Hraunbær 103A Hugmynd arkitekta að útliti hinnar nýju byggingar.
Hraunbær 103A Hugmynd arkitekta að útliti hinnar nýju byggingar. — Teining/Archus arkitektar
Sigtryggur Sigtryggsson sisi@mbl.is Borgarráð hefur samþykkt úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Hraunbæ 103A í Árbæjarhverfi.

Sigtryggur Sigtryggsson

sisi@mbl.is

Borgarráð hefur samþykkt úthlutun lóðar og sölu byggingarréttar að Hraunbæ 103A í Árbæjarhverfi.

Fyrir fund borgarráðs var lagt fram bréf skrifstofu eigna og atvinnuþróunar þar sem óskað var eftir að ráðið úthlutaði Dverghömrum ehf. í Hafnarfirði lóð og byggingarrétti. Á lóðinni að Hraunbæ 103A verður reist mikil bygging, 6 til 10 hæðir. Þarna verða 60 íbúðir. Félagsbústaðir hf. hafa kauprétt á 6 íbúðum í húsinu. Gert er ráð fyrir að lóðin verði byggingarhæf í júní 2017.

Kaupferð 540 milljónir

Hámarksbyggingarmagn ofanjarðar verður samtals 6.035 fermetrar að stærð auk 2.750 fermetra bílakjallara. Verð byggingarréttar samkvæmt niðurstöðu útboðs er 540 milljónir króna. Útboði lauk 14. desember síðastliðinn og áttu Dverghamrar næsthæsta tilboðið. Hæstbjóðandi uppfyllti ekki skilyrði um fjármögnun og var tilboð hans ekki tekið gilt.

Íbúðir að Hraunbæ 103A eru ætlaðar fyrir fólk sextíu ára og eldra. Einungis er heimilt að selja og leigja íbúðir í húsinu sem uppfylla þessi skilyrði. Þinglýst verður kvöð um aldursmörk á lóðina í lóðarleigusamningi, að því er fram kemur í bréfi skrifstofu eigna og atvinnuþróunar.

Lóðin Hraunbær 103A er skilgreind sem þéttingarsvæði í Aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 og er ný lóð vestan megin við lóðina Hraunbæ 103-105.

Á lóðinni Hraunbær 103-105 voru árin 1990-91 byggðar íbúðir ætlaðar eldri borgunum. Alls eru íbúðirnar 47 í þremur íbúðaturnum, 6-10 hæða. Þá er á lóðinni þjónustubygging í eigu Reykjavíkurborgar, alls 500 fermetrar.