Skemmtir Hinn sænski Måns Zelmerlöw skemmtir á lokakvöldinu og situr jafnframt í dómnefnd.
Skemmtir Hinn sænski Måns Zelmerlöw skemmtir á lokakvöldinu og situr jafnframt í dómnefnd.
Það kennir ýmissa grasa í Söngvakeppni Sjónvarpsins í ár en úrslitin fara fram í Laugardalshöll á laugardaginn kemur.

Auður Albertsdóttir audura@mbl.is

Lögin sjö í Söngvakeppni Sjónvarpsins eru eins fjölbreytt og þau eru mörg. Í hópnum má finna sorglega ballöðu, „hresst ástarlag“, „gleðisprengjulag“ og allt þar á milli. Það er ljóst að mikill metnaður hefur verið lagður í lögin, bæði af laga- og textahöfundum og svo af flytjendunum sjálfum.

Alls kepptu tólf lög í Söngvakeppninni þetta árið í tveimur undankeppnum og voru sex lög kosin áfram í símakosningu, auk þess sem framkvæmdastjórn Söngvakeppninnar ákvað að grípa til svokallaðs svartapéturs og hleypa laginu „Bammbaramm“ eftir Hildi Kristínu Stefánsdóttur í úrslitakeppnina. Lögin voru flutt með íslenskum texta í undanúrslitum, en verða nú flutt með enskum texta.

Á keppniskvöldinu á laugardag troða upp með skemmtiatriði þau Greta Salóme Stefánsdóttir, sem keppti fyrir Íslands hönd árin 2012 og 2016, og Måns Zelmerlöw, sem sigraði í Eurovision-keppninni 2015, en heimildir herma að Zelmerlöw verði meðal þeirra sem sitja í sjö manna alþjóðlegri dómnefnd sem meta keppendur kvöldsins.

Valið á sigurlaginu verður með svipuðu sniði og síðastliðin ár. Atkvæði dómnefndar og símaatkvæði landsmanna vega jafnt í fyrsta vali. Þá kemur í ljós hvaða tvö lög eru stigahæst og þegar þau hafa verið flutt aftur, verður kosið á ný. Í það skipti ráðast úrslitin eingöngu með símakosningu landsmanna. Í ár verður dómnefndin fjölþjóðleg, en hún er skipuð sjö fagmönnum sem koma víða úr heiminum. Mun þetta vera í fyrsta skipti í sögu keppninnar hérlendis sem alþjóðleg dómnefnd er fengin til að meta keppnislögin, en nöfn dómnefndarmanna verða upplýst þegar nær dregur lokakeppninni.