aukin hreyfigeta, en gallinn er þróaður í nánu samstarfi við sjómenn sem hafa haft gallann til prófunar síðan síðasta haust. Sala á sjógallanum hefst á morgun, föstudag, í verslunum fyrirtækisins.

Helgi Rúnar Óskarsson, forstjóri 66°Norður, segir að fyrirtækið hafi þjónað íslenskum sjómönnum í 90 ár. „Fyrirtækið var stofnað árið 1926 á Suðureyri við Súgandafjörð eftir að Hans Kristjánsson hafði lært sjóklæðagerð í Noregi. Fyrstu stakkarnir voru úr olíuborinni bómull, en síðan þá hafa orðið miklar tækniframfarir, og þróunin hefur verið stöðug allar götur síðan,“ segir Helgi í samtali við ViðskiptaMoggann.

Í fyrra hélt 66°Norður upp á 90 ára afmæli félagsins og fannst þá tilvalið, að sögn Helga, að kynna til sögunnar nýjan sjóstakk. Hann var fyrst kynntur á Sjávarútvegssýningunni í Laugardalshöll síðasta haust.

„Nú er þessi galli kominn í framleiðslu, og við erum byrjuð að kynna hann formlega fyrir sjómönnum og fyrirtækjum víða um land. Þetta er gríðarlega jákvættt og stórt skref.“

Þolir olíu og lýsi

Gallinn byggist á traustum og gömlum grunni að sögn Helga. „Við tökum þarna með okkur eitt og annað sem við höfum þróað í gegnum tíðina, en á sama tíma eru nýjungar eins og nýtt efni sem er sterkara, liprara og þægilegra, en mjög kulda- og olíuþolið. Fiskolían og lýsið sest gjarnan í svona fatnað.“

Hann segir að horft hafi verið til aukinnar hreyfigetu og þæginda við hönnunina, og ýmsar nýjungar bætist við eins og fleiri vasar, sem hægt er að geyma farsíma í, hetta sem hægt er að setja yfir hjálm, og hærri hetta undir andliti, til að auka skjól í kringum háls.

Veðrabrigðin sem íslenskir sjómenn lifa við eru þau kröfuhörðustu í veröldinni að sögn Helga. „Þetta eru hinir einu og sönnu útivistarmenn Íslands.“

Helgi segir að tækni sem fyrirtækið hefur þróað í sambandi við annan útivistarfatnað sem það framleiðir, skili sér í þróun sjógallans. „Þar má nefna atriði eins og hvernig við mótum ermarnar, og hvernig við staðsetjum sauma út frá þægindum. Það má segja að við séum komin í heilan hring. Við byrjuðum í sjófatnaði, þróumast yfir í útvistarfatnað, þar sem við notum mikið af þeirri tækni sem var þróuð við gerð sjófatnaðarins, og svo núna notum við tæknina úr útivistarfatnaðinum yfir í sjófatnaðinn.“

Eingöngu jákvæð viðbrögð

Helgi segir að viðbrögð sjómanna sem prófað hafa vörurnar hafi eingöngu verið jákvæð. „Við fáum ekki betri samstarfsmenn en íslenska sjómenn til að prófa þessar flíkur.“

Nokkur samkeppni ríkir á markaði með sjófatnað hér á landi, en Helgi segir að íslenskir sjómenn hafi sýnt vörum félagsins mikla tryggð í gegnum tíðina. „Við erum þeim mjög þakklát fyrir það.“

Helgi segir aðspurður að sala á sjófatnaði hafi verið nokkuð jöfn í áranna rás, en á sama tíma hafi sala á öðrum vörum fyrirtækisins vaxið mjög mikið. Þannig sé hlutdeild sjófatnaðar af sölu félagsins í dag undir 5% af heildartekjum.

Sjófatnaður 66°Norður er seldur um allan heim, og sjómenn beggja vegna Atlantsála nota fatnaðinn. Þá er hann mikið notaður í byggingariðnaði, við hestamennsku, og í öðrum aðstæðum þar sem verjast þarf vindum og veðri.

Útgerðirnar kaupa gallana

Frá og með morgundeginum geta sjómenn keypt sér galla, en sú breyting verður í viðskiptavinahópnum að útgerðir munu að líkindum kaupa flíkur í meira mæli en áður vegna nýgerðra samninga við sjómenn. „Þannig að þetta ætti að setja sérstaklega jákvæðan punkt við þau samskipti, þegar útgerðin kemur með svona fína nýja galla,“ segir Helgi og brosir.