Það voru ferskir vindar sem blésu um viðtal við Guðna Th. Jóhannesson, forseta, í nýju tímariti Lögréttu sem kom út í byrjun vikunnar og greint var frá í frétt í Morgunblaðinu á mánudagsmorgun.

Það voru ferskir vindar sem blésu um viðtal við Guðna Th. Jóhannesson, forseta, í nýju tímariti Lögréttu sem kom út í byrjun vikunnar og greint var frá í frétt í Morgunblaðinu á mánudagsmorgun. Þar snerti hann á ýmsu sem orð er á gerandi en einkum hafa orð hans um landsdóm vakið athygli og þegar hann segir að í endurreisnarstarfinu eftir hrun hafi það verið feigðarflan að nýta forn og úrelt ákvæði um landsdóm.

Þetta er rétt hjá forsetanum. Það var pólitísk ákvörðun að draga einn mann fyrir dóminn og á því bera þeir þingmenn ábyrgð sem greiddu því atkvæði sitt. Og þó að fremur stuttur tími sé liðinn frá því þetta gerðist, hefur þessi ákvörðun þeirra elst frámunalega illa. Það er því óhætt að taka heils hugar undir orð forsetans þegar hann segir í viðtalinu að mönnum muni varla takast að finna einn mann sem vill að málum verði hagað með þessum hætti í framtíðinni.

Það bar til um þær mundir sem meiri hluti þingheims fór svona að ráði sínu, að samþykkt var á Alþingi að hefja skyldi vinnu við endurskoðun laga um ráðherraábyrgð sem og laga um landsdóm. Enn sjást ekki nokkur merki þess.

Frá hruni hefur þeirrar umræðu orðið vart að vinda þurfi bráðan bug að því að setja lýðveldinu nýja stjórnarskrá. Helst hefur mátt skilja svo að hrunið hafi verið stjórnarskránni að kenna og til að fyrirbyggja að svo fari á ný þurfi að endurgera hana frá grunni. Þetta er umdeild skoðun svo vægt sé til orða tekið. Það skiptir engu máli þó að menn haldi því fram að stjórnarskráin frá 1944 hafi í upphafi verið sett til bráðabirgða. Reyndin er sú að stjórnarskráin hefur í öllum meginatriðum reynst vel. Gerðar hafa verið á henni nokkrar breytingar og viðbætur, svo sem mannréttindakafla hennar, svo dæmi sé nefnt. Sú aðferð hefur gefist vel og lengst af hefur verið um hana víðtæk sátt. Stjórnarskrám á ekki að umbylta eða snúa út á röngunni eftir því sem vindar blása.

Og nú víkur sögunni aftur að landsdómi. Á mánudag sagði Birgitta Jónsdóttir, þingmaður, í kvöldfréttatíma Sjónvarpsins að hún væri ekki spennt fyrir að endurskoðunin væri bundin við þetta ákvæði um landsdóm, heldur þyrfti að breyta allri stjórnarskránni um leið og samþykkja frumvarp stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá. Hún myndi ekki styðja breytingu á þessu ákvæði einu. Á það hefur Birgir Ármannsson, þingmaður, bent að breytingum á stjórnarskránni hafi staðið helst fyrir þrifum að menn hafi viljað hengja of marga pinkla á breytingarnar.

Þeir sem lagst hafa á sveif með Birgittu Jónsdóttur í þessum efnum hafa því tekið stjórnarskrána í gíslingu með því að neita að fella út afdankað og fornt ákvæði um landsdóm af því að ekki stendur til að skrifa nýja stjórnarskrá frá grunni, jafnvel þótt þeir séu sammála um þörf á þeirri bragarbót. Það er sérkennileg afstaða. jonth@mbl.is

Jón Þórisson