Ingi Guðjón Magnfreðsson fæddist 10. júní 1945. Hann lést í 3. desember 2016.

Útför Inga Guðjóns fór fram 7. janúar 2017.

Það voru óvæntar og þungar fréttir sem ég fékk laugardaginn 3. desember síðastliðinn um að vinur minn og golffélagi, Ingi Magnfreðsson, hefði látist snögglega – í sinni árlegu golfferð. Inga kynntist ég á golfvellinum á Ísafirði – snaggaralegur og kröftugur karl með þessa líka mjúku golfsveiflu. Við áttum oft eftir að spila golf saman – stundum tveir en þó oftar í félagi við tvo aðra góða golfara frá Ísafirði, þá Tryggva Guðmunds og Finn Magnússon. Við félagarnir lékum oftar en ekki saman í liði gegn Tryggva og Finni – og áttum góðar stundir saman. Og nú er Ingi allur og horfinn okkur sjónum þó að líklegast fylgist hann með úr fjarska.

Ingi var afskaplega réttsýnn maður og lét ekkert eiga hjá sér í þeim efnum – þoldi ekki óréttlæti og fannst mjög hallað á hinn vinnandi mann – verkamanninn sem stritar fyrir lágmarkslaunum. Og vinnusamur var Ingi. Oft mætti hann á golfvöllinn eftir að hafa beitt frá því fyrir birtingu – dauðþreyttur en lék þó ævinlega vel, enda frábær golfari. Og naut ég góðs af því enda var Ingi þeim hæfileika gæddur að geta sagt til og ráðlagt með golfið – góður kennari. Ég lærði mikið af Inga og naut þess að spila með honum golf. Nú þykist ég vita að hann er kominn í faðm sinnar elskulegu Pim sem lést eftir erfið veikindi 2014 og þau farin að spila golf saman á ný – en hún eins og Ingi naut þess að leika golf í Tungudalnum fallega. Ég færi ættingjum Inga og vinum mínar innilegustu samúðarkveðjur. Minning um góðan pilt og góðan golfara lifir.

Þorleifur Ágústsson.