Hollenskur karlmaður, sem dæmdur var í fimm ára fangelsi hér á landi árið 2015 og sætti farbanni, er horfinn og hafa yfirvöld ekki hugmynd um hvar hann er niður kominn.

Hollenskur karlmaður, sem dæmdur var í fimm ára fangelsi hér á landi árið 2015 og sætti farbanni, er horfinn og hafa yfirvöld ekki hugmynd um hvar hann er niður kominn. Hulda María Stefánsdóttir, sem fer með mál mannsins fyrir embætti ríkissaksóknara, kvaðst í samtali við mbl.is í gær ekki geta svarað því hvernig manninum tókst að yfirgefa landið þrátt fyrir farbann. Aðspurð sagði hún að vissulega væri fylgst með því að menn í farbanni færu ekki úr landinu. „En hann hefur fundið leið. Það eru milljónir flugfarþega. Það eru fölsuð skilríki og ýmsar leiðir,“ sagði Hulda María og benti hún á að hugsanlega gæti lögmaður mannsins sagt til um hvernig honum tókst að stinga af.

„Ég hef enga vitneskju um þetta,“ sagði Björgvin Jónsson hæstaréttarlögmaður, sem var lögmaður Hollendingsins. Kvaðst Björgvin ekki hafa hugmynd um hvernig skjólstæðingi sínum hefði tekist að yfirgefa landið. Maðurinn var dæmdur í Héraðsdómi Reykjavíkur í september 2015 fyrir umfangsmikið fíkniefnasmygl, einnig hlutu samlandi hans og tveir Íslendingar dóm vegna málsins.