Sækir Gunnhildur Gunnarsdóttir úr Snæfelli leitar leiða til að komast að körfu Hauka í leik liðanna á Ásvöllum. Hún skoraði 11 stig og tók 8 fráköst.
Sækir Gunnhildur Gunnarsdóttir úr Snæfelli leitar leiða til að komast að körfu Hauka í leik liðanna á Ásvöllum. Hún skoraði 11 stig og tók 8 fráköst. — Morgunblaðið/Golli
Stjarnan fór langt með það í gærkvöld að tryggja sér fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitil kvenna með því að sigra Val, 72:68, í hörkuleik í Garðabænum.

Stjarnan fór langt með það í gærkvöld að tryggja sér fjórða og síðasta sætið í úrslitakeppninni um Íslandsmeistaratitil kvenna með því að sigra Val, 72:68, í hörkuleik í Garðabænum. Valur varð að vinna til að eiga enn von um að ná fjórða sætinu en nú skilja sex stig liðin að þegar þrjár umferðir eru eftir og Stjarnan hefur betur í innbyrðis viðureignum liðanna í vetur. Njarðvík er nú eina liðið sem getur komist uppfyrir Stjörnuna og náð fjórða sætinu.

Skallagrímur er úr leik í baráttunni um efsta sætið eftir skell í Keflavík í gærkvöld, 72:51. Eftir að staðan var 32:27 í hálfleik, Skallagrími í hag, skoruðu Borgnesingar aðeins þrjú stig í þriðja leikhluta og Keflavík stakk af.

Snæfell er áfram tveimur stigum á undan Keflavík eftir sigur á Haukum í Hafnarfirði, 75:60, og líklega ráðast úrslitin endanlega þegar Snæfell og Keflavík mætast í lokaumferðinni í Stykkishólmi.

Grindavík vann langþráðan sigur eftir þrettán töp í röð, 73:72 gegn Njarðvík, og á enn tölfræðilega möguleika á að halda sér í deildinni.. vs@mbl.is