Ólöf Sigríður Benediktsdóttir fæddist í Steinholti á Vopnafirði 25. október 1936. Hún lést á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum, Kirkjubæjarklaustri, 5. mars 2017.

Foreldrar hennar voru hjónin Stefanía Jóhanna Valdimarsdóttir, f. 1917, d. 2011, og Benedikt Vilhelmsson, f. 1911, d. 1963. Systkini Ólafar eru: Guðrún Anna, f. 1938, Benedikt Valdimar, f. 1941, Sigrún Vilborg, f. 1944, Þórunn Elísabet, f. 1953, Sigurður Vilhelm, f. 1955. Eftirlifandi eiginmaður Ólafar er Lárus Siggeirsson, f. 25. júní 1936. Foreldrar Lárusar voru Siggeir Lárusson, f. 1903, d. 1984, og Soffía Kristinsdóttir, f. 1902, d. 1969. Ólöf og Lárus eignuðust átta börn en þau eru: 1) Jóhanna, f. 1956, maki Martin Howarth, f. 1959. 2) Siggeir, f. 1959, hann á þrjú börn og tvö barnabörn. 3) Soffía, f. 1960, maki Hjalti Jón Sveinsson, f. 1953, þau eiga fimm börn og tíu barnabörn. 4) Benedikt, f. 1961, maki Lilja Magnúsdóttir, f. 1963, þau eiga tvö börn. 5) Njörður, f. 1966, hann á tvö börn. 6) Halla, f. 1969, maki Guðmundur Gíslason, f. 1967, þau eiga tvö börn. 7) Hrund, f. 1971, maki Eiríkur Sigurðsson, f. 1970, þau eiga tvö börn. 8) Sigurður Kristinn, f. 1974, maki Rúna Lísa Þráinsdóttir, f. 1976, þau eiga fimm börn og eitt barnabarn. Ólöf ólst upp á Vopnafirði og stundaði þar hefðbundið grunnskólanám. Henni gekk vel í námi og snemma kom í ljós að hún var mikil hannyrðakona. Hún byrjaði ung að vinna m.a. í fiski og krambúð föður síns. Ólöf flutti 14 ára til Reykjavíkur þar sem hún var í vist fyrsta veturinn. Seinna starfaði hún í Farsóttarhúsinu en veturinn 1954-1955 stundaði hún nám í Húsmæðraskólanum í Reykjavík. Sumarið 1955 starfaði Ólöf á Gistihúsinu á Kirkjubæjarklaustri þar sem hún kynntist Lárusi. Árin 1955 til 1957 vann Ólöf á saumastofu í Reykjavík ásamt því að vera ráðskona á Neðri-Þverá í Fljótshlíð. Árið 1957 fluttist Ólöf á Kirkjubæjarklaustur þar sem hún bjó til æviloka. Ólöf vann ýmis störf samhliða því að reka stórt sveitaheimili, s.s. á Hótel Eddu, Pósti og síma, var veðurathugunarmaður til fjölda ára, auk þess sem hún stofnaði Tjaldstæðið Kirkjubæ 2 árið 1994 sem hún rak ásamt eiginmanni sínum til ársins 2008.

Útför Ólafar fer fram frá Prestbakkakirkju í dag, 11. mars 2017, og hefst athöfnin klukkan 13.

Mamma var fyrsta barn foreldra sinna og hefur fæðingardagur hennar vafalaust verið mikill gleðidagur í lífi þeirra. Ekki er gleðin minni á forsíðu Morgunblaðsins frá þessum sunnudegi. Þar gnæfa auglýsingar um kvikmyndasýningar, leikhús, dansleiki, hlutaveltu og happdrætti. „Hljómsveit leikur allan tímann“, stendur þar. Það var einnig, þegar við börnin komum í heimsókn til hennar á æskuheimili okkar á Kirkjubæ 2 á Síðu, löngu síðar, að eldsnemma á morgnana má segja að hljómsveit hafi leikið allan tímann, frá því kl. 6.30 eða fyrr, og fram eftir morgni, þegar hún var að undirbúa fjögurra stjörnu morgunverð, fyrir „börnin sín litlu“ og dró fram potta, pönnur og áhöld sem vildu stundum skramla fram á gólf öll í einu. Hvergi höfum við systkinin fengið jafnglæsilegan morgunverð og hún reiddi fram. Og það með hljómsveit sem lék allan tímann. Hljómsveitin er nú þögnuð, og hljóðfærin liggja þögul í skápunum. En tónleikarnir, morgunverðarhlaðborðið, ilmurinn af nýbökuðum skonsum, vöfflum og kaffi, lifa í minningunni.

Móðir okkar var sjálfstæð og ákveðin kona. Hún lét ekki segja sér fyrir verkum og lét sér fátt finnast um skoðanir annarra á því sem hún var að gera, hún fór sínar leiðir. Hún var hlý og umhyggjusöm og hugsaði ákaflega vel um sína nánustu. Ef eitthvert okkar átti í tímabundum vandræðum var hún fljót að komast að því og studdi þá viðkomandi heilshugar. Hún var dugnaðarforkur. Á tímabili ráku foreldrar okkar kúa- og sauðfjárbú, fjölsótt tjaldsvæði, önnuðust veðurathuganir á þriggja klukkustunda fresti allan sólahringinn, allt árið um kring samhliða því að reka stórt sveitaheimili þar sem börn og barnabörn voru alltaf velkomin. Það þótti ekki tiltökumál þótt 20-30 manns væru í mat á Kirkjubæ auk þess sem yfir sumartímann voru á heimilinu barnabörn og oftast fleiri en eitt. Þó að mamma gæti verið ströng vildu barnabörnin helst vera á Kirkjubæ enda hugsað um þau af mikilli alúð, alltaf tími til að sinna þeim þótt nóg væri að gera.

Helstu áhugamál mömmu voru plöntur og garðrækt og hannyrðir. Hún leitaðist ávallt við að kynna sér nýjungar hvort sem það var í formi tímarita eða námskeiða tengd hugarefnum hennar. Skrúðgarðinn við Kirkjubæ 2 ræktaði hún á svörtum sandi en þar má finna ótal tegundir plantna. Á seinni árum fékk hún viðurkenningu fyrir vel ræktaðan garð. Hún var mikil hannyrðakona lengst af saumaði hún og prjónaði fötin á sig og allan krakkaskarann eftir sniðum úr nýjustu tískublöðunum. Eftir mömmu liggur mikið magn af flíkum, útsaums- og bútasaumsverkum.

Síðustu árin átti hún við heilsubrest að stríða sem gerði tilveru hennar erfiða. Þann tíma naut hún einstakrar umönnunar Lárusar föður okkar, sem gerði henni kleift að búa á heimili þeirra nánast fram á síðast dag. En segja má að hugurinn hafi rekið hana áfram uns yfir lauk.

Elsku mamma:

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

...

(Valdimar Briem)

Jóhanna, Siggeir, Soffía,

Benedikt, Njörður, Halla,

Hrund og Sigurður Kristinn.

Það var árið 1995 að við Halla dóttir Ólafar og Lárusar kynntumst. Fljótlega kom ég í heimsókn í Kirkjubæ 2. Sá ég þá í fyrsta skipti Ólöfu og áttum við gott samtal saman. Hún vildi kynnast áhugamálum mínum og lífsskoðunum og er ég þakklátur henni fyrir hve vel hún tók mér. Ólöf hafði mikinn áhuga á garðyrkjustörfum og sýndi hún mér garðinn strax í minni fyrstu heimsókn, en hann er í reynd lystigarður.

Alla tíð var hugur hennar til uppbyggingar mikill, sem m.a. kom fram við rekstur myndarlegs tjaldstæðis, en það var mikið hugarfóstur hennar, þar sem snyrtimennska og metnaður þeirra Lárusar var í fyrirrúmi.

Hlýja hennar gagnvart Grími Gísla og Kristínu var mikil og fundu þau vel fyrir henni og var unun að sjá ömmu lesa fyrir þau. Ég kveð nú Ólöfu tengdamóður og er þakklátur fyrir að hún náði að vera í brúðkaupi okkar Höllu þremur dögum áður en hún lést.

Blessuð sé minning hennar.

Guðmundur Gíslason.

Að koma á Kirkjubæ II var eins og mæta í ævintýraland, í raun svolítið eins og maður ímyndaði sér að maður væri kominn í bókina Leynigarðinn. Þar mátti finna endalaust mörg herbergi, með miklu dóti og útskorna fjársjóðskistan sem var full af peningum vakti forvitni og aðdáun okkar allra. Svo var þessi myndarlegi garður með ótal leynistöðum til þess að leika á. Fyrir okkur var Búið hjarta garðsins þar sem við eyddum ófáum stundunum og fékk ímyndunaraflið að ráða þar sem við lékum með gamla potta, rigningarvatn, kindakjálka og sand úr sandkassanum sem var úr traktorsdekki. Í garðinum leyndust líka hættur, hræðilegir kóngulóarvefir innan um framandi plöntur og stærsta ógnin var án efa runninn við innganginn sem var fullur af stórhættulegum geitungum og býflugum. Þessi runni var jafnframt í miklu uppáhaldi hjá ömmu og hann var stranglega bannað að klippa svo ógnin óx með hverju ári sem leið.

Á Kirkjubæ II fengum við barnabörnin oft mikið frelsi frá foreldrum okkar þar sem við fengum að leika lausum hala. Alltaf gátum við treyst á það að amma væri ýmist inni í bæ að bardúsa eitthvað í eldhúsinu eða úti að snyrta garðinn. Á matmálstímum vorum við svo oft send út um allar trissur að sækja allan mannskapinn svo allir fengju nú sína hressingu.

Það mátti nefnilega enginn fara svangur af Kirkjubæ II, eða í rúmið og kvöldkaffi hjá ömmu var í uppáhaldi hjá mörgum okkar. Maturinn hennar ömmu var einstakur. Allt var gert af metnaði, hvort sem það var hádegismatur, rúllutertan með kaffinu eða jólamaturinn, og að sjálfsögðu voru allar máltíðir tvírétta – þríréttað á hátíðisdögum. Eitt sinn var hún beðin um að gera pitsu, sem hún hafði nú ekki gert áður, en eftir að hafa rætt um það í örlitla stund hvernig hún væri gerð var göldruð fram ein sú besta flatbaka sem við höfum smakkað.

Öllu nutum við góðs af færni hennar í handavinnu. Eldri barnabörnin lærðu ýmis handverk af ömmu sinni, sum okkar fengu heimasaumaðar flíkur meðan önnur gramsa í geymslunni hennar eftir gömlum fötum sem amma hafði saumað á systkinin.

Amma gat verið jafn ströng og hún var ljúf, hún vildi að við tækjum hlutina alvarlega og ætlaðist til þess að við yrðum góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar. Gestirnir á tjaldstæðinu voru ekki teknir neinum vettlingatökum af nýfermdum barnabörnunum sem sinntu tjaldvörslu ófá sumur undir handleiðslu ömmu Ólafar.

Það eru margar ljúfsárar minningar sem skjóta upp kollinum þegar við minnumst hennar ömmu okkar en þegar öllu er á botninn hvolft erum við öll þakklát fyrir að hafa verið alin upp af röggsemi og ákveðni þessarar blíðu kjarnakonu sem Ólöf amma var.

Barnabörnin af Kirkjubæ II,

Margrét Rán, Sunna, Ólöf Rún, Sóley, Jóhanna Sif, Baldvin Lár, Lárus Hilmar, Lárus, Rúna, Kristín, Stefán, Elísabet, Grímur Gísli og Hrannar Ingi.

Nú hefur hún Ólöf á Kirkjubæ II kvatt sína jarðvist en hún lést hinn 5. mars síðastliðinn á hjúkrunar- og dvalarheimilinu Klausturhólum. Olla var einstök dugnaðarkona. Nú til dags er gjarnan sagt að konur sem skara fram úr á einhvern hátt séu ofurkonur. Í okkar huga sem þekktum Ollu var hún sannkölluð ofurkona. Olla og Lárus maður hennar eignuðust átta börn. Þau byggðu upp íbúðarhús sitt og bú á Kirkjubæ II í kringum árið 1958. Á þeim árum dugði nú ekki að slá slöku við dagleg verkefni, hvort sem um var að ræða barnauppeldið eða bústörfin á stóru heimili. Olla var ótrúlega afkastamikil kona, hún eldaði mjög góðan mat, saumaði og prjónaði föt á krakkana. Hún var líka góð handverkskona og vann bútasaum og margt fleira fallegt. Svo ræktaði hún líka fallega garðinn sinn með fjölbreyttum trjátegundum, runnum og blómum. Olla var mjög fróð um garð- og trjárækt og keypti m.a. dönsk blöð um garðyrkju og handavinnu.

Á tímabili vann Olla á Símstöðinni á Klaustri og líka á Edduhótelinu. Hún, ásamt Lalla, sá um árabil um veðurathuganir á Klaustri fyrir Veðurstofuna. Svo var hún líka frumkvöðull og framkvæmdakona, lét t.d. byggja upp tjaldsvæðið á Kirkjubæ II með miklum metnaði og sá um umhirðu á tjaldsvæðinu sem var og er rómað fyrir snyrtimennsku. Við höfum bara aldrei skilið hvernig hún Olla komst yfir þetta allt saman. Þegar byggðakjarninn á Klaustri var að byggjast upp á árunum um 1960 til 1980 voru hér mörg börn á ýmsum aldri. Það hefur því örugglega oft verið fjörugt á Kirkjubæ og margir krakkar sem nutu góðs af umhyggju Ollu sem hún sýndi þeim öllum. Við Hörgslandsfjölskyldan eigum margar góðar minningar frá þessum árum. Krakkarnir voru leikfélagar krakkanna á Kirkjubæ. Það var sérstaklega spennandi hjá strákunum að sniglast í vélahúsinu hjá Lalla. Það er því líklegt að stundum hafi komið inn til Ollu litlir gestir með óhreinar hendur en fengið svo eftir handþvott mjólk og kökur sem alltaf voru á borðum í Kirkjubæ.

Við minnumst allra fjölskylduboðanna, á fyrri árum, hjá Ollu og Lalla á Kirkjubæ um jólaleytið og einnig margra annarra viðburða í stórfjölskyldunni þar sem Olla sá um að allt gengi upp og að allir færu saddir og sælir frá henni. Olla kom í hvíldarinnlögn að Klausturhólum nokkru eftir að Kristinn mágur hennar kom þangað til dvalar rétt fyrir síðustu jól. Það var hjartnæmt að fylgjast með umhyggju Ollu fyrir Kidda mági sínum, þrátt fyrir að hún sjálf væri orðin veikburða og bundin í hjólastóll rétt eins og hann. Það er því skammt högga á milli hjá fjölskyldum okkar á Kirkjubæ og Hörgslandi, en Kiddi lést á Klausturhólum hinn 19. febrúar síðastliðinn. Nú eru þau bæði horfin á braut og laus við alla fjötra. Um leið og við minnumst Ollu með hlýhug og söknuði vottum við Lalla, börnum hans og fjölskyldum innilegustu samúð.

Ólafía, Jakob, Sigurður,

Soffía, Gunnlaugur og

fjölskyldur Hörgslandi.