Sveinn Teitsson var fæddur á Akranesi 1. mars 1931. Hann lést 4. mars 2017. Sveinn ólst upp á Akranesi en hafði búið í Reykjavík um árabil. Foreldrar hans voru Unnur Sveinsdóttir og Teitur Benediktsson. Hann á systurnar Ester og Margréti.

Börn Sveins og fyrri eiginkonu hans, Ágústu Ágústsdóttur, eru þrjú; Halla, sem er fallin frá og lét eftir sig eiginmann og þrjú börn, Árni og Unnur. Seinni eiginkona Sveins er Helga Guðjónsdóttir. Hún var ekkja, átti fimm uppkomin börn og gekk Sveinn börnum þeirra í afa stað. Barnabörnin eru 20.

Sveinn var málarameistari og trésmiður ásamt því að vera meðal bestu knattspyrnumanna á Akranesi um árabil. Hann var leikmaður ÍA á árunum 1949-1964 og leikmaður gullaldarliðsins svonefnda. Hann er sá síðasti sem kveður af þeim leikmönnum sem urðu Íslandsmeistarar 1951, sem var fyrsti titill Skagamanna af mörgum. Nýlega eru látnir þeir Ríkharður Jónsson og Guðjón Finnbogason.

Sveinn lék 196 leiki fyrir ÍA og varð Íslandsmeistari 1951, 1953, 1954, 1957, 1958 og 1960. Þá lék hann 23 landsleiki á árunum 1953-1964 og skoraði tvö mörk í þessum leikjum, m.a eftirminnilegt mark í jafnteflisleik gegn Dönum í Kaupmannahöfn 1959. Hann var fyrirliði landsliðsins í fjórum leikjum. Árið 1958 var Sveinn valinn knattspyrnumaður ársins.

Útför Sveins fór fram 6. mars 2017.

Þegar ég hugsa um afa Venna þá fyllist hjarta mitt af gleði, hann var besti afi sem nokkurt barn gat óskað sér að eiga. Hann var hjartahlýr og svo einstaklega yndislegur, ekki bara sem afi heldur fyrir hver hann var.

Mér fannst ég svo heppin þegar afi kom með möppurnar með mismunandi litablöðum og allir vinir mínir voru undrandi hvernig hægt væri að fá svona, þá hafði afi gatað teikniblöð í fjölmörgum litum og raðað inní möppu, toppaði gjöfina síðan með kúlupennum í alls konar litum. Fyrir litla stúlku sem hafði einstaklega gaman af því að lita og teikna þá var þetta ómetanleg gjöf.

Afi var alltaf til staðar, fyrir jólin kom hann færandi hendi með súkkulaði-jóladagatal, fyrir páskana kom hann með páskaegg, það er því óhætt að segja að við afabörnin vorum dekruð af afa Venna og ömmu Helgu.

Afi var handlaginn og fyrir hesthaus eins og mig þá man ég ennþá eftir gleðinni þegar hann smíðaði hesthús fyrir leikfangahestana mína, afi kunni svo sannarlega að gleðja!

Það var alltaf svo gaman að koma í heimsókn til ömmu og afa og þegar þau komu til okkar, svo mikil hlýja og væntumþykja á báða bóga. Hann kunni alls konar trix sem fengu mann til þess að gapa af undrun, svo fyndinn og hress. Afi elskaði fótbolta enda fyrrverandi landsliðskappi og var fótbolti stór hluti af hans lífi.

Það var mannbætandi að eiga afa Venna í lífinu.

Elsku afi, þín er sárt saknað en minningarnar um þig lifa og er ég svo þakklát og heppin að hafa fengið að eiga þig sem afa minn, takk fyrir allt.

Sylvía Sigurbjörnsdóttir.

Nú þegar komið er að kveðjustund góðs drengs og vinar lifna upp minningar sem einkennast af birtu, gleði og húmor.

Venni afi eins og hann var ævinlega kallaður af börnunum okkar var einstakur maður í alla staði.

Skagamaður í húð og hár, einn af máttarstólpum gullaldarliðs Skagamanna og landsliðsins í fótbolta á annan tug ára, afreksmaður í fyllstu merkingu.

Málarameistari og trésmiður svo eitthvað sé nefnt. Þriggja barna faðir þeirra Árna, Höllu og Unnar og afabörnin voru öll sólargeislar í lífi hans.

Forsaga af komu hans í okkar fjölskyldu var kynni hans við mömmu, sem var búin að vera ekkja í allmörg ár þegar kynni þeirra hófust.

Okkur systkinunum var afar hlýtt til móður okkar og sáum við fyrir erfiða tíma hjá henni eftir að pabbi féll frá. En forsjónin greip inn í og Venni birtist sem sólargeisli inn í líf hennar.

Þar sem mamma var að vinna við miðasölu á gömlu dönsunum í Hreyfilshúsinu birtist Venni og upp frá þeim kynnum varð ævilangt sambýli og traust vinátta þeirra í milli sem náði til allra í fjölskyldunni.

Okkur finnst hann vera táknmynd á byrjun á kvæði Davíðs Stefánssonar:

Þú komst í hlaðið á hvítum hesti,

þú komst með vor í augum þér.

Ég söng og fagnaði góðum gesti

og gaf þér hjartað í brjósti mér ...

Hann var sannkallaður sólargeisli, það birti yfir heimilinu í Stangarholti 26 við komu hans, glaðlyndur orkubolti, sívinnandi, hlýr og umhyggjusamur, og um helgar svífandi um dansgólfið með mömmu á gömlu dönsunum svo eftir var tekið enda bæði afbragðsgóðir dansarar.

Ávallt tilbúinn að rétta öllum hjálparhönd við að mála, vinna við tréverk, skvera af eins og hann nefndi það, alltaf boðinn og búinn.

Minnisstætt er mér einn sunnudag þegar hann kom heim til okkar á Vatnsendablettinn og málaði glugga hússins óbeðinn, fannst honum að komin væri tími á að draga málningu yfir og dytta að.

Eins og ávallt kom hann með glaðning til yngri kynslóðarinnar, sem alltaf hlakkaði til komu afa og hjálpaði honum við vinnuna. Sá yngsti, fimm ára, kom yfirspenntur inn, illskiljanlegur og óðamála og bað um pensil til að hjálpa afa og lá mikið á enda ekki furða, afi Venni málaði ekki eins og aðrir málarar því hann bókstaflega hljóp áfram með málningardósina í annarri hendinni og pensilinn í hinni, upp og niður stigann, stoppaði ekki fyrr en að verki loknu, hvílíkur hraði, ekkert fum né fát og fagmannleg vinna. Sá litli kunni að meta þessar aðfarir við vinnuna.

Mamma og Venni ferðuðust mikið og áttu þau yndislegar stundir saman og ekki skyggði nú á vináttan og hlýleiki Venna við hann Bára bróður sem tók hann með sér í ófáa bíltúra og ferðalög sem tengdi þá mikið saman.

Hann var hrókur alls fagnaðar, mikill húmoristi, stríðinn, sá alltaf björtu hliðarnar á hlutunum.

Á afmælis- og hátíðardögum þegar fjölskyldan kom saman var harmónikkan gjarnan með, þá var mikið sungið og trallað, þar var glatt á hjalla og hann fremstur í flokki, gaman var að sjá hve samhent þið mamma voruð.

En það var sama hvort það vorum við systkinin, makar, börn eða barnabörnin. Þú áttir hug okkar allra.

Árin liðu í gleði, en skugga bar á er Halla dóttir Venna féll frá vegna veikinda frá eiginmanni og þremur ungum sonum um aldur fram, bar hann þá sorg í hljóði innra með sér, það var hans háttur á en þung var sú byrði.

Tíiminn líður og Venni og mamma eru komin með litla íbúð á Dalbrautinni, þau eru bæði komin í frí enda fólk sem var fyrir löngu búið að skila sínu dagsverki.

Mamma fellur frá fyrir um 10 árum, má eiginlega segja að þá hafi hægst á Venna og lífslöngunin minnkað.

Hann er skýrt dæmi um mann sem hafði skoðanir, dugnaðarforkur, stóð ekki í illdeilum við nokkurn mann, vildi öllum gott og var umlukinn jákvæðni, birtu og heiðarleika.

Þín kveðjustund var komin, sjálfur varstu farinn að bíða eftir endurfundum með ástvinum í sumarlandinu.

Um leið og við kveðjum þig, kæri vinur og afi, þökkum við þér fyrir innkomu þína í líf okkar fjölskyldu og þá sérstaklega samfylgd ykkar mömmu, sem var ómetanleg. Minning um góðan dreng er einstök.

Viljum við votta öllum aðstandendum innilega samúð um leið og við kveðjum.

Minning um góðan dreng er einstök.

Sigurbjörn Bárðarson og Fríða H. Steinarsdóttir (Diddi og Fríða)

Ágústa H. Bárðardóttir og Þorsteinn R. Þorsteinsson (Gústa og Steini )

Bárður S. Bárðarson (Bári) og barnabörnin