Þjálfarinn Hannes Jón Jónsson ræðir við lærisveina sína hjá West Wien.
Þjálfarinn Hannes Jón Jónsson ræðir við lærisveina sína hjá West Wien. — Ljósmynd/Sebastian Pucher
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Austurríki Ívar Benediktsson iben@mbl.

Austurríki

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég er með framtíðarlið í höndunum og það hefði verið rangt af mér að yfirgefa það í miðju verkefni,“ sagði Hannes Jón Jónsson, þjálfari austurríska efstudeildarliðsins West Wien, við Morgunblaðið í gær eftir að hann skrifaði undir nýjan samning við félagið um að þjálfa lið þess fram á mitt árið 2019.

Hannes Jón kom til West Wien sumarið 2015 og tók við þjálfun liðsins af Eyjamanninum Erlingi Richardssyni. Hannes Jón lék með West Wien leiktíðina 2015/16 samhliða þjálfuninni en hefur ekkert leikið með liðinu í vetur.

Hannes Jón segist vera í afar spennandi verkefni hjá félaginu um þessar mundir. „Eftir síðasta keppnistímabil skárum við liðið og losuðum okkur við nær alla leikmenn sem voru eldri en 23 ára. Við erum með þéttan kjarna af strákum á aldursbilinu 20-23 ára og ákváðum að veðja á þá,“ segir Hannes Jón og segist vera ánægður með árangurinn til þessa. „Árangurinn í vetur er góður. Nú erum við í efri hluta deildarinnar og erum öruggir um sæti í úrslitakeppni átta bestu liðanna,“ segir Hannes Jón.

„Það var tómt bras á liðinu í fyrra auk þess að vera dýrt og með nokkra eldri leikmenn sem skiluðu ekki sínu. Stjórnin og ég vorum sammála um að rýma til og hleypa þeim yngri að vegna þess að nægur efniviður var fyrir hendi.

Markmiðið okkar á þessari leiktíð er að komast í undanúrslitin um austurríska meistaratitilinn. Það væri sigur með ungt lið sem er 40% ódýrara en á síðasta keppnistímbili.

Um þessar mundir erum við með fimm leikmenn í A-landsliðshópnum hjá Patreki Jóhannessyni landsliðsþjálfara. Til viðbótar eru sjö leikmenn frá okkur í svokölluðu framtíðarlandsliði. Þetta undirstrikar vel hversu efnilegu liði við höfum úr að spila um þessar mundir,“ segir Hannes Jón og bætir við að Patrekur landsliðsþjálfari sé í spennandi uppbyggingarstarfi sem landsliðsþjálfari Austurríkis í karlaflokki.

Spennandi verkefni hjá Patta

Efniviður sé fyrir hendi hjá nokkrum félagsliðum í Austurríki en sum kaupi bara fjóra útlendinga og láta hlutina hafa sinn vanagang ár eftir ár. Önnur vinni vel í uppbyggingunni. „Fyrir Patta er það mjög spennandi verkefni að vera með landsliðið um þessar mundir með það að markmiði að ná góðum árangri þegar Evrópumótið fer fram í Austurríki árið 2020. Hann er með mjög ungt og lofandi landslið í höndunum um þessar mundir sem hefur alla burði til að ná góðum árangri,“ segir Hannes Jón.

Æfingaaðstaða West Wien er fyrsta flokks að sögn Hannesar Jóns, mun betri en hann þekki til hjá mörgum öðrum félagsliðum, s.s. í Þýskalandi þar sem hann lék um árabil. „Svo er Vínarborg skemmtileg borg þar sem mér og fjölskyldunni líður vel,“ segir Hannes Jón, sem á þrjú börn með eiginkonu sinni.

Ekki hættur að spila

„Ég ætla mér að vera með liðið næstu tvö árin og stend og fell með þeirri ákvörðun,“ segir Hannes Jón.

Hannes segir starf sitt hjá West Wien vera afar lærdómsríkt. Það snúist ekki bara um að mæta á æfingar og leiki og stýra í leikjum og á æfingum heldur verði að vinna í ýmsum þáttum í kringum liðið.

Hannes Jón hefur ekkert leikið með West Wien í vetur en hefur ekki endilega lagt skóna á hilluna góðu. „Ég gaf engar yfirlýsingar í fyrra um að ég væri hættur. Það er ekkert útilokað að ég spili aftur þótt ég hafi ekkert verið með í vetur. Ég var til dæmis með á æfingu í morgun og var langbestur. Ég er tilbúinn að stökkva inn í liðið ef eitthvað kemur upp á sem kallar á það,“ segir Hannes Jón.

Það var erfitt hlutverk að vera spilandi þjálfari í fyrra. Þetta gekk ekki upp hjá mér þótt það geti eflaust gert það hjá öðrum.“

Hannes Jón hefur verið erlendis í 13 ár sem atvinnumaður í handknattleik; í Danmörku, Noregi, Þýskalandi og nú í Austurríki. Hann viðurkennir að það togi alltaf í sig að flytja heim en einnig langi sig að reyna enn frekar á þjálfaraferilinn. „Þegar samningurinn rennur út hér eftir tvö ár langar mig að spreyta mig á stærra sviði. Ef mér tekst það ekki kemur maður bara heim því landið bláa togar alltaf í mann.“