[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
*„Ég byrjaði að æfa á mánudaginn og stefnan er að ég spili á móti Flensburg í Meistaradeildinni á laugardaginn,“ sagði Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, við mbl.is í gær.

*„Ég byrjaði að æfa á mánudaginn og stefnan er að ég spili á móti Flensburg í Meistaradeildinni á laugardaginn,“ sagði Aron Pálmarsson, landsliðsmaður í handknattleik, við mbl.is í gær. Aron hefur glímt við erfið meiðsli sem hafa haldið honum frá keppni síðan í lok nóvember eða frá því hann spilaði með Veszprém gegn Paris SG í Meistaradeildinni. „Ég er ekki alveg orðinn 100% en þetta er allt í áttina,“ sagði Aron, sem var sárt saknað með íslenska landsliðinu á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í janúar.

* Tyrone Mings, leikmaður Bournemouth, hefur verið dæmdur í fimm leikja bann fyrir að traðka ofan á höfði Zlatan Ibrahimovic , framherja Manchester United, er liðin mættust í ensku úrvalsdeildinni um síðustu helgi. Mings var kærður af enska knattspyrnusambandinu fyrir ofbeldisfulla hegðun, en hann áfrýjaði kærunni og var bannið því lengt. Zlatan svaraði fyrir sig með því að gefa Mings fast olnbogaskot í andlitið og var Svíinn dæmdur í þriggja leikja bann fyrir sinn þátt.

*Kylfingurinn Haraldur Franklín Magnús hafnaði í fjórða sæti á atvinnumóti á Spáni sem lauk á laugardaginn. Mótið var hluti af Nordic Golf-mótaröðinni. Haraldur lék samtals á sex höggum undir pari. Andri Þór Björnsson hafnaði í 13. sæti á þrem höggum undir pari og Guðmundur Ágúst Kristjánsson var í 23. sæti á parinu. Axel Bóasson komst hins vegar ekki í gegnum niðurskurðinn en hann lék á einu höggi yfir pari.

*Frakkar, sem verða fyrstu andstæðingar íslenska kvennalandsliðsins á EM kvenna í knattspyrnu í Hollandi í sumar, unnu heimsmeistara Bandaríkjanna, 3:0, í úrslitaleik á SheBelieves-mótinu í Bandaríkjunum í fyrrinótt. Frökkum dugði jafntefli til að vinna mótið en þeir komust í 1:0 strax á 8. mínútu þegar Camille Abily skoraði úr vítaspyrnu. Frakkar voru varla hættir að fagna markinu þegar Eugenie Le Sommer bætti öðru marki við mínútu síðar og Abily var svo aftur á ferðinni á 63. mínútu þegar hún innsiglaði öruggan sigur Frakka.