Það þarf að lengja starfsþjálfunarnámskeið nýrra þingmanna

Kannanir hafa sett ofan upp á síðkastið, ekki síst erlendis, eftir að kannarar hafa spáð af sér. Sumar kannanir eru skrítnari en aðrar. Þær upplýsa til að mynda að svo og svo margir treysti einhverjum miðli. Samanburður við aðrar kannanir um hversu margir fylgist með þeim miðli sýnir að það gerir aðeins lítið brot af þeim sem treysta honum! Það er kannski ástæðan fyrir traustinu?

Alþingi er stofnun sem nýtur lítils trausts. Enginn veit svo sem hvers vegna. Skringilegheit eins og fréttir um „fundarstjórn forseta“ eru auðvitað ekki hjálpleg. Stundum verða almennar umræður jafn skringilegar. Að undanförnu hefur einn þingmanna Vinstri grænna farið mikinn í umræðum um fjárlög og samgönguáætlun þingsins, eins og allt sé það einn og sami grauturinn. Virðist út frá því gengið að hafi eitthvað komist í samgönguáætlun þá sé það lögbrot lúti fjárlög ekki þeirri niðurstöðu. Ekki er fótur fyrir því. Samgönguáætlanir, eru þarft hjálpartæki fyrir ráðuneytið sem þar með hefur fengið leiðbeinandi blessun þings um það, í hvað skuli ráðist þegar fjármunir fást. Við fjárlagagerð þarf að taka mið af mörgu öðru en því. Framgangur samgönguáætlunar fer svo eftir því sem ákveðið er á fjárlögum. Aldrei fást allir þeir aurar sem óskast og geta skattgreiðendur þakkað sínum sæla fyrir það. Ráðherra málaflokksins tekur mið af því fé sem fæst. Það er leikaragangur þegar látið er eins og óvæntur harmleikur hafi orðið, tefjist einhverjar framkvæmdir, sem góð sátt er um að ráðast í á næstu árum. Þær koma nokkrum misserum síðar en aðrar.

Það er ekki „ráðherraræði“ þótt ráðherrann raði framkvæmdum í samræmi við fjárheimildir. Þingið ákveður fjárlögin, ekki samgönguráðherrann. Þingið á síðasta orðið um samgönguáætlun. Það hefur þá lagt meginlínurnar. Þegar ráðherra hliðrar til verkefnum til að falla að fjárlögum þá gerir hann það langoftast innan samgönguáætlunar. Séu frávik óhjákvæmileg hefur hann samráð við viðkomandi þingnefnd. Bullumræða, eins og sú sem farið hefur fram að undanförnu, lækkar enn risið á þinginu.