Iðnaður Í plaströraverksmiðju Sets hf. á Selfossi þar sem Róbert Karel Guðnason vinnslustjóri er við tækin.
Iðnaður Í plaströraverksmiðju Sets hf. á Selfossi þar sem Róbert Karel Guðnason vinnslustjóri er við tækin. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is „Færi ungt fólk í ríkari mæli en nú er raunin til náms í iðn- og tæknigreinum væri atvinnulífið hér á Suðurlandi að ná enn betri árangri en er í dag .

Sviðsljós

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

„Færi ungt fólk í ríkari mæli en nú er raunin til náms í iðn- og tæknigreinum væri atvinnulífið hér á Suðurlandi að ná enn betri árangri en er í dag . Um þetta eru stjórnendur fyrirtækja hér á svæðinu sammála. Þeim er því í mun að kynna krökkunum og foreldrum þeirra ýmsa þá möguleika og tækifæri sem bjóðast í öðru en hefðbundnu bóknámi enda væri þetta til þess fallið að elfa atvinnulíf hér á svæðin u,“ segir Sigurður Þór Sigurðsson, formaður Atorku – samtaka atvinnurekenda á Suðurlandi.

Þann 14. mars standa Atorka og Samtök sunnlenskra sveitarfélaga, það er í gegnum Sóknaráætlun Suðurlands, fyrir svonefndri Starfamessu sem verður í húsum Fjölbrautaskóla Suðurlands. Til messunnar er boðið nemendum 9. – 10. bekkja í grunnskólum á Suðurlandi, það er um 600 krökkum, framhaldsskólanemum á svæðinu sem eru alls um 700, foreldrum þessara ungmenna svo og almenningi öllum. Því verður margt áhugavert í deiglunni.

40 námsleiðir kynntar

Alls er vænst um 2.000 manns á Starfamessuna sem haldin er nú í annað sinn og áformað að halda á tveggja ára fresti. Þar má sjá fjölbreytni til náms og atvinnulífs á svæðinu í hnotskurn og kynnast möguleikum í þeirra ranni. Áætlað er að um 40 starfsgreinar og námsleiðir að þeim verði kynntar á Starfamessunni, af rúmlega 30-35 kynnendum, þá bæði fyrirtækjum og skólum.

Það á ekki síst við á Suðurlandi að kallað sé eftir iðn- og tæknimenntuðu fólki. Á svæðinu eru fjölmörg stór og öflug fyrirtæki sem þurfa mannskap með sérþekkingu til þess að sinna sérhæfðum störfum og stjórnun. Algengt er, segir Sigurður Þór að þegar fyrirtæki eystra auglýsa eftir fólki með háskólamenntun berist 30 til 40 umsóknir en þegar þarf fólk menntað í iðnum eða tæknigreinum eru umsækjendur gjarnan 3-5. Þá hefur komið fram að undanförnu að einungis 12% grunnskólanemenda velja iðn- og tæknigreinar þegar kemur að framhaldsnámi sem er mun lægra hlutfall en í helstu samanburðarlöndum Íslendinga. Er stefnan í dag sú að hlutfallið verði 30% - enda hafa iðnskólar og fleiri sett sér það markmið í þeim dúrnum

Öfug hlutföll

„Hvað fáir unglinga fari í iðn- og tækniskóla er í alveg öfugu hlutfalli við það sem atvinnulífið þarfnast,“ segir Sigurður Þór Sigurðsson . „Þessu viljum við breyta, bæði með samtali við skóla og ungt fólk sem er að velja sér nám og starfsvettvang þar sem svo sannarlega eru mörg tækifæri. Að ná til foreldranna skiptir líka miklu máli, enda skipta viðhorf þeirra mál í vali krakkanna. Foreldrar ættu raunar að vera jákvæðir, enda er rík hefð fyrir iðnmenntun og -störfum hér á Suðurlandi. Í raun eru allir mjög opnir fyrir þessu framtaki okkar í Atorku.“