[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Frumvarp um að fella úr gildi lög um orlof húsmæðra hefur nú verið lagt fram í fimmta skipti.

Sviðsljós

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Frumvarp um að fella úr gildi lög um orlof húsmæðra hefur nú verið lagt fram í fimmta skipti. Verði það að lögum verður sveitarfélögum ekki lengur skylt að verja fé til orlofssjóðs húsmæðra, en áætlað er að það framlag verði um 35 milljónir í ár. Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins og segir löngu tímabært að nema þessi lög úr gildi, þau séu tímaskekkja.

Kvenfélagasamband Íslands skiptir landinu í orlofssvæði. Á hverju svæði starfar orlofsnefnd sem skipuleggur orlofið á svæðinu. Fjárframlög til orlofsins koma frá sveitarfélögunum og námu 104.15 kr. á hvern íbúa fyrir tveimur árum og eftir því sem næst verður komist hefur sú upphæð lítið breyst. Þetta þýðir til dæmis að í Reykjavík einni og sér, þar sem búa yfir 122 þúsund manns, nema framlögin tæpum 13 milljónum. Í Kópavogi eru framlögin rúmlega 3,5 milljónir og á Akureyri eru þau tæpar tvær milljónir. Á landsvísu nema fjárframlög til orlofs húsmæðra samtals um 35 milljónum.

„Þetta er í andstöðu við það sem hefur verið að gerast í jafnréttismálum,“ segir Vilhjálmur. „Konur taka þátt á vinnumarkaði til jafns við karla og mér finnst skjóta skökku við að gert sé ráð fyrir því að þær séu allar heimavinnandi.“

Vilhjálmur segir að sveitarfélögin hafi um skeið kallað eftir þessari breytingu. „Við erum að bregðast við því, en það er ekkert sem bannar einstaka sveitarfélögum að halda þessu áfram, ef þau kjósa það.“

Konur á öllum aldri

„Það er mjög mikil þörf á húsmæðraorlofi og það væri virkilega slæmt ef það myndi leggjast af,“ segir Guðlaug Erla Jónsdóttir, formaður Orlofsnefndar húsmæðra í Kópavogi.

Hún segir að eldri konum hætti til að einangrast félagslega, margar þeirra séu með afar lág eftirlaun og þátttaka í orlofsferðum húsmæðra sé liður í að sporna við einangrun og gera þessum hópi kleift að ferðast. „Við vitum að eftir því sem fólk er virkara í félagslífi, er það heilbrigðara bæði andlega og líkamlega. Ég held að það sé verið að spara heilbrigðiskerfinu heilmikið með þessum ferðum. Við megum heldur ekki gleyma því að margar fullorðnar konur eru í fullu og ólaunuðu starfi við að hlúa að barnabörnunum.“

Spurð hvort þátttakendur séu eingöngu eldri konur segir Guðlaug svo vera að mestu leyti. „En yngri konurnar eru að koma meira inn og í fyrra tóku þátt konur á aldrinum 42-87 ára.“

Lýsir vanvirðingu

Allar konur sem hafa haldið heimili, annaðhvort fyrir sjálfar sig eða fleiri, geta sótt um þátttöku í ferðunum burtséð frá því hvort þær starfa utan heimilis eða ekki. Ferðirnar eru yfirleitt ekki greiddar að fullu, heldur eru þær niðurgreiddar, en í lögum um orlof húsmæðra segir að orlofsnefndum sé heimilt að láta orlofsþega greiða allt að 15% af beinum kostnaði ef þörf krefur. Fjórar ferðir eru skipulagðar á vegum Orlofsnefndar húsmæðra í Kópavogi í ár; tvær innanlands og tvær utanlands, til Frakklands og Englands og Guðlaug segir að líklega muni um 50 fara í innanlandsferðina og um 40-50 til útlanda.

Stundum er sagt að það sé tímaskekkja að sveitarfélögin niðurgreiði orlof fyrir hluta íbúanna á þeirri forsendu einni að þeir séu konur. Guðlaug segist oft hafa heyrt þetta. „Að mínum dómi lýsir þetta bæði vanvirðingu og vanþakklæti í garð þeirra kvenna sem hafa unnið launalaus störf í gegnum tíðina. Þetta eru konur sem ekki fengu fæðingarorlof og áttu ekki kost á leikskóla fyrir börnin sín. Þær saumuðu fötin á börnin og unnu matinn frá grunni. Og á meðan konur eru með lægri laun en karlar, og þar með lægri eftirlaun, er full ástæða til að halda þessu áfram,“ segir Guðlaug.