Ásdís Hjálmsdóttir
Ásdís Hjálmsdóttir
Þrír Íslendingar keppa á hinu árlega Vetrarkastmóti Evrópu sem fram fer á Kanaríeyjum um helgina.

Þrír Íslendingar keppa á hinu árlega Vetrarkastmóti Evrópu sem fram fer á Kanaríeyjum um helgina. Mótið markar upphaf keppnistímabilsins fyrir kastara í greinum sem alla jafna er ekki keppt í innanhúss, en keppt er í spjótkasti, kringlukasti og sleggjukasti, auk reyndar kúluvarps sem er líka innanhússgrein.

Fulltrúar Íslands verða Ólympíufararnir Ásdís Hjálmsdóttir úr Ármanni og Guðni Valur Guðnason úr ÍR, og Vigdís Jónsdóttir úr FH.

Guðni Valur ríður á vaðið í kringlukasti í dag og keppir í flokki 23 ára og yngri. Hann er þar skráður með næstbestan árangur eða 63,50 metra, og er einn fimm sem kastað hafa yfir 60 metra. Í eldri flokknum keppir meðal annars lærisveinn Vésteins Hafsteinssonar, Svíinn Daniel Ståhl, sem átti lengsta kastið síðasta ár.

Ásdís tvívegis fengið brons

Vigdís og Ásdís keppa á morgun. Vigdís keppir í U23-flokki í sleggjukasti þar sem Íslandsmet hennar síðan í fyrra er 58,82 metrar. Hún er skráð inn í mótið með 15. besta árangurinn af 19 keppendum í sínum flokki.

Ásdís hefur keppt í spjótkasti á Vetrarkastmóti Evrópu í mörg ár og vann til bronsverðlauna í fyrra, sem og árin 2009 og 2011. Hún er að þessu sinni skráð með sjötta besta árangurinn af 15 keppendum en það er Íslandsmet hennar, 62,77 metrar. sindris@mbl.is